Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 14:25:20 (4619)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:25]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hæstv. ráðherra fjármála ekki hafa náð meginatriði máls míns áðan. Ég rifjaði það upp hvernig ríkisstjórnin hagaði sér á fyrstu stigum þessa máls og hvað sagt hafi verið áður en mannabreytingar voru gerðar í samninganefndinni. Ég setti hlutina í það samhengi sem mjög hefur verið til umfjöllunar hér undanfarnar vikur og daga, menn rísa í dag upp og fagna hinni breiðu samstöðu sem tókst um málið. Bíddu, hvenær kom það til tals í einhverri alvöru að fara að vinna þetta mál í breiðri sátt og samstöðu? Er ekki staðreyndin sú þegar menn skoða söguna að ríkisstjórnin vann það á sínum eigin forsendum? Allt er það satt og rétt sem sagt er að málið hafi verið kynnt fyrir utanríkismálanefnd en eins og ég hef látið koma fram í umræðum um þetta mál var utanríkismálanefndinni ljóst að það þokaðist ekki í samkomulagsátt í þeim viðræðum sem nefndin stóð í. Og það komu skýr skilaboð frá þinginu, bæði í gegnum þingsályktunartillöguna og í utanríkismálanefnd, um þær áherslur sem menn töldu skynsamlegt að leggja í þessum viðræðum. Þrátt fyrir þau skilaboð tók ríkisstjórnin ákvörðun um að binda enda á viðræðurnar og ljúka þeim með samningum sem tóku ekkert tillit til sjónarmiða sem fram komu í nefndinni eða í umræðum á þinginu, eða yfir höfuð þingsályktunartillöguna sjálfa.

Þess vegna er það ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á endanlegum samningi þrátt fyrir að hún hafi verið með erfitt mál í höndunum og þrátt fyrir að aðrir beri ábyrgð á þeirri stöðu sem komin var upp og við stóðum frammi fyrir. Allt er það rétt, það er ríkisstjórnarinnar að leysa úr því máli þó að hún hafi ekki búið það til en hún verður að bera ábyrgð á samningunum eins og þeir voru undirritaðir, eins og gengið var frá þeim, með kostum og göllum. Og þegar við komum síðan saman og reynum að betrumbæta þá, er það ekki vegna vilja ríkisstjórnarinnar til að hér verði breið samstaða um málið. Það er komið til vegna innanmeina í stjórnarliðinu, (Forseti hringir.) vegna veikleika ríkisstjórnarinnar, vegna getuleysis hennar til að tryggja málinu meiri hluta og (Forseti hringir.) vegna þeirra gríðarlegu mistaka sem í reynd voru gerð með því að undirrita samninga sem voru svo mikið á skjön við þingviljann og eru (Forseti hringir.) að koma í ljós núna í þeim breytingartillögum sem við erum u.þ.b. að fara að ganga frá.