Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 10:55:57 (4590)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi skuldajöfnunarréttinn er spurningin sú annars vegar um hvort skaðabótaskylda geti komið til og hins vegar hvort heimilt sé að skuldajafna á móti greiðslum í þessu samkomulagi. Ég velti fyrir mér hvort meiri hlutinn hefur afstöðu til skuldajöfnunarréttarins sem slíks.

Varðandi það hvernig málið hefur breyst er auðvitað öllum það ljóst og það var eiginlega það sem ég kallaði eftir að hv. þingmaður segði, að ekkert standi eftir af því frumvarpi sem lagt var fram nema fyrirsögnin. Hér var lagt fram frumvarp sem fól í sér að Alþingi heimilaði fjármálaráðherra án allra skilyrða og án allra fyrirvara að veita ótakmarkaða ríkisábyrgð vegna Icesave-samkomulagsins en það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að málið hefur tekið gríðarlega miklum framförum og inn eru komnir margvíslegir mjög gildir fyrirvarar. (Forseti hringir.) Það skiptir ekki síst máli það sem ég nefndi varðandi b-lið 1. breytingartillögu sem ég vona að hv. þingmaður gefi sér tíma til að svara í seinna andsvari.