Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 11:02:35 (4595)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fjárlaganefnd var í upphafi lagt upp með að við ætluðum ekki að fella samninginn. Annars hefðum við bókstaflega gert samþykkt um að óska eftir að teknar yrðu upp nýjar samningaviðræður. Við völdum aðra leið sem er þessi fyrirvaraleið og það er alveg klárt að þessir fyrirvarar hafa áhrif á gildi samningsins með mjög afgerandi og sterkum hætti. Ég tel þó engu að síður að það séu hagsmunir bæði Breta og Hollendinga jafnt sem okkar að þessir fyrirvarar hljóti brautargengi og verði samþykktir. Þeir hafa veruleg áhrif á stöðu okkar sem ríkis varðandi greiðslurnar, bæði lagalega gagnvart skiptingu búsins og ekki hvað síst varðandi hámarksgreiðslur þar sem við getum tryggt okkur fyrir því að ef við eigum í efnahagslegum örðugleikum munum við ekki greiða með sama hætti og ákveðið er í þessum samningi. Það eru klárlega höfð áhrif á samninginn, það er klárlega reiknað með því að Bretar og Hollendingar verði að staðfesta það því að öðruvísi getur tryggingarsjóðurinn ekki tekið lánið.

Það þýðir ekki að við séum að hafna samningnum sem slíkum. Það yrði þá bara gert beint. Þetta eru orðaleikir fyrir mér, (Forseti hringir.) það liggur alveg fyrir hvernig vinnan var unnin og við hvað við vorum að glíma, eins og ég kom að í ræðu minni. Við erum að styrkja málið verulega og breyta samningum en það var ekki ætlunin að senda þau skilaboð (Forseti hringir.) að við værum að fella hann.