Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 14:40:47 (4622)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ástæðan fyrir veru minni í pontu er ekki sú að veita andsvar, heldur kannski meira meðsvar ef því finnst staður í þingsköpum. Hann nefndi að það væri gríðarlega mikilvægt að halda áfram að finna viðunandi lausn og ég tek heils hugar undir þau orð, einnig þegar hann sagði að það væri svolítið sérstakt að í rauninni væri með fyrirvörunum verið að milda ranglætið. Það er einmitt ranglætið sem er svo yfirgnæfandi í þessu máli, að við skulum ekki fá notið þess sem sjálfstæð þjóð á meðal þjóða að láta reyna á réttindi okkar, fá skorið úr deilumálum okkar fyrir óvilhöllum dómstólum.

Mér heyrðist á þingmanninum að hann ætlaði að greiða atkvæði gegn frumvarpinu. Mig langar þá að spyrja hann hvaða skoðun hann hafi á þeim orðum sem hafa fallið hér í dag þar sem menn í meiri hlutanum strjúka hver öðrum á bakið og mæra samstöðuna eins og hún sé einhver lykill að málinu, bara vegna þess að einhverjir flokkar, 3–4 flokkar, sem reynast svo ansi ósammála þegar þeir hefja upp raust sína, eru sammála í þessu máli. Er hv. þingmaður mér sammála um að slík samstaða skipti engu máli? Ég bendi á orð Lees Buchheits sem er sérfræðingur á þessu sviði, hann sagði að það væri einmitt þeim mun mikilvægara að fram kæmi hversu vondir samningarnir væru og að andstaða væri við þá á Alþingi.