Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 21:30:53 (4556)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma upp í andsvar við mig. Auðvitað eru vinnubrögðin hér með hreinum ólíkindum, það skrifast ekkert á löggjafarvaldið, það skrifast á framkvæmdarvaldið. Við teljum okkur trú um að hér ríki þrígreining ríkisvaldsins þar sem löggjafarvaldið á að vera sjálfstætt, framkvæmdarvaldið sjálfstætt og dómsvaldið sjálfstætt. Það er bara ekki þannig, samanber það að það er alveg forkastanlegt, og því þyrfti að breyta hið snarasta, þannig að forseti Alþingis kæmi frá stjórnarandstöðunni, þá væri kannski hægt að beisla eitthvað og tempra það vald sem framkvæmdarvaldið hefur: Það er hreint með ólíkindum hvað við þingmenn höfum mátt líða mikið ofbeldi af hálfu framkvæmdarvaldsins varðandi það að hylja og fela gögn. Það hefur verið reynt að slá um þau gögn trúnaði, samanber landbúnaðarskýrsluna í EES-málinu. Hún var opinber fyrir hádegi, svo berast þær fréttir klukkan tólf að hæstv. utanríkisráðherra hefði allt í einu smellt á hana trúnaði eins og ekkert væri. Þetta er náttúrlega alveg hreint með ólíkindum og ég vil meina að þetta sé valdagræðgi núverandi stjórnarflokka að kenna og þá sérstaklega Samfylkingarinnar. Þetta eru engir nýgræðingar. Samfylkingin er búin að vera í næstum tvö og hálft ár í ríkisstjórn, þeir vita alveg hvað þeir eru gera.

Það sem er kannski óhuggulegast að upplifa hér inni á þingi og í þingsölum eru þær hótanir sem bæði einstakir þingmenn verða fyrir og svo þessar endalausu hótanir í fjölmiðlum. Ég vann á sínum tíma með R-listanum og ég get sagt þingheimi það að það voru alveg sömu vinnubrögðin. Það voru þessar hótanir, ef fólk mundi ekki hlýða mundi eitthvað hræðilegt gerast og þetta heldur áfram þannig að fyrst og fremst er þetta valdasýki og Samfylkingin byggir strúktúr sinn mikið upp á þessum hótunum.