Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 15:48:45 (4638)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel raunar að ekki hafi verið fyrir hendi meiri hluti fyrir samningunum, þ.e. að þeir hefðu einfaldlega fallið ef ekki hefðu verið gerðir þeir fyrirvarar sem andstæðingar þeirra gátu fallist á. Þar af leiðandi tel ég að gera hefði þurft sterkari fyrirvara og reyndar taldi ég að lagt væri upp í þessa fyrirvaraleið með það fyrir augum að sýna Bretum og Hollendingum að þetta væru í raun óásættanlegir samningar, þ.e. að setja fram fyrirvara sem felldu samningana á kurteisislegan hátt.

Fari nú svo að Bretar og Hollendingar fallist ekki á þessa fyrirvara fyrirvaralaust, er hv. þingmaður þá þeirrar skoðunar að þar með öðlist samningarnir ekki gildi og af því leiði þá væntanlega að hefja þurfi viðræður að nýju?