Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 14:03:24 (4615)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari 3. og síðustu umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna lána til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta liggja að nýju fyrir þinginu breytingartillögur frá fjárlaganefnd. Það er þegar orðið ljóst að þingið mun kollvarpa hugmyndum ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð fyrir þessum lánum. Þingið hefur hafnað því að það yrði gert án strangra skilyrða og þannig gert ríkisstjórnina afturreka með sínar hugmyndir.

Það er fróðlegt nú við 3. umr. málsins að taka sér aftur í hönd frumvarpið eins og það var lagt fram fyrr í sumar og lesa í gegn greinargerðina sem fylgdi málinu, atburðarásina eins og henni var þar lýst, á hvað var lögð áhersla í viðræðum við Breta og Hollendinga, hvaða meginsjónarmið voru höfð að leiðarljósi í viðræðunum og ekki síst það mat sem birtist í greinargerð með frumvarpinu á möguleikum okkar Íslendinga til að fá aðra og sanngjarnari og betri niðurstöðu.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar byggði á því að nokkur meginatriði væru höfð að leiðarljósi við lúkningu þessa máls. Í fyrsta lagi vil ég nefna það að málið var falið samninganefndinni til að leiða niðurstöðu fram í málinu en eins og margoft hefur komið fram kaus ríkisstjórnin að fara þá leið varðandi samninganefndina að skipta út þeim sem áður höfðu þar setið og setja inn sína eigin menn. Ég ætla að endurtaka það sem ég tók fram við 1. umr., það dylst auðvitað engum sem skoðar þessa atburðarás að það var markmið ríkisstjórnarinnar að gera niðurstöðu samninganefndarinnar að sinni. Ríkisstjórnin valdi það að láta samninganefndina eiga þessar viðræður og ljúka þeim þrátt fyrir að löngu hafi verið orðið ljóst að það var himinn og haf á milli væntinga Alþingis Íslendinga og væntinga viðsemjenda okkar um það sem gæti talist ásættanleg niðurstaða fyrir báða aðila í málinu. Þannig má segja að strax á fyrri stigum þessa máls, áður en lánasamningarnir voru undirritaðir, hafi ríkisstjórnin meðvitað tekið þá röngu ákvörðun að beita sér ekki í samskiptum við æðstu leiðtoga þeirra þjóða sem áttu í hlut. Og hverjir áttu þar í hlut? Það voru annars vegar Bretar og Hollendingar sem viðmælendur okkar vegna lánasamninganna, en þar átti auðvitað líka að horfa til Evrópusambandsins, forustunnar þar sem hafði haft milligöngu í málinu, og ekki síður að kynna málstað okkar og sjónarmið fyrir Norðurlöndunum, sem tengjast þessu máli með óbeinum hætti og fylgdust með framvindu þess í gegnum fjármögnun lánanna frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann er kannski sá aðili sem við áttum að kynna málstað okkar betur fyrir og þá sérstaklega gagnvart þeim ríkjum sem eiga þar fulltrúa í stjórn. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um að láta undir höfuð leggjast að vinna þessa mikilvægu kynningarvinnu gagnvart þessum þjóðum. Ekki var farið fram á aðkomu frá Evrópusambandinu þótt lausn málsins væri í ákveðnu uppnámi.

Tekin var ákvörðun um það snemma í júní að ljúka lánasamningum þrátt fyrir að sú staða væri uppi þar að Bretar og Hollendingar höfnuðu því að taka tillit til fordæmislausra efnahagserfiðleika á Íslandi og brýnnar nauðsynjar á að endurreisa hagkerfi okkar og koma fjármálakerfinu aftur á fót.

