Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 21:42:25 (4563)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni skelegga og ágæta ræðu. Það mál sem við hér ræðum hefur verið mikið rætt og málefnalega, vil ég segja, og mjög margt hefur komið fram sem hefur bætt málið í meðförum þingsins verulega mikið. Ég er mjög ánægður með það að fólk skuli hafa svona efasemdir um t.d. gildi þeirra breytingartillagna sem hér eru lagðar fram.

Ég fæ reyndar ekki alveg séð hvernig breskur dómstóll geti breytt íslenskri stjórnarskrá, ég fæ ekki séð hvernig það gerist að hann geti búið til einhverja kröfu á ríkissjóð Íslands sem stjórnarskráin leyfir ekki því að í þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir stendur, með leyfi frú forseta:

„Ríkisábyrgðin afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna og fyrirvörum þeim sem koma fram í lögum þessum. Fyrirvararnir eru óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar.“

Þess vegna skil ég ekki alveg hvernig þetta má gerast og væri ágætt ef hv. þingmaður getur sagt mér hvernig breskur dómstóll geti breytt bæði íslenskum lögum og íslenskri stjórnarskrá, sem segir að ekki megi greiða úr ríkissjóði eða veita ríkisábyrgð nema með lögum frá Alþingi.

Síðan er það spurningin um samkeppnisstöðuna og ESA-dómstólinn. Væri ekki rétt að fjárlaganefnd tæki afstöðu til þess og tillit til þess að ef ESA-dómstóllinn skyldi dæma okkur í sektir út af þessum samningi félli ríkisábyrgðin niður því að þá er ESA komið í mótsögn við sjálft sig með því að láta okkur borga eitthvað samkvæmt ESA-reglunum, Evrópusambandsreglunum, og þær segja svo að það megi ekki? Það hlýtur náttúrlega að vera lagaleg mótsögn.