Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 10:52:08 (4587)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að orðið hafa verulegar breytingar og er engin ástæða til að draga úr því. Aftur á móti gerist það gjarnan þegar fjallað er um svona mál að menn koma með mismunandi söguskýringar á því hvernig aðdragandinn hefur verið og hvernig hlutirnir hafa verið unnir. Þannig hafa t.d. sumir hafa lagt á það áherslu að hér hafi átt að keyra málið í gegn án umræðu o.s.frv. Ég hef aldrei upplifað það þannig. Ég hafði alltaf reiknað með því að þegar ég fengi verkefnið inn í fjárlaganefnd ætti að vinna það og gefa því þann tíma sem við þyrftum. En mér finnst þetta vera aukaatriði.

Niðurstaðan er komin. Það náðist mjög breið sátt, það voru öflugir talsmenn frá öllum flokkum í nefndinni, ekki síst frá Sjálfstæðisflokknum sem töluðu um það ásamt okkur frá upphafi að það ætti að reyna að ná sátt í þessu máli, þetta væri of stórt mál til að hleypa út í samfélagið með bullandi ágreiningi. Þeir hafa unnið heilt að þessu og hafi þeir innilegar þakkir fyrir það eins og aðrir þeir sem unnu að sameiginlegri lausn.