Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 27. ágúst 2009, kl. 17:45:09 (4686)


137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:45]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tala á ný í þessu mesta hagsmunamáli sem komið hefur upp og fyrir Alþingi. Hér er um fordæmalausa ríkisvæðingu á einkaskuld að ræða og er í raun og veru alveg hreint með ólíkindum að við, löggjafarvaldið, skulum standa í þeim sporum að þurfa að uppfylla þá skyldu að tala fyrir því og samþykkja að setja ríkisábyrgð á einkaskuldir einkaaðila.

Framsóknarflokkurinn hefur talað þannig og er sannfærður um að vísa beri samningnum til hliðar og semja upp á nýtt. Úr því hvernig málið er komið — og þessi tillaga var felld í 2. umr. — munum við útskýra skoðanir okkar fyrst og fremst í atkvæðagreiðslunni á morgun.

Þetta alvarlega mál hefur verið haft mikið í flimtingum og er ég alveg undrandi á hæstv. utanríkisráðherra hvernig hann getur verið að grínast utan og innan þingsalar með það að það þurfi skapandi túlkun og skapandi hugsun til að sjá vilja Breta og Hollendinga og hvernig þeir líta á þennan samning. Hér er um háalvarlegt mál að ræða, hér er búið að stagbæta þennan vonlausa samning sem sjálfur hæstv. fjármálaráðherra lagði höfuð sitt verði fyrir og taldi að þetta væri þannig mál að það skipti einhverju máli að hann væri fjármálaráðherra. En nú hefur komið í ljós að ekkert er eftir af frumvarpinu sem lagt var fram nema fyrirsögnin eins og fram hefur komið því að samningurinn stendur, þessi hryllilegi samningur, þessi nauðasamningur sem meira að segja leiddi það af sér að friðhelgisréttindi Íslendinga voru fyrir borð borin. Það hefur aldrei annar eins samningur sést á byggðu bóli. Bretar komu vel undirbúnir og gerðu að sjálfsögðu ýtrustu kröfur. Íslenska samninganefndin hefði átt að hafa þá fyrirvara sem nú eru komnir við þennan samning í höndunum er hún gekk á fund Breta og Hollendinga, þá hefði henni kannski orðið eitthvað ágengt.

Nú erum við stödd í þeim sporum að það liggur fyrir samningur sem meiri hluti fjárlaganefndar er búinn að gera ótal fyrirvara við og það hefur enginn getað sagt mér eða svarað mér því hvort Bretar og Hollendingar taki þá gilda. Því erum við komin inn í 3. umr. Það á að vera atkvæðagreiðsla um þetta mikilvæga mál á morgun og það hefur enginn getað svarað því hvað Bretar og Hollendingar ætla að gera. Ég hef farið yfir það bæði í andsvörum og ræðum að grein 13.1.1. í breska samningnum og 12.1 í þeim hollenska leiði það af sér að ekki megi breyta samningunum eða bæta við þá þannig að hér er um fullkomna óvissu að ræða.

Eftir því sem ég les samningana betur finnst mér grein 6 í þeim, um ábyrgð og skaðleysi, alveg með ólíkindum og nú skil ég hvers vegna gert var svona lítið úr áliti tveggja lögmanna varðandi skuldajöfnun. Það kemur skýrt fram í samningunum sjálfum í grein 6.7 að íslenska ríkið skuldbatt sig til að gera upp alla Icesave-skuldbindingarnar áður en lánveitandi gæti gefið fyrirmæli um að við gætum nýtt rétt okkar til skaðabóta eða kröfuhafaskipta. Það er sama hvar borið er niður í þessum samningum. Það er allt sem vinnur á móti íslensku þjóðinni. Ég hef ekki fundið eitt einasta jákvætt atriði í þar.

Mig langar aðeins til að tæpa á því, því að ég var minnt á að ég skrifaði blaðagrein varðandi það að samkvæmt stjórnarskrá mætti ekki ríkisvæða einkaskuldir. Það er farið að styttast í þessu öllu saman en mig langar aðeins til að það komist inn í þingræðu að í 77. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram eftirfarandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“

Hér erum við komin að algeru grundvallaratriði. Hér er verið að veita ríkisábyrgð á löngu orðnum hlut og það er ekki heimilt samkvæmt stjórnarskrá. Það er allt annað þegar ríkið tekur þá ákvörðun að veita ríkisábyrgð eins og t.d. gerðist eftir 11. september þegar var veitt ríkisábyrgð á Flugleiðum á sínum tíma en hér gekk ríkið raunverulega á móti stjórnarskránni. Ég minni á að stjórnarskráin er til þess gerð að verja réttindi þegnanna sem búa í því landi og því ríki sem viðkomandi stjórnarskrá gildir um. Hér er verið að leggja á afturvirkan skatt og það atvik sem ræður þessari ríkisábyrgð átti sér stað í október sl. Það er bráðum ár síðan. Svona hefur þetta mál allt saman verið unnið. Framsóknarmenn hafa komist mjög sterkir á þrautseigju sinni í gegnum þetta mál. Við bentum á friðhelgisafsalið við fullveldisákvæðið, yfirráðin yfir náttúruauðlindunum, og ég verð að segja að ég undraðist mjög viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra þegar þetta mál kom til 1. umr. Hann taldi það af og frá að um nokkurt afsal fyrir íslenska ríkið væri að ræða og má eiginlega segja að eftir á að hyggja virðist líta út fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki verið búinn að lesa samninginn.

Nú er komið að tímamótum á Alþingi. Nú er þessu máli að ljúka. Það verður greitt um það atkvæði kl. 10 í fyrramálið. Við framsóknarmenn höfum reynt að standa í lappirnar í þessu máli og getum þakkað okkur margar þær breytingartillögur sem komið hafa hingað inn því að eins og oft hefur komið fram átti að þröngva þessum samningum í gegnum þingið án þess að nokkur fengi að sjá þá, sem er hreint með ólíkindum. Nú skulum við sjá þegar ESB-málinu er lokið, þegar Icesave-samningunum er lokið, hvers þessi slaka vinstri ríkisstjórn er megnug, við skulum sjá hvað hún fer að sýsla við þegar þessi mál eru í höfn, við skulum sjá hvað þessi ríkisstjórn ætlar að gera í jafnri skuldaniðurfellingu fyrir heimilin. Við skulum sjá hvort stjórnarliðar hafa þrek til að takast á við það vandamál sem hefur verið síðan í bankahruninu, að gera eitthvað fyrir íslensk heimili og fjölskyldur sem hafa beðið og beðið og alltaf versnar staðan og það er komið ár síðan bankahrunið varð. Við skulum sjá hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera. Ég bíð alla vega spennt eftir því.