Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 11:33:04 (4598)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir yfirferð hans. Vissulega er það svo að maður staldrar við því að frumvarpið hefur tekið miklum breytingum í meðförum þingsins og er það ekki síst að þakka þrautseigju framsóknarmanna í þessu máli. Hér eru komin inn í framhaldsnefndarálit 1. minni hluta þau rök sem framsóknarmenn settu inn í nefndarálit sitt milli 1. og 2. umr. undir forustu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, svo sem fullveldisákvæðið, friðhelgisrétturinn, yfirráð yfir náttúruauðlindum, efnahagsleg viðmið og svo mætti áfram telja.

Nú hefur það komið í ljós að ríkisstjórnarflokkarnir og Sjálfstæðisflokkurinn eru ekki alveg sammála um hvernig túlka beri þessa fyrirvara og hefur ekki komið nægilega vel í ljós að mínu mati í þinginu hvernig sjálfstæðismenn túlka það. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Það kemur fram í b-lið í breytingartillögu við 1. gr. að það sé, með leyfi forseta, „skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Hvaða möguleika telur þingmaðurinn á því að Bretar og Hollendingar hafni fyrirvörunum alfarið og þá í því ljósi að þá falli þessi ríkisábyrgð úr gildi og þar með Icesave-samningarnir? Hver er afstaða sjálfstæðismanna til þessa atriðis? Ríkisstjórnarflokkarnir telja það vera svo að fyrirvararnir rúmist innan samningsins.