Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 21:33:03 (4557)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt komist að kjarna málsins þarna sem hún talaði um þrígreiningu ríkisvaldsins, hún væri í rauninni ekki það sterk og það væri í rauninni framkvæmdarvaldið sem hér réði lögum og lofum. Ég held að það sé einfaldlega kjarni málsins.

Jafnframt er mjög athyglisvert hvernig þingheimur hefur haldið á þessu máli hér, og ég vonast til að menn sjái sóma sinn í því það sem eftir lifir af þessu sumarþingi, sem við vitum ekki enn hvað stendur lengi, og þá jafnframt í framtíðinni að menn sýni þó alla vega þá kurteisi að vera ekki að rífa mál hér út úr nefndum eins og gerðist varðandi náttúruverndaráætlun og líkt og gerðist varðandi þetta mál í efnahags- og skattanefnd, í rífandi óþökk minni hlutans og í miklum ágreiningi. Við búum hér í landi þar sem er mikil óvissa og við megum síst við því að vera að skapa einhvern ágreining um einhver mál sem hreinlega er algjör óþarfi að sé ágreiningur um (Forseti hringir.) líkt og ríkisstjórnin virðist vera að gera.