Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 16:18:10 (4656)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég benti á í lok ræðu minnar að ef Bretar og Hollendingar mundu ekki fallast á fyrirvarana þyrftum við að semja upp á nýtt og ég tel það ekki það versta sem komið gæti fyrir. Ég vil hins vegar ítreka það sem ég sagði í lok ræðu minnar, að ég vonast til að sú samninganefnd vinni vel og þeir samningar verði gerðir af meiri metnaði en samningurinn sem hér liggur fyrir. Til þess að taka af allan vafa vil ég svara spurningu þingmannsins um hvort ég sé sátt við samninginn. Því er fljótsvarað: Ég er aldeilis ekki sátt við þennan samning sem fjármálaráðherra skrifaði undir eða var skrifað undir í hans umboði vegna þess að því oftar og því meira sem maður les hann verður maður meira hissa, meira reiður og meira furðu lostinn yfir því að nokkur hafi getað hugsað sér að skrifa undir slíkan samning.

Það sem er hins vegar að gerast hérna er að þeir fyrirvarar sem við gerum hérna bæta og minnka tjónið sem ríkisstjórnin hefur valdið með þessari undirritun. En það er, eins og hefur margoft komið fram í umræðunum í dag, hreint með ólíkindum að nokkur ríkisstjórn hafi farið fram og skrifað undir samning sem er svo stór, sem skuldbindur þjóðina svo mikið án þess í fyrsta lagi að hafa fyrir því þingmeirihluta og í öðru lagi að hafa ekki fengið ríkisstjórnarsamþykkt fyrir því, það er náttúrlega með ólíkindum. Þeirri sögu munum við alltaf halda til haga og ítreka hversu mikið við höfum lagt á okkur við að takmarka þann skaða sem íslenska þjóðin verður fyrir af þeirra völdum.