Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 15:17:11 (4628)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þór Þórhallssyni fyrir spurningarnar. Hann spyr mig hvort ég telji þetta gilda fyrirvara eða þær breytingartillögur sem lögð eru hér við frumvarpið. Ég fór mjög vel yfir það í ræðu minni áðan að ég tel að þeir fyrirvarar sem eru settir inn í frumvarpið gjörbreyti öllu málinu. Ef við tökum t.d. bara efnahagslegu fyrirvarana eru þeir gríðarlega mikilvægir til þess að verja okkur. Bara til þess að varpa ljósi á það er í nefndaráliti 1. minni hluta gefin mynd af því hvað muni gerast við ýmsar aðstæður.

Til að mynda, ef það yrði hálfs prósent hagvöxtur á þessu tímabili yrði lokagreiðslan eða heildargreiðslan vegna Icesave-skuldbindinga 41,5 milljarðar, þ.e. ef eitthvað kemur upp á. Það er því gríðarlega mikilvægt að hafa þessa fyrirvara en menn voru áður með hugmyndir um að hafa þetta prósentu af vergri landsframleiðslu. Þá gátu menn að sjálfsögðu ekki greitt nema skera niður eða hækka skatta og við þekkjum afleiðingarnar af því.

Eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel er því snúið á hvolf að tryggingarsjóðurinn samdi frá sér bótakröfuna, þ.e. að hann gerði samkomulag um að skipta kröfunni. Það er tekið til baka og ekki bara það heldur er tryggingarsjóðnum skylt að fara í mál til þess að leita réttar síns og ef hann gerir það ekki er hægt að takmarka ríkisábyrgðina. Þessir fyrirvarar sem eru komnir inn í málið — þeir eru reyndar 10 og ég fór yfir hér flestalla áðan — breyta því málinu algjörlega og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson veit það jafn vel og ég að þeir eru þeir varnaglar sem eru þar. Það stendur nánast ekkert eftir af upphaflega frumvarpinu enda var það allt galopið.

Það er gríðarlega mikilvægt að þessir fyrirvarar komist inn.