Til viðbótar við þetta tók ríkisstjórnin ákvörðun um að ganga frá samkomulagi þar sem byggt var á sjónarmiðum viðsemjenda okkar og veita fyrir því ríkisábyrgð. Ég ætla ekki að fara út í gagnrýni á einstök ákvæði lánasamninganna sem er búið að ræða svo margoft í fyrri umræðum um þetta mál og ég hef komið mínum sjónarmiðum að varðandi flest þau atriði. Það er líka gert ágætlega í áliti 1. minni hluta í fjárlaganefnd. En mér finnst mikilvægt að við horfum til þess sem segir í greinargerðinni um þetta mál eins og það var lagt fram á þinginu, um möguleika okkar Íslendinga til að fá aðra og betri niðurstöðu. Það er meira að segja alveg sérstakur kafli í greinargerðinni með þessu frumvarpi sem fjallar um það hverjir valkostirnir væru. Í 1. umr. um þetta mál stóð hæstv. fjármálaráðherra upp og sagði að valkosturinn að veita þá ríkisábyrgð sem hann mælti fyrir væri að fara aftur til októbermánaðar árið 2008. Þannig var þetta mál kynnt fyrir þingheimi. Öllum gagnrýnisröddum í málinu var vísað á bug. Þar var ýmist um að ræða einhvers konar misskilning, slaka lögfræði, óraunhæfar væntingar, pólitískar árásir sem höfðu ekkert með efnisatriði málsins að gera, einhvers konar óraunsæi vegna þeirrar stöðu sem við vorum búin að koma okkur í. Þetta er allt nauðsynlegt að rifja upp núna þegar við, við 3. umr. þessa máls, erum með í höndunum þingmál sem er alls óskylt því sem ríkisstjórnin tefldi fram fyrr í sumar. Ég held að það megi segja að það standi nánast ekki einn einasti stafur eftir af frumvarpinu sem kynnt var með þessum afdráttarlausa hætti fyrr í sumar. Og það stendur heldur ekkert eftir af öllum stóru orðunum sem fylgdu greinargerðinni í þessu máli, um alla þá samningatækni sem beitt var, um möguleika okkar til að fá aðra og betri niðurstöðu. Í millitíðinni hefur jafnframt komið í ljós að þeir sem stóðu að þessu máli höfðu ekki einu sinni tryggt meiri hluta fyrir því í þinginu, hvað þá heldur samstöðu í ríkisstjórninni. Það hefur markað meðferð þingsins á málinu þær 10–12 vikur sem það hefur verið til umfjöllunar og í meðförum fjárlaganefndar.

Mig langar til að gera að umtalsefni þá breiðu samstöðu sem mjög hefur verið rætt um í þessu máli. Hvernig er hún til komin? Jú, stjórnarliðar stíga upp og fagna hinni breiðu samstöðu og hún byggir m.a. á góðu samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. En hvernig er þessi breiða samstaða til komin? Er hún til komin vegna þess að stjórnarflokkarnir ákváðu að vinna þetta mál í einhvers konar samstöðu með stjórnarandstöðunni? Saga málsins sýnir auðvitað að það stóð aldrei til að vinna málið með stjórnarandstöðunni á nokkurn hátt. Og frá því að fyrstu drög að samningsniðurstöðu voru kynnt fyrir þingflokkum og utanríkismálanefnd kom skýrt fram hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins að það stefndi í samninga sem fyrir okkar leyti væru fullkomlega óásættanlegir. Það er einungis vegna þess að stjórnarflokkarnir sjálfir höfðu ekki nægjanlegan fjölda þingmanna innan sinna raða til að tryggja framgang þessa máls sem svona var kynnt í 1. umr. að leita þurfti eftir stuðningi frá stjórnarandstöðunni en hann var að sjálfsögðu ekki að finna. Hann var ekki að finna hjá stjórnarandstöðunni fyrir óbreyttu máli. Það var ekki fyrr en þessi óvænta staða var komin upp sem farið var að ræða um það sem kallaðir hafa verið fyrirvarar við þetta mál, alls konar skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni og möguleikana á því að það væri hugsanlega einhver önnur lausn sem væri skynsamlegri en sú sem ríkisstjórnin hafði kynnt fyrir þinginu með frumvarpinu. Það er jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga þegar rætt er um hina breiðu samstöðu. Hún skapaðist ekki vegna einhvers sérstaks áhuga stjórnarinnar á því að leita til stjórnarandstöðu um gott og mikið samstarf í þessu máli. Nei, hún varð til vegna þess að á þinginu myndaðist nýr meiri hluti sem tók völdin af ríkisstjórninni, breytti frumvarpinu og setti upp girðingar, öryggisnet í þetta mál sem breyta öllum grundvallarforsendum þess og koma til móts við hagsmuni Íslendinga eins og hægt er til lengri tíma.

