Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 14:45:03 (4624)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún var nokkuð stóryrt, og kannski er verst að þeir sem veist var að hafa ekki tækifæri til að svara fyrir sig hér á sama stað en þeir gera það væntanlega annars staðar. (ÞrB: Þeir eiga nóg af fjölmiðlum.) Það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er Evrópusambandið. Hann greiddi atkvæði með því að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu og nú vill svo til að þetta Icesave-vandamál er vegna galla í tilskipunum Evrópusambandsins um innlánstryggingar. Þegar á reyndi og menn óttuðust um alla Evrópu að það yrði áhlaup á banka beitti Evrópusambandið ýmsum brögðum gagnvart Íslendingum, ekki beint góðum brögðum, og ég spyr hv. þingmann: Hvernig líst honum á Evrópusambandið eftir að það hefur staðið núna, ásamt með Bretum og Hollendingum, í því að kúga Íslendinga? Vill hann enn þá ganga inn í þetta ágæta bandalag? Er ekki ósamræmi í því að ætla sér að sameinast þessum klúbbi sem hann gagnrýnir hér svo fyrir að fara illa með Íslendinga?

Það er líka athyglisverður punktur að Bretar og Hollendingar, báðar þjóðirnar, þurfa að samþykkja aðildarbeiðni hv. þingmanns að Evrópusambandinu — því að hann greiddi atkvæði með því — og ég spyr hann: Getur verið að það sé afstaða margra þingmanna á þingi sem greiddu atkvæði með Evrópusambandinu að styggja ekki þessa væntanlegu atkvæðagreiðendur um aðild Íslands að Evrópusambandinu? Hvernig fer þetta yfirleitt saman í huga hv. þingmanns?