Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 14:27:58 (4620)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:27]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Nú er það svo að fáeinir fjárglæframenn, gersneyddir samkennd, mennsku og menningu, gefandi dauða og djöful í allra manna hagsmuni nema sína eigin, ákváðu einn góðan veðurdag að það væri „tær snilld“ að setja upp viðskiptalegar spilaborgir erlendis — ekki bara á hinu fámenna Íslandi — og narra erlenda ríkisborgara til að afhenda sér sparifé sitt til ávöxtunar.

Geðvillingar, siðblindingjar og samviskulausir glæpamenn — sem mjög varlega áætlað eru um 2% af íbúafjölda hvers lands — líta á það sem „tæra snilld“ að naga stöðugt innviði allra þjóðfélaga. Þetta á við hér á Íslandi eins og í öðrum löndum.

Engin lög sem enn þá hafa verið fundin upp duga til þess að koma í veg fyrir að samviskulausir einstaklingar vegi að rótum þeirra samfélaga sem þeir sjálfir lifa á sem hættuleg sníkjudýr. Venjulegt fólk getur bara vonað að það komist aldrei í kast við þessar afætur þótt það sé raunar borin von tölfræðilega að hægt sé að lifa heilu lífi án þess að verða fyrir barðinu á þessum myrkraverkaher.

Ég hafna því algjörlega að íslenska þjóðin eða ég sjálfur beri nokkra einustu ábyrgð á voðaverkum geðvillinga eða aðila sem hegða sér í einu og öllu eins og geðvillingar, óreiðumanna sem koma óorði á allt sem tengist viðskiptum, auk þess að valda sorglegri en því miður nauðsynlegri tortryggni í mannlegum samskiptum.

Hins vegar er það augljós staðreynd að hvað svo sem ábyrgðinni líður sitjum við uppi með geðvillingana, verk þeirra og afleiðingar þeirra vondu verka.

Ég mundi taka það óstinnt upp ef breskur sendimaður, 007 eða 8, bankaði upp á hjá mér og segði mér að vegna framferðis Landsbankaskrílsins hefði nafn mitt og allra Íslendinga verið sett á lista yfir hryðjuverkamenn sem væru taldir ógna öryggi Bretaveldis.

Ég mundi taka því fálega ef þessi sendifulltrúi gripi aukinheldur til hótana um að gera mér allt til bölvunar í framtíðinni, skíta mig út hjá Evrópusambandinu og hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum og sem víðast á alþjóðavettvangi og beita áhrifum sínum til þess að ég fengi ekki fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, nema ég sjálfur léti undan fjárkúgun og keypti mér gott veður fyrir til að mynda rúmar 2 milljónir af framfærslupeningum heimilisins sem skaðabætur fyrir framferði mér óviðkomandi geðvillinga. Og ekki nóg með það, 2 milljónir fyrir mig sjálfan, aðrar 2 fyrir konu mína og svo 2 í viðbót fyrir hvern afkomanda. 12 milljónir fyrir okkur sex í stórfjölskyldunni og enginn magnafsláttur. Skaðabætur fyrir skaða sem ég olli ekki, þaðan af síður kona mín og allra síst börn og barnabörn.

Af stimamýkt sinni og umhyggju til að auðvelda mér þetta væru Bretar og Hollendingar til í að lána mér peninga með rúmlega 5% vöxtum, afborganalaust í sjö ár, og greiðist upp fyrir árslok 2024.

Kostaboð. „Take it or leave it.“ Núna strax og það áður en sumarþingi lýkur — eða þú skalt hafa verra af, „vinur“.

Með vini eins og þessa þarf maður ekki á óvinum að halda. Þetta eru einkavinir okkar úr kaldastríðsklúbbnum NATO.

Vinátta okkar við Breta stendur að vísu ekki sérlega föstum fótum eftir nokkur þorskastríð um lífsbjörg okkar við þennan freka og ósvífna yfirgangsaðila sem taldi það lengi vel í sínum verkahring að útrýma hverjum einasta þorski á Íslandsmiðum og gott ef ekki láta togara sína draga botnvörpur um kartöflugarða bænda við sjávarsíðuna.

Það hefur því miður mistekist að leysa hið svonefnda Icesave-mál, mistekist gersamlega og nú bendir margt til þess að við eigum eftir að súpa af því seyðið um langan aldur.

Það hefur mistekist að gera um þetta viðunandi samninga.

Það hefur mistekist hrapallega að halda sanngjörnum málstað íslensku þjóðarinnar til haga. Við höfum orðið að þola — og gert okkur að góðu að þola — ofbeldi, þvinganir og þá smán og búsifjar að vera sem þjóð flokkuð með hryðjuverkamanna- og geðvillingafélaginu al Kaída sem fer um löndin með morðum og manndrápum.

En jafnvel sú útreið sem við höfum fengið hjá breskum og hollenskum yfirvöldum, jafnvel sá smánarlegi nauðungarsamningur sem haldið hefur Alþingi í gíslingu vikum saman þarf alls ekki að koma í veg fyrir að við viljum leysa málið.

