Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 14:18:59 (4616)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að geyma mér til betri tíma að fjalla um túlkanir og söguskýringar sem hér hafa verið fluttar en ég vil aðeins gera eina athugasemd, staðreynda vegna. Hv. þingmaður komst svo að orði, ef ég tók rétt eftir, að samninganefndinni hefði verið skipt út eftir stjórnarskiptin 1. febrúar. Það er ekki rétt. Samninganefndin var skipuð fulltrúum ráðuneyta og stofnana á nákvæmlega sama grunni og sú fyrri var, þegar fyrri viðræður fóru fram, og a.m.k. helmingur sömu fulltrúa sömu ráðuneyta og stofnana hélt áfram í samningaferlinu. Það urðu tilteknar mannabreytingar sem helguðust aðallega af mannabreytingum sem orðið höfðu í viðkomandi ráðuneytum þar sem ráðuneytisstjórar höfðu horfið frá störfum og aðrir verið skipaðir í þeirra stað. Þannig skýrast að mestu leyti þær breytingar sem urðu á samninganefndinni. Hún byggði á nákvæmlega sama grunni og var nákvæmlega eins hugsuð, hún var skipuð fulltrúum þeirra ráðuneyta, stofnana og sjóða sem málið varðaði mest.

Að öðru leyti er rétt að fram komi, vegna þess að menn hafa kvartað undan skorti á samráði og upplýsingagjöf í þessum efnum, að ég held að ég hafi a.m.k. þrisvar sinnum og sennilega frekar fjórum sinnum á tímabilinu frá febrúar til maíloka fundað með utanríkismálanefnd og upplýst hana um framvindu málsins, og a.m.k. einu sinni með fjárlaganefnd. Ég held að ekki sé hægt að kvarta undan því sérstaklega að framkvæmdarvaldið hafi að þessu leyti ekki sinnt skyldu sinni um samráð við utanríkismálanefnd um mikilvæg mál af þessu tagi.