Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.

Þskj. 4  —  4. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs,
nr. 55/2003, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Eftirfarandi skilgreining bætist við greinina í viðeigandi stafrófsröð: Framleiðandi úrgangs: aðili sem veldur því að úrgangur myndast.
     b.      Skilgreining á umflutningi verður svohljóðandi: Umflutningur: flutningur úrgangs í höfn eða á flugvöll og þaðan aftur án tollafgreiðslu.

2. gr.

    1. málsl. 9. gr. laganna orðast svo: Rekstraraðili skal fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þær tegundir úrgangs sem fargað er eða eru endurnýttar eða endurnotaðar, um heildarmagn og um árangur af vöktunaráætlun, sbr. 32. og 33. gr., fyrir undangengið ár.

3. gr.

    Í stað 12. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Flutningur úrgangs á milli landa, með átta nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:

    a. (12. gr.)

Skráning og tilkynningarskylda.


    Framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni skal halda skrá m.a. yfir magn og uppruna úrgangs, áfangastað og hver sé viðtakandi hans, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur. Framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni skal hafa skrána aðgengilega fyrir eftirlitsaðila.
    Sá aðili sem meðhöndlar úrgang, sem er nánar tilgreindur í reglugerð sem ráðherra setur, skal jafnframt tilkynna Umhverfisstofnun um magn og uppruna úrgangsins, áfangastað og hver sé viðtakandi hans.


    b. (13. gr.)

Takmörkun á flutningi úrgangs.


    Óheimilt er að flytja tilteknar tegundir úrgangs milli tiltekinna landa, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar, hvort sem um er að ræða útflutning, innflutning eða umflutning. Tilgreina skal í reglugerð tegundir úrgangs sem óheimilt er að flytja og þau lönd sem óheimilt er að flytja slíkan úrgang til, sbr. 1. málsl.
    Óheimilt er að þynna eða blanda úrgang við undirbúning flutnings og á meðan á flutningi stendur.
    Umhverfisstofnun sker úr ágreiningi um hvort um vöru eða úrgang er að ræða og sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun æðra stjórnvalds.

    c. (14. gr.)

Samþykki.


    Umhverfisstofnun samþykkir tilkynningar fyrir innflutning, útflutning og umflutning úrgangs sem tilgreindur er nánar í reglugerð sem ráðherra setur. Ráðherra kveður í reglugerð á um skilyrði fyrir samþykki stofnunarinnar fyrir flutningi úrgangs.

    d. (15. gr.)

Eftirlit og sýnataka.


    Umhverfisstofnun fer með eftirlit með flutningi úrgangs milli landa. Stofnuninni skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits að einstökum förmum úrgangs sem fluttur er milli landa, þar á meðal til töku sýna og myndatöku. Heimild þessi nær einnig til úrgangs sem er undirbúinn til flutnings. Um eftirlit og sýnatöku skal kveða nánar á í reglugerð.

    e. (16. gr.)

Gjaldtaka.


    Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald vegna umsýslu við tilkynningar, sbr. 14. gr. Þá er stofnuninni heimilt að innheimta gjald vegna sýnatöku og eftirlits, sbr. 15. gr. Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni stofnunarinnar vegna flutnings á úrgangi milli landa. Upphæð gjalda skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu og verkefni samkvæmt þessum kafla.

    f. (17. gr.)

Trygging um fjárhagslega ábyrgð vegna flutnings úrgangs.


    Umhverfisstofnun er heimilt að setja sem skilyrði fyrir samþykki stofnunarinnar fyrir útflutningi, innflutningi og umflutningi úrgangs að framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni framvísi tryggingu um fjárhagslega ábyrgð fyrir kostnaði við meðhöndlun úrgangsins. Trygging um fjárhagslega ábyrgð getur verið bankaábyrgð, vátrygging eða önnur trygging sem Umhverfisstofnun metur fullnægjandi. Upphæð tryggingar um fjárhagslega ábyrgð skal ná yfir kostnað við meðhöndlun úrgangsins, þ.m.t. geymslu úrgangsins í 90 daga, kostnað við að flytja úrganginn á annan endurnýtingar- eða förgunarstað og að flytja úrganginn til baka til upprunalands.

    g. (18. gr.)

