Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 20:58:42 (4546)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:58]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir góða ræðu. Það sem mig langar til að gera í þessari ræðu minni er að leggja svolítið út af því sem hv. þingmaður talaði um, þ.e. um þá hugmyndafræði sem er að baki falli íslenska bankakerfisins í október sl.

Við höfum heyrt marga lýsa ástæðunum héðan úr stóli Alþingis og yfirleitt hafa allir verið sammála um að þetta hafi verið stjórnvöldum að kenna, þetta hafi verið græðgi kapítalistanna að kenna og eftir sitji öreigarnir með bagga. Oft tala menn um annað hugmyndakerfi sem muni leiða okkur til betri vegar. Mig langar til að segja þrjár sögur, með leyfi forseta.

Sú fyrsta hófst 3. febrúar árið 1637 þegar verð á túlípönum í Hollandi fór að falla. Þann dag kostaði einn laukur 2.500 flórínur sem var ígildi árslauna 16 iðnaðarmanna. Þetta er ein frægasta bóla sem orðið hefur í heiminum. Þegar eftirspurn eftir túlípönum skrapp skyndilega saman vegna þess að verðið var komið langt út fyrir alla þjófabálka urðu gríðarlega margir Hollendingar gjaldþrota. Í kjölfarið komu fram ásakanir um óheiðarlega viðskiptahætti og svindl, spákaupmenn leituðu til stjórnvalda um hjálp við að koma markaðnum aftur af stað til að lágmarka tapið og túlípanakaupmenn voru sakaðir um spillingu og græðgi.

Tæpum 100 árum eftir þetta hófst mikil spákaupmennska með bréf í félagi sem hét The South Sea Company og eftir því er bóla nefnd sem kölluð er South Sea Bubble. Fyrirtækið lánaði almenningi peninga til að fjárfesta í hlutafé þess og fyrirtækið var fjármagnað með því að skipta á lánum og hlutafé. Það var sáralítill hagnaður í félaginu sem byggðist á einokun og þrælasölu í Mið- og Suður-Ameríku. Að lokum hrundi hlutabréfaverðið, bólan sprakk og í kjölfarið varð fjöldi fólks gjaldþrota þar sem skuldirnar stóðu í stað en hlutabréfin urðu verðlaus. Kunnugleg saga ekki satt? Eignir stjórnenda félagsins voru gerðar upptækar og þeim dreift til hluthafa sem lokkaðir höfðu verið til viðskiptanna. Í breska þinginu kom fram tillaga um að bankamenn yrðu settir í poka fulla af snákum og þeim yrði fleygt í ána Thames.

Víkur nú sögunni fram á þessa öld. Árið 2007 seldist fermetri af íbúðarhúsnæði í Pudong í Sjanghæ fyrir 13 þús. renminbi sem var þrettánföldun á verði 10. áratugarins. Verðið var drifið áfram af miklu lausafé og spákaupmennsku og þegar það þvarr í upphafi fjármálakreppunnar sem við lifum nú kolféll fasteignamarkaðurinn í Sjanghæ og margir töpuðu miklum peningum. Í kjölfarið voru um 50 kínverskir embættismenn handteknir og margir þeirra voru líflátnir.

Engin þessara bóla og engin þessara fjármálakreppa sem spanna 400 ár gerðist í markaðshagkerfi. Tilgangurinn með þessum dæmum er að sýna fram á það að bólur geta gerst við alls konar hagskipulag, það er ekki bundið við kapítalískt hagskipulag. Seinasta dæmið var úr kommúnísku hagskipulagi.

Hvað um það. Þessar litlu sögur voru til að beina sjónum að því að í hagskipulaginu er sprengjan ekki fólgin heldur er hún miklu fremur fólgin jafnvel í trúfræði. Það sem kemur þessu af stað er einfaldlega hægt að finna í dauðasyndunum sjö sem eru græðgi, hégómi, losti, reiði, öfund o.s.frv. Þar er skýringanna að leita. Þeirra er að leita í veikleika okkar mannanna. Það er þess vegna sem hægt er að rekja tugi fjármálakreppa í heiminum. Þær eru ekki einhverjum einstökum stjórnmálaflokki að kenna eða einhverri einstakri hugmyndafræði, þær er alltaf að finna og þær gerast væntanlega vegna dauðasyndanna sjö.

Mig langar til að víkja aðeins að þeirri umræðu sem hefur verið undanfarna tvo daga um breytingartillögur og um frumvarpið um ríkisábyrgðina sem við ræðum hér vegna Icesave. Það virðist vera sem mikils misskilnings gæti í umræðu þingmanna um ýmis mál. Steininn tók úr í morgun þegar hv. varaformaður fjárlaganefndar lýsti túlkun sinni á þeim fyrirvörum sem hópur þingmanna og fjárlaganefnd hefur unnið að baki brotnu undanfarna daga. Túlkunin var þannig að það olli miklu uppnámi í þinginu vegna þess að það var fullt tilefni til að ætla að mikils misskilnings gætti um hvað væri í gangi. Eitt af því sem mikill misskilningur virðist ríkja um er hvernig verður með eftirstöðvarnar af því sem ekki verður greitt ef hagvöxtur verður lægri en spár gera ráð fyrir. Til að girða algerlega fyrir það væri e.t.v. ráð að breyta greininni sem fjallar um hvað mun gerast í eitthvað sem gæti verið í þessa áttina, með leyfi forseta: „Lánasamningarnir sjálfir skulu taka breytingum þannig að skuldbinding tryggingarsjóðs verði ekki víðtækari en sem nemur ríkisábyrgðinni samkvæmt lögum þessum.“ Þetta mundi væntanlega girða endanlega fyrir einhvern misskilning hvað verður um eftirstöðvarnar og hvað er átt við með viðræðum og öðru slíku.

Jafnframt held ég að það sé mikilvægt að sá skilningur sem bæði fjárlaganefnd og sá hópur sem kom að þessari vinnu lagði í efnahagstillögurnar eða efnahagsfyrirvarana. Hugsunin er sú að ríkisábyrgðin falli úr gildi árið 2024. Þessi skilningur hefur verið staðfestur af hæstv. forsætisráðherra í umræðum fyrr í dag auk þess sem fulltrúar úr hv. fjárlaganefnd hafa undirstrikað það. En til að þessi skilningur sé algerlega á hreinu held ég að sé rétt að setja beint inn í samninginn eða inn í fyrirvarana að ríkisábyrgðin falli úr gildi 2024.