Sannarlega voru þinginu sett þröng skilyrði til að vinna þessa vinnu vegna þess að gengið hafði verið frá lánasamningunum þegar frumvarpið var lagt fyrir þingið og í reynd er þingið einungis að ræða um ríkisábyrgð vegna lánasamninga sem ekki eru til umfjöllunar. En engu að síður hefur þingið unnið gríðarlega mikilvægt verk og það var sjálfsagt og eðlilegt af stjórnarandstöðunni að taka virkan þátt í þeirri endurskoðun sem nauðsynlega þurfti að eiga sér stað því að tjónið af því að samþykkja þetta mál óbreytt með því að fara í hefðbundnar fylkingar stjórnar og stjórnarandstöðu hefði bitnað á allt öðrum en þeim sem eru í þessum þingsal. Tjónið hefði bitnað á framtíðarkynslóðum þjóðarinnar, þannig að það kom að sjálfsögðu ekki til greina.

Ég vil lýsa ánægju með það verk sem unnið hefur verið í fjárlaganefndinni. Miðað við þær aðstæður sem þinginu hafa verið skapaðar í þessu máli held ég að fjárlaganefndin hafi unnið býsna gott verk. Ég vil jafnframt halda því á lofti að við í Sjálfstæðisflokknum sem stóðum að því að samþykkja þingsályktunartillögu um að ganga til viðræðna til lausnar á þessu máli í upphafi höfum alltaf haft sama málflutninginn uppi frá upphafi, að það væri til einhver lausn á þessu máli. Hún þyrfti einfaldlega að taka tillit til þeirra aðstæðna sem við búum við og getu okkar til að rísa undir þeirri ábyrgð sem verið væri að semja um við okkur. Við höfum jafnframt alltaf viljað halda til haga okkar lagalega rétti og það er rakið í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar nánar hvaða atriði það eru sem við höfum viljað leggja sérstaka áherslu á í meðförum þingsins.

Mig langar til að minnast stuttlega á það að fyrr í sumar ruddust fram á sjónarsviðið alls konar hagsmunaaðilar í samfélaginu vegna þessa máls, löngu áður en umræðan hófst um að hér væri möguleiki á því að setja girðingar og öryggisventla inn í frumvarpið. Þeir lýstu þeirri afdráttarlausu skoðun sinni að málið eins og það lá fyrir þinginu þyrfti að samþykkja, ella færi allt í uppnám. Og það mátti skilja viðkomandi hagsmunaaðila þannig að þetta væri dagaspursmál vegna þess að hér gæti allt að öðrum kosti farið á hliðina. Við í stjórnarandstöðunni létum ekki undan þessum þrýstingi. Við héldum áfram á lofti sjónarmiðum um að það væri ósanngjarnt og óeðlilegt að fara fram á ríkisábyrgð í þessu máli sem tæki ekkert tillit til efnahagsframvindunnar á Íslandi og það er í reynd algerlega ótrúlegt að jafnmargir skyldu hafa stigið fram og gerðist í sumar, bæði SA, ASÍ og fleiri hagsmunasamtök, án allra fyrirvara við málið í heild sinni og hvöttu þingið til að ganga frá því eins og það þá lá fyrir. Því stórkostlega tjóni sem af því hefði hlotist hefur nú verið forðað. Við erum með allt annað mál í höndunum en lagt var upp með. Ég vil í því sambandi t.d. benda á þá töflu sem er að finna í nefndaráliti 1. minni hluta sem skýrir það út hversu miklu það munar fyrir skuldbindingar okkar á grundvelli ríkisábyrgðarinnar ef efnahagsþróunin verður ekki jafnhagfelld og Seðlabankinn spáir í bjartsýnisspá sinni. Ef hagvöxturinn verður eitthvað í líkingu við það sem sagan sýnir okkur, eitthvað í líkingu við það sem reynsla annarra þjóða kennir okkur, eitthvað í líkingu við það sem vænta má þegar horft er yfir svona langt tímabil eins og er verið að gera hér, undir 3%, kannski nær 2%, 2,5% á tímabilinu, muna þær breytingar sem við erum að vinna með við þessa umræðu málsins jafnvel hundruðum milljarða fyrir íslenska ríkið, þegnana í þessu landi, (Forseti hringir.) þá sem munu að þurfa að standa undir ríkisábyrgðinni í heild sinni. Þetta er allt annað mál (Forseti hringir.) en ríkisstjórnin lagði upp með og ég fagna því að okkur í stjórnarandstöðunni hafi tekist (Forseti hringir.) að snúa málinu til betri vegar.