Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 10:53:12 (4588)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson nefndi áðan að það hefði verið markmið að viðhalda ákveðnum þáttum í málinu. Ef ég ber saman frumvarpið sem lagt var fram í byrjun júlí og það frumvarp sem hér stendur miðað við þær breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram spyr ég hv. þingmann: Hvað stendur eftir af upphaflegu frumvarpi? Hvað stendur eftir annað en fyrirsögnin?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann varðandi umfjöllun í nefndaráliti um skuldajöfnunarrétt. Mér finnst nefndarálitið ekki svara því hvernig afstaða meiri hlutans er gagnvart skuldajöfnunarrétti. Það er mikið fjallað um skaðabótaréttinn en það er ekki sami hluturinn þannig að ég velti fyrir mér hvaða afstöðu meiri hlutinn hefur gagnvart því hvort Íslendingar hafi skuldajöfnunarrétt miðað við samningana sem fyrir liggja.

Í þriðja lagi mundi ég vilja biðja hv. þingmann að segja okkur hvað hann telji að breytingartillaga 1.b (Forseti hringir.) kalli á af hálfu ríkisstjórnarinnar ef málið verður samþykkt í þessari mynd.