Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 10:48:28 (4584)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir ræðu hans. Það þarf ekki að rekja þetta mál en eins og hv. þingmaður nefndi hafa menn unnið að þessu lengi og mikið og náð eins góðri sátt eins og mögulegt er. Í Morgunblaðinu í dag segir, með leyfi forseta, í viðtali við Ragnar H. Hall:

„Mér finnst Alþingi hafa sýnt styrk sinn í þessu máli. Nefndarvinnan í fjárlaganefnd hefur gjörbreytt málinu og skapað betri sátt um það,“ segir lögmaðurinn.

Og ég held að allir sem að þessu máli koma komist að þeirri niðurstöðu að við séum að tala um algera byltingu á málinu, gerbreytingu frá því sem lagt var upp með. Ýmsar túlkanir stjórnarliða hafa hins vegar gert það að verkum að málið er orðið erfiðara og er ekki ástæða til að rekja hér. Ég vildi þess vegna, virðulegi forseti, fá að heyra það beint frá formanni fjárlaganefndar hvernig hann túlkar það. Túlkar hann það ekki sem svo eins og aðrir sem þetta mál skoða að hér sé um gerbreytingu á málinu að ræða?