Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 17:11:33 (4678)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmanni má þakka hverjum sem hún vill. Ef hún vill þakka sínu eigin fólki þá má hún gera það, ég gerði það líka áðan.

Ástæðan fyrir því að ég kem upp í andsvar við hana og kem þessum viðhorfum á framfæri er sú að ég átti þess ekki kost sökum annarra starfa í dag að koma hér og tjá sömu viðhorf eins og ég hafði hugsað mér að gera gagnvart formanni Sjálfstæðisflokksins. Hún er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þess vegna vil ég koma þessu á framfæri við hana. Ég tel að það séu margir samverkandi þættir sem hafa gert það að verkum að mjög erfið og þröng staða er hugsanlega svolítið betri núna í lok sumars. Við áttum í erfiðri deilu við Hollendinga og Breta og á þeim tíma var ekki hægt að koma með betri niðurstöðu en menn gerðu.

Hv. þingmaður hefur sagt að menn vilji skjóta sér undan ábyrgð á því. Ég geri það ekki. Ég ber mína ábyrgð á því og stend fyllilega undir henni en í þeirri stöðu sem málið var komið í tel ég að þingið hafi brugðist við af mikilli ábyrgð og festu. Auðvitað hafa komið skiptar skoðanir fram og það eru ekki allir sammála þeirri niðurstöðu sem hér liggur fyrir. Það hefur t.d. komið fram að einn flokkur, Framsóknarflokkurinn, stendur ekki að henni en ég tel samt sem áður að málflutningur Framsóknarflokksins hafi líka skipt máli í þeirri niðurstöðu sem hér er að lokum. (ÞKG: ... öllu máli.) Það skiptir öllu máli í stjórnmálum að hafa skapandi hugsun og hafa tilfinningu fyrir tímasetningum. Það er einmitt framvindan eins og hún ræðst af afstöðu manna, málflutningi þeirra, framvindu tímans og þroska hvers máls sem ræður niðurstöðu.

Ég vil bara segja að ég tel sem sagt og tek undir það sem hv. þingmaður sagði — við erum alla vega sammála um það, við höfum ekki verið það síðustu 17 árin þannig lagað — að þingið eigi með miklu öflugri hætti að koma að málum. Ég er sem sagt, svo ég segi það enn einu sinni, þeirrar skoðunar að það ráðherraræði sem hér hefur verið síðustu árin, svo ég segi það alveg hreint og opið, ekki síst undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, er kannski ekki á enda komið. (Forseti hringir.) En ég er þeirrar skoðunar að það eigi að komast á enda, (Forseti hringir.) ég er þeirrar skoðunar að þingið eigi að vera virkara og öflugra (Forseti hringir.) og ég tel að þingið hafi miklu ráðið um niðurstöðu ESB-málsins, ég tel það.