Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 21. ágúst 2009, kl. 22:32:59 (4569)


137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Komið er að lokum 2. umr. um hið gríðarlega stóra mál sem er ríkisábyrgð varðandi þetta fræga Icesave-mál. Þetta mál hefur tekið mikinn tíma í umfjöllun í nefnd og kom inn í þingið í vikunni, hefur hlotið ítarlega og góða umræðu og ýmsar ábendingar hafa komið fram þar sem fólk hefur óskað eftir því að málið verði skoðað betur. Það hefur náðst breið sátt um það í allri vinnunni og þingið á heiður skilinn fyrir þá vinnu. Ég mun óska eftir því að málið fari aftur í fjárlaganefnd til frekari umfjöllunar og við munum taka þann tíma sem þar þarf til að vinna úr þeim atriðum sem hér hafa komið fram í umræðunni sem þarf að skoða betur og taka þann tíma sem til þarf til að viðhalda þeirri breiðu sátt sem hér hefur náðst.

Ég fagna því að þetta er komið til afgreiðslu og óska þinginu til hamingju með að hafa komið þessu máli svona langt.