Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 11:04:02 (4596)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú ekki þannig að ég ætli að gera athugasemdir við málflutning formanns fjárlaganefndar heldur þvert á móti að þakka honum, nefndarmönnum öllum, bæði í meiri hluta og minni hluta, sem og nefndarmönnum í efnahags- og viðskiptanefnd og utanríkismálanefnd og öllum öðrum sem lagt hafa mikla vinnu á sig í þessu máli endilangt sumarið. Því verður varla á móti mælt að þetta er eitthvert stærsta og erfiðasta mál sem nokkur þingnefnd hefur nokkru sinni fengið á sitt forræði og ég tel að nefndin hafi leyst starf sitt af hendi með miklum sóma og eigi þakkir skilið. Í mínum huga verður það nú ekki það sem mestu máli skiptir þegar upp er staðið hvernig við reynum að túlka þetta til eða frá, heldur hitt hvort hér sé að verða til efniviður í farsæla lausn þessa vandræðamáls. Það hljótum við öll að vona, að hér hafi tekist þannig til að búið hafi verið eins vel um lendingu í þessu erfiða máli hvað okkar hagsmuni snertir eins og erfiðar aðstæður Íslands buðu upp á.