Ólöglegur flutningur.


    Nú uppgötvar Umhverfisstofnun flutning sem stofnunin telur vera ólöglegan og skal hún þá þegar tilkynna það öðrum hlutaðeigandi lögbærum stjórnvöldum. Jafnframt skal Umhverfisstofnun taka til baka úrgang sem hefur verið fluttur ólöglega út eða láta endurvinna eða farga úrganginum í samráði við önnur lögbær stjórnvöld sem hlut eiga að máli. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd aðgerða vegna ólöglegs flutnings úrgangs.
    Sá kostnaður sem hlýst af ólöglegum flutningi úrgangs skv. 1. mgr. skal greiddur í eftirfarandi röð af:
     a.      tilkynnanda í reynd, eða ef engin tilkynning hefur verið lögð fram,
     b.      tilkynnanda að lögum, eða,
     c.      öðrum aðila sem tengist úrganginum, eða ef því verður ekki komið við,
     d.      lögbæru sendingarstjórnvaldi.
    Kostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun skv. 2. mgr. greiðist úr ríkissjóði.

    h. (19. gr.)

Skylda að taka úrgang til baka.


    Umhverfisstofnun skal taka til baka úrgang þegar flutningur hans er ekki í samræmi við skilyrði samþykkis fyrir flutningnum. Umhverfisstofnun er þó ekki skylt að taka til baka úrgang ef:
     a.      hlutaðeigandi lögbær stjórnvöld sem hlut eiga að máli telja fullnægjandi að úrgangurinn sé meðhöndlaður með öðrum hætti þar sem hann er staðsettur eða annars staðar; skal það gert af tilkynnanda, lögbæru stjórnvaldi þar sem úrgangurinn er staðsettur eða af aðila á vegum þess,
     b.      úrgangurinn hefur blandast öðrum úrgangi áður en Umhverfisstofnun var gert viðvart um að úrgangurinn uppfyllti ekki skilyrði samþykkis fyrir flutningnum.
    Umhverfisstofnun skal tilkynna hlutaðeigandi lögbærum stjórnvöldum um að flutningur úrgangs sé ekki í samræmi við samþykki fyrir honum um leið og stofnuninni verður það ljóst.
    Sá kostnaður sem hlýst af móttöku úrgangs skv. 1. mgr. skal greiddur í eftirfarandi röð af:
     a.      tilkynnanda, eða ef því verður ekki komið við,
     b.      öðrum aðila sem tengist úrganginum, eða ef því verður ekki komið við,
     c.      Umhverfisstofnun, eða ef því verður ekki komið við,
     d.      samkvæmt samkomulagi milli hlutaðeigandi lögbærra stjórnvalda sem hlut eiga að máli.
    Kostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun skv. 1. mgr. greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.

    Á undan 13. gr. laganna, sem verður 20. gr. þeirra, kemur ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: IV. KAFLI, Reglugerðir, og breytast númer kafla samkvæmt því.

5. gr.

    Í stað k- og l-liðar 13. gr. laganna, sem verður 20. gr. þeirra, koma sex stafliðir, svohljóðandi:
     k.      eftirlit með flutningi úrgangs milli landa og tilkynningarskyldu þeirra sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang, fjárhagslega ábyrgð og tryggingu skv. 17. gr.,
     l.      bann eða takmörkun á flutningi úrgangs til og frá tilteknum löndum, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar,
     m.      nánari atriði er varða ólöglegan útflutning, umflutning og innflutning á úrgangi og skyldur aðila til að taka úrgang til baka,
     n.      ákvæði um skrá sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni skal halda, m.a. yfir magn og uppruna úrgangs, áfangastað og viðtakanda hans,
     o.      samþykki Umhverfisstofnunar, hvaða úrgangur er háður slíku samþykki og eyðublöð fyrir