Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 11:41:38 (4602)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur gert grein fyrir framhaldsnefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd. Hann fór þar vítt og breitt yfir sviðið og ég þakka honum fyrir ágæta framsögu og greinargerð fyrir þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Það er margt í þeirri ræðu og því nefndaráliti sem vekur upp spurningar en eitt ætla ég sérstaklega að staldra við í þessu andsvari. Það er þar sem segir og hv. þingmaður gat um í sinni ræðu að það sé að mati 1. minni hluta, með leyfi forseta: „algjörlega óviðeigandi að íslenskur almenningur verði gerður ábyrgur fyrir vanbúnaði og ágöllum á evrópsku löggjöfinni um innstæðutryggingar. Eðlilegra væri að þeir sem á þeirri löggjöf bera ábyrgð beri hallann af þeirri réttaróvissu sem ríkir um gildi og inntak hennar.“

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki þannig að það hafi verið Alþingi Íslendinga sem samþykkti lög í innstæðutryggingakerfið í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og það séu því þeir sem bera ábyrgð á þeirri réttaróvissu sem kann að vera fyrir hendi með samþykkt þeirrar löggjafar. (GÞÞ: Sem betur fer samþykktum við ekki tillögu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.)