Jafnvel þótt við sem þjóð berum ekki ábyrgð á gerðum geðvillinga, eða manna sem hegða sér sem slíkir, viðurkennum við að atferli þeirra hefur afleiðingar sem eru hverjum manni augljósar — nema geðvillingunum sjálfum. Þeir móast við og skilja jafnvel ekki að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir sjúkustu meðal þeirra eru nógu veruleikafirrtir til að impra á því opinberlega að þeir aðilar sem mest hafa lagt sig í líma við að þrífa upp eftir þá skítinn biðji þjóðina afsökunar. En þeir sjálfir, nei, þeir þurfa engrar afsökunar að biðja þar sem þeir hafa ekkert rangt gert — utan það eitt að kæra sig kollótta um muninn á réttu og röngu og finnast ævinlega það ranga meira freistandi en það rétta.

Frá því að fjárglæfraspilaborgin hrundi hafa allir Íslendingar sem komið hafa að Icesave-málinu án efa verið allir af vilja gerðir til að finna viðunandi lausn á málinu og lágmarka skaðann. En góður vilji gerir enga stoð. Lausnin er ófundin enn þá og e.t.v. erum við fjær viðunandi lausn núna en áður en Alþingi Íslendinga fyrir vel meinta þrákelkni framkvæmdarvaldsins og einlægan vilja til að kyssa á vöndinn lét loka sig inni í sjö vikur yfir þeim nauðungarsamningum sem nú hanga eins og sverð Damóklesar yfir þjóðinni.

Lausnin er ófundin enn þá og sennilega væri skynsamlegt að leita til hlutlausra aðila, svo sem Frakka, Þjóðverja, nú eða Svía, til að hjálpa okkur að miðla málum og forða okkur undan hótunum, ofríki og ofbeldi hinna fornu nýlenduherra og þrælakaupmanna sem við eigum nú í höggi við, og virðast enn vera tiltæk fantabrögð forfeðranna í samskiptum við vopnlausar smáþjóðir.

Á Alþingi bendir margt til þess að hvorki sé kjarkur, áræði, úthald né andleg orka til að halda áfram að leita að viðunandi lausn. Eftir sjö vikna setu yfir nauðungarsamningnum virðist nú vera meiri hluti fyrir því í fjárlaganefnd og jafnvel á þinginu að láta ranglætið yfir sig ganga en milda það með fyrirvörum sem eiga að tryggja að við getum áfram haldið hér uppi vísi að heilbrigðisþjónustu og menntakerfi þótt það fari í forgang hjá íslenskum almenningi að borga breskum og hollenskum innstæðueigendum skaðabætur fyrir tjónið sem hlaust af því að þeir, eins og við, skyldu verða fyrir barðinu á íslenskum geðvillingum.

Ég vil hafna Icesave-samningnum og vísa honum út í hafsauga og finna aðra lausn — á jafnréttisgrundvelli — til að græða upp þá sviðnu jörð sem hinir íslensku græðgisdólgar hafa skilið eftir sig hér heima og erlendis. Ég vara við þessum samningi — með eða án fyrirvara.

Ég sé sömuleiðis fram á að mitt sjónarmið muni að líkindum verða undir við atkvæðagreiðslu um málið.

Ég reyni að hugga mig við að þegar þetta skelfilega mál verður úr sögunni verði aftur hægt að snúa sér að því sem máli skiptir, því að hjálpa venjulegu fólki, fjölskyldunum í landinu og almennri atvinnustarfsemi í stað þess að hjúkra dag og nótt með ærnum tilkostnaði fjármálafyrirtækjum sem hafa undanfarin ár riðið hér húsum með „tærum snilldarverkum“ sínum eins og drepsótt í boði þeirra stjórnmálaflokka sem þá fóru með landstjórnina og hafa nú steingleymt ábyrgð sinni. Eitthvert menningarsnauðasta og dapurlegasta tímabil í sögu þjóðarinnar, tímabil græðgi og ómennsku, er vonandi að baki.

Von mín er sú að við getum snúið okkur að því að endurreisa hér mannsæmandi þjóðfélag þegar Alþingi losnar úr herfjötri Icesave-málsins, þjóðfélag miðað við þarfir og drauma heiðarlegs fólks en ekki græðgi og dramb geðvillinga og gróðadólga.

Ég vona að við þurfum ekki að horfa upp á það fleiri haust að efnalitlar fjölskyldur hafi ekki ráð á því að kaupa pappír og ritföng handa ungum börnum sínum við upphaf skólagöngu.

Ég vona að við þurfum ekki að horfa upp á það framar að Alþingi Íslendinga sé lamað vikum og mánuðum saman vegna sligandi nauðungarsamninga við ellimóð og snakill stórveldi sem eiga harma að hefna á útsmognum íslenskum gróðadólgum en kjósa frekar að ráðast á saklausa þjóð.

„Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?“ spurði þjóðskáld okkar, Jónas Hallgrímsson, í kvæði sem ég er hræddur um að of margir, bæði meðal þings og þjóðar, séu búnir að gleyma.