Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 16:12:31 (4651)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að með því að Bretar og Hollendingar samþykki fyrirvarana eins og breytingartillagan sem við leggjum fram núna gerir ráð fyrir að þeir verði að gera, sé þetta eitthvað sem við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af. Með því eru þeir í raun og veru búnir að samþykkja fyrirvarana og þar með nýjan samning, vil ég meina. Nú er hv. þingmaður og fyrirspyrjandi lögfræðingur þannig að hún veit þetta eflaust betur en ég.

Það sem ég hef hins vegar alltaf haft áhyggjur af varðandi þessa fyrirvaraleið, og get að því leyti tekið undir með þingmanninum og hef sérstakar áhyggjur af vegna þess að Bretar og Hollendingar hafa ekki viljað tjá sig um þetta, er að af einhverjum ástæðum, hvort sem það eru lagatæknilegar ástæður, lagaklækir, forherðing eða eitthvað annað, verði eitthvað til þess að fyrirvararnir virki ekki, þrátt fyrir alla þá vinnu sem við á Alþingi erum búin að leggja á okkur í sumar við að reyna að gera þennan skaða sem minnstan. Þar deili ég áhyggjum með þingmanninum, en ég vona svo sannarlega að það komi ekki til þess, vegna þess að ef breytingartillaga okkar gengur eftir eins og henni er ætlað þarf ekki að koma til þessa atriðis.