Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 16:50:40 (4669)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef bara eftir það sem er talað um í nefndaráliti sjálfstæðismanna að hér með sé búið að gjörbreyta eðli málsins og það hafi gert það vert að styðja málið. Þess vegna finnst mér mjög einkennilegt að hlusta á að menn séu annars vegar að segja hérna að þetta sé algjörlega nýr samningur, nýtt samningstilboð sem byggi á tillögum sjálfstæðismanna en hins vegar að þetta sé enn þá handónýtur samningur og sjálfstæðismenn ætli ekki að bera neina ábyrgð á samningnum.

Ég mundi gjarnan vilja fá á hreint hver afstaða Sjálfstæðisflokksins er í þessu máli og hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti tekið undir ábendingar frá sérfræðingnum sem ég nefndi, Lee Buchheit, að þegar verið er að fást við svona erfitt og stórt mál sé raunar nánast ómögulegt fyrir okkur að setja upp fyrirvara við öllum þeim tilfellum sem upp geta komið, eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á. Í þeim fyrirvörum sem liggja núna fyrir er ekkert verið að fjalla um gjaldfellingarákvæði samninganna, þau standa bara.

Ég veit ekki betur en að menn hafi haft töluverðar áhyggjur af t.d. Landsvirkjun — (Forseti hringir.) hvað gerist ef Landsvirkjun lendir í vandræðum?