Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 28. ágúst 2009, kl. 10:19:36 (4711)


137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um býsna viðkvæmt atriði málsins sem lýtur að því hvort fyrirvararnir sem vísað er til í ákvæðinu opna á það að með viðræðum verði ríkisábyrgðin einhvern veginn framlengd eða gerð víðtækari en frumvarpið að öðru leyti segir til um. Það er alveg skýrt af hálfu þeirra sem standa að þessari breytingartillögu að svo er ekki.

Þegar vísað er í fyrirvarana sem fram komu í lögunum er ekki vísað til ákvæðisins sérstaklega sem fjallar um að menn eigi með sér viðræður ef eitthvað stendur út af í lánasamningunum vegna þess að þær viðræður geta aldrei leitt til annars en þess sem snýr að efni samninganna sjálfra. Það segir skýrt í áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og ég veit að sú skoðun er samhljóma áliti meiri hlutans, að Alþingi eitt (Forseti hringir.) getur ákveðið framlengingu ríkisábyrgðarinnar, Alþingi eitt gerir breytingar á ríkisábyrgðinni og það er ekki verið að framselja til eins eða neins vald til að gera breytingar á henni.