Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 12:34:28 (4608)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tel að hann hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði áðan að það færi ekkert á milli mála að þær breytingar sem verið er að gera við þetta frumvarp, sem er frumvarp um ríkisábyrgðina en er auðvitað eins og allir vita ekki frumvarp um samninginn sjálfan þótt öllum sé það ljóst og við höfum áréttað það í 1. minni hluta að það eru mjög sterk tengsl þarna á milli, breyti samningnum. Þetta tel ég að sé mjög þýðingarmikil yfirlýsing og í raun og veru sjálfsagður hlutur að mínu mati að komast að þessari niðurstöðu. Svo augljóslega blasir þetta við en það hefur hins vegar gengið illa að fá suma til að fallast á að þær efnisbreytingar sem verið er að gera með fyrirvörunum og skilyrðunum hafi áhrif á samninginn sjálfan. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann að því hvernig hann sjái fyrir sér framhald þessa máls.

Nú liggur það fyrir, gerum við ráð fyrir, að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem verið er að gera á því. Hv. þingmaður hefur lýst því yfir að þetta leiði til þess að samningurinn sjálfur við Breta og Hollendinga breytist. Telur hann þá ekki óhjákvæmilegt að fara til nýrrar samningagerðar við bresk og hollensk stjórnvöld og gera nýjan samning, viðauka við samning eða eitthvað í þeim dúrnum, sem felur það í sér að við höfnum samningnum í þeirri mynd sem hann er núna eins og hann hefur verið lagður fyrir okkur, sem fylgiskjöl með þessu frumvarpi?