Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 12:40:08 (4611)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson erum sammála um margt í þessu en ég er þó ekki sammála því sem hann segir í lokin, að verið sé að hafna samningnum sem slíkum, einfaldlega vegna þess að samningurinn fjallar um fjölmarga aðra þætti sem ekki er tekið á í þeim breytingartillögum sem við höfum fjallað um, svo sem um vexti, greiðslukjör og aðra slíka hluti sem halda að sjálfsögðu gildi sínu. En það er hins vegar ljóst, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, að ég tel að verið sé að breyta umgerð þessa samnings og það þurfi að fullnusta með einhvers konar fullnægjandi gjörningi sem gæti verið viðauki, yfirlýsing eða samkomulag sem tekur á þeim atriðum sem Alþingi vill að séu skilmálar fyrir þessari ríkisábyrgð.