Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 16:16:27 (4655)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur áhugaverða ræðu. Ég var um margt sammála hv. þingmanni eins og oft er, en hjó eftir því að hv. þingmaður sagðist vonast til þess að Bretar og Hollendingar staðfestu fyrirvara þingsins, fyrirvara sem svo sannarlega eru ósamrýmanlegir samningunum sjálfum.

Ber að skilja það svo að þingmaðurinn hv. verði þá sáttur við samningana með fyrirvörunum vegna þess að ef vonir standa til þess að þetta verði allt saman samþykkt og fari inn í samninginn eða að gerður verði nýr samningur í samræmi við fyrirvarana sitjum við uppi með það? Það er svo ótal margt annað í þessum samningum, annað en það sem fyrirvararnir taka á sem að mínu mati er óásættanlegt að ég er ekki frá því að það væri best ef Bretar og Hollendingar segðu „nei, þetta er óásættanlegt, þessir fyrirvarar ganga ekki“, og það leiddi þá til þess að farið væri í viðræður um sómasamlega samninga. Eins og þetta er, jafnvel með fyrirvörunum, þykir mér óásættanlegt fyrir Íslendinga að búa við þetta a.m.k. í 15 ár og hugsanlega miklu lengur.