Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 15:42:57 (4634)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom greinilega fram í svörum hv. þingmanns að hann virðist hafa mjög miklar efasemdir almennt um allar forsendur þessa samnings og þess vegna verð ég að segja að mér finnst mjög einkennilegt að hann skuli almennt hafa staðið að þessum breytingartillögum ásamt stjórnarflokkunum.

Ég verð líka að segja að svar hans varðandi skuldajöfnunina og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi áskilið rétt til þess að flytja breytingartillögur, að það væri mjög áhugavert, af því að það fer að líða að atkvæðagreiðslu um málið, að fá að sjá eitthvað af þessum blessuðum breytingartillögum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur áskilið sér rétt til að leggja fram. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst mjög sláandi þegar það er formaður flokksins sem bendir sérstaklega á þetta, og síðan er málinu fylgt eftir á mjög vandaðan og faglegan máta með mjög ítarlegri grein í Morgunblaðinu um forsenduna fyrir skuldajöfnuninni, að sjálfstæðismenn í fjárlaganefnd skuli algjörlega hafa hunsað þetta, ekki komið fram með breytingartillögur sínar um leið og málið fór inn í 3. umr. ef þeir voru svona innilega sammála þessu.

Síðan verð ég að spyrja í lokin, (Forseti hringir.) og þetta er nú spurning sem var velt upp í Viðskiptablaðinu: Gætum við lent í þeirri stöðu að Bretar og Hollendingar muni einfaldlega setja fyrirvara (Forseti hringir.) við fyrirvarana okkar?