Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 16:28:13 (4662)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að hafa mörg orð um aðdraganda þessa máls og hvernig það hefur verið unnið hér í þinginu. Við erum ekki bara væntanlega að klára það mál sem hér liggur fyrir heldur erum við líka að klára þetta sumarþing sem er búið að vera núna lengur að störfum en nokkurt annað sumarþing frá árinu 1991. Nú verð ég að viðurkenna það að ég var ekki á sumarþinginu þá og hef ekki kynnt mér sérstaklega hvað menn voru að fjalla um á þeim tíma, en hitt veit ég að þetta sumarþing hefur staðið í svipað langan tíma og hefðbundið þing.

Síðast þegar ég skoðaði, og það var bara áðan, vorum við búin að klára 26 mál. Við klárum væntanlega einhver mál á morgun fyrir utan þetta og er skemmst frá því að segja að alveg sama hvaða mælikvarða við leggjum á það, tími okkar hefur verið nýttur mjög illa. Það er í rauninni ömurlegt að við séum að fara í þinghlé núna, það er algjörlega ömurlegt. Núverandi ríkisstjórnarflokkar lögðu af stað í vegferð í febrúar á þessu ári með það að markmiði að fara í bráðaaðgerðir fyrir heimili og fyrirtæki og í kosningar í kjölfarið. Það var ekki farið í þessar bráðaaðgerðir í febrúar eða mars eða apríl eða maí og það hefur ekki verið gert í júní, júlí og ágúst. Og núna þegar við förum í þinghlé er fólk í jafnmikilli óvissu og það var í byrjun árs með skuldbindingar sínar, skuldir sínar, og það er sama óvissan í efnahagsmálunum. Það er algjörlega óásættanlegt.

Þingið í sumar hefur verið nokkurn veginn stjórnlaust. Fyrir okkur þingmenn hefur það verið þannig að við höfum í rauninni ekki vitað hvað dagurinn bæri í skauti sér, ég tala nú ekki um vikan eða hvað við ættum að gera á þeim dögum sem þingið átti að starfa en það átti að klárast fyrir 17. júní, ef ég man rétt, það voru svona fyrstu yfirlýsingar. Það á ekki að kenna forustu eða forsetum þingsins um þetta, það er ekki á þeirra ábyrgð, það er alveg ljóst að stýringin hefur komið frá ríkisstjórninni og stjórnleysið hefur þar verið algjört.

Nú kynni einhver að segja: Þetta voru svo stór mál, Evrópusambandið og Icesave, að þau tóku allan tíma þingsins. Það er ekki rétt. Þess vegna erum við með margar nefndir í þinginu, svo að við getum tekið á mörgum málum í einu, og engin mál eru brýnni en þessar svokölluðu bráðaaðgerðir fyrir heimilin, fyrir fjölskyldurnar og fyrir efnahagslífið. Það hafa allir stjórnarandstöðuflokkar komið fram með hugmyndir, góðar hugmyndir sem vert hefur verið að skoða, ég tala nú ekki um að framkvæma, en verkefni ríkisstjórnarinnar hefur verið það að blása þær af án þess að koma með neitt í staðinn. Síðast í dag vorum við að lesa — og á hverjum degi að lesum við fréttir um alvarlega stöðu en samt sem áður er það þannig, og það veit ég vegna þess að ég er búinn að skoða það, að það er ekki einu sinni búið að teikna upp skuldavanda heimilanna, við vitum t.d. ekki hver staðan er hann. Af hverju? Vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki enn þá náð að kortleggja vandann, hvað þá að taka á honum eða koma fram með hugmyndir um lausn á honum.

Þá víkjum við að þessu máli sem hér er til umræðu, en ég gat ekki annað en farið yfir þennan þátt máls vegna þess að þetta er mjög slæmt og í raun ömurlegt að við skulum ekki vera búin að nýta þennan tíma betur en raun ber vitni. Ég vonast til þess að við getum komið saman sem allra fyrst til þess að taka á þessum málum því að oft var þörf en nú er algjör nauðsyn.

Það sem við fjöllum um hér er í grunninn ein birtingarmynd kerfishrunsins, bankahrunsins eins og við þekkjum það. Án nokkurs vafa er þetta bein afleiðing af tilskipun Evrópusambandsins. Það var nú hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem dró athygli að því í þingræðu í dag og hann er, held ég, fyrsti stjórnarliðinn sem gerir það í allri þessari umræðu. Það sem við getum lært er að við ættum að hugsa betur um það þegar við tökum slíkar tilskipanir upp, en sem betur fer var hún samt afgreidd þannig hér í þinginu að ekki var fallist á breytingartillögu frá VG og Samfylkingunni á þeim tíma, sem voru þá í stjórnarandstöðu. Ef við hefðum gert það, virðulegi forseti, hefði skuldbindingin verið 400 milljörðum meiri, hvorki meira né minna.

Við erum í þeirri sérstöku stöðu að við fjöllum einungis um og deilum við Evrópusambandsríkin Bretland og Holland og síðan Evrópusambandið um innstæður eins banka, Landsbankans. En það voru fleiri bankar sem fóru í sambærilega vegferð og Landsbankinn en gengið er frá þeim skuldbindingum og innstæðum sem þar eru með öðrum hætti vegna þess að þar var um útibú að ræða í viðkomandi löndum, þar var ekki sami háttur á og hjá Landsbankanum.

Það er mjög slæmt að menn skyldu ekki aðeins leiða hugann að þessu á stjórnarheimilinu vegna þess að þetta er ein af okkar málsvörnum og kannski sterkasta málsvörnin, þessi gallaða tilskipun Evrópusambandsins. Það er ekkert réttlæti í því að koma fram við eitt minnsta landið á Evrópska efnahagssvæðinu eins og þessi lönd hafa gert. Ég hef reynt það sjálfur, ég hef kannað það með því að tala við þá félaga mína sem ég þekkir á öðrum þjóðþingum að þessum upplýsingum, í rauninni vörn Íslands, hefur ekki verið haldið á lofti. Við erum í þeirri kaldhæðnislegu stöðu — við höfum í rauninni líka verið í henni í sumar hér á þinginu og það kemur fram í því að ríkisstjórnin nýtir t.d. ekki utanríkisþjónustuna til þess að halda þessum sjónarmiðum okkar á lofti. Og þegar maður tekur upp hjá sjálfum sér að upplýsa þingmenn um þessa hluti kemur þetta þeim mjög á óvart. Það er slæmt að við höfum verið með þetta vinnulag og þessa stefnu ríkisstjórnarinnar sem felur það í sér að menn eru ekki einbeittir í því að gæta hagsmuna Íslendinga í þessu máli og það er mjög slæmt. Ég fullyrði að sjónarmiðum okkar varðandi þessa gölluðu tilskipun hefur ekki verið haldið á lofti þar sem það átti að gera, svo einfalt er það mál. Það er mjög dýrt fyrir þjóðina.

Það hefur allt of mikil áhersla verið lögð á samninganefndina, að mörgu leyti af góðri ástæðu vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að setja aðila, sem var mjög framarlega í pólitík hér á landi á sínum tíma, sem formann samninganefndar. Mörgum þótti það skrýtið og fannst það líka vera sönnun þess að hér væri ekki um skynsamlega skipun að ræða þegar menn sjá niðurstöðu samningsins. En samninganefndin og meira að segja formaður samninganefndar bera ekki ábyrgð á þessu. Þeir sem bera ábyrgð á Icesave-samningnum er ríkisstjórnin og ég hvet fólk til þess að skoða hvað forustumenn ríkisstjórnarinnar, hvað hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra sögðu þegar þau kynntu samninginn.

Ég ætla ekki að lesa það upp á þessum stutta ræðutíma sem hæstv. forsætisráðherra sagði. Í örstuttu máli gekk það út á það að hafa ekki neinar áhyggjur, það hefði náðst svo góður samningur að hér væri ekkert um það að ræða að íslensk þjóð þyrfti að greiða nokkurn skapaðan hlut. Þannig var lagt af stað í þessa vegferð. Eins og kom fram hjá þingmönnum, m.a. hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, stóðst ekkert af því sem forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu um samninginn þegar hann var skoðaður. Það átti ekki að leyfa þingmönnum að sjá samninginn. Mér þykir mjög miður að forustumenn ríkisstjórnarinnar, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra, hafi haldið öðru fram. Ég var sjálfur í þingnefnd sem bað um að við fengjum kynningu á því og okkur var sagt það mjög skýrt að það væri ekki hægt en hugsanlega gæti Ríkisendurskoðun túlkað þetta ofan í okkur af því að hún fengi að sjá samninginn.

Það er kaldhæðnislegt að samningurinn kom fyrst fyrir sjónir þingmanna í gegnum fjölmiðla, ef ég man rétt var það visir.is sem birti samninginn fyrst, í kjölfarið fengu þingmenn að sjá þann samning sem þeir áttu að fjalla um. En það átti að afgreiða þetta mál á nokkrum dögum án þess að þingmenn fengju að sjá samninginn.

Það sem hefur gerst einfaldlega er það að ríkisstjórnin hefur verið gerð afturreka með þetta mál. Við allar eðlilegar aðstæður hefði ríkisstjórn sem hefði komið með samning sem þennan þurft að segja af sér, þannig er það. Stjórnarandstaðan hefur hins vegar ekki farið fram á það, hún hefur ekki verið að ýta á það, menn hafa meira að segja nálgast málið með þeim hætti og þannig hefur verið afstaða okkar sjálfstæðismanna að við höfum reynt að gera hvað við getum til að bjarga þessu máli. Það er ekkert leyndarmál að við höfum reynt að gera þetta eins pólitískt auðvelt fyrir ríkisstjórnarflokkana og mögulegt er.

Prófessor í stjórnmálafræði sagði að það gerðist mjög sjaldan. Ég man ekki hvort hann orðaði það þannig að hann myndi ekki eftir því að stjórnarandstaðan reyndi ekki að gera ríkisstjórn erfitt fyrir í máli, en það var það sem var gert hér. Menn lögðust allir á árarnar og reyndu að breyta þessu skelfilega máli. Af hverju? Menn mátu það sem svo að hagsmunirnir væru það stórir að það væri það rétta í stöðunni.

Það liggur alveg fyrir að búið er að gjörbreyta ríkisábyrgðinni sem við erum að fjalla um sem tengist þessum skelfilega samningi. Ég vek athygli áhugasamra, sem eru fjölmargir, enda hér um gríðarlegt hagsmunamál að ræða, að skoða framhaldsnefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar og skoða sérstaklega á bls. 6. Þar er fyrirsögnin: Ef forsendur bresta. Þar er tafla sem sýnir hvernig staðan gæti verið, þ.e. hvað Íslendingar þyrftu að borga. Munurinn á þeim opna tékka sem samningurinn og frumvarp ríkisstjórnarinnar voru í þessu máli, eftir að fyrirvararnir eru komnir inn, liggja einfaldlega í því að komið er mjög greinilegt þak og menn munu aldrei borga nema sem nemur ákveðnu hlutfalli, nánar tiltekið 6%, af hagvexti á hverju ári. Síðan kemur það skýrt fram að ríkisábyrgðin fellur niður 5. júní 2024. Það eru stóru málin. Með öðrum orðum, ef enginn hagvöxtur er á Íslandi greiðir Ísland ekki neitt.

Þegar þetta kom fram tók alþjóðlega pressan það upp og sagði að þetta gæti verið fyrirmynd í lánasamningum á milli ríkja, það væri mun eðlilegra að ríki mundu greiða í samræmi við það sem þau gætu frekar en, eins og staðan er núna, að menn væru með mjög óraunhæfa lánasamninga sem ganga ekki upp og hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér. Það er því í raun og veru það eina sem gildir núna þegar kemur að greiðslum í þessu, hversu mikill hagvöxtur verður, það er það sem allt mun velta á ef málið nær fram að ganga með þessum fyrirvörum. Það er hagvöxturinn en í rauninni ekki þær upphæðir eða það upplegg sem er í þeim samningi sem fyrir er. Það hefur ekkert með endurheimtur af lánasafni Landsbanka að gera, það hefur fyrst og fremst með hagvöxtinn að gera.

Virðulegi forseti. Þetta er erfitt mál og snúið. Ég tel að við sjálfstæðismenn höfum gert hárrétt í því að haga okkur ekki eins og hefðbundinn stjórnarandstöðuflokkur heldur reynt að hjálpa ríkisstjórninni úr þessu skelfilega öngstræti sem hún var búin að koma ekki sjálfri sér í heldur þjóðinni í. En á meðan við vorum að reyna að bjarga því sem bjargað verður áttum við ekki við þessa samningsaðila okkar, við áttum fyrst og fremst við stjórnarliða og þá sérstaklega Samfylkinguna, virðulegur forseti, eins og hæstv. utanríkisráðherra, sem nú gengur í salinn. Því miður er þetta mál, eins og á því er haldið, ein afleiðing af Evrópusambandsglýju Samfylkingarinnar og barnslegri trú á að ef Ísland gengur í Evrópusambandið muni allir hlutir lagast.

Nú eru málefnaleg rök fyrir því og mikið af mætu fólki sem vill að Ísland gangi í Evrópusambandið en það er almennt ekki þeirrar skoðunar að það leysi allan vanda og hér verði ávallt gott veður og hér gerist ekkert slæmt ef það verður. Í þeim hópi sem þannig hugsar er Samfylkingin og þess vegna sátum við uppi með þetta skelfilega frumvarp sem við höfum sem betur fer náð að breyta umtalsvert, virðulegur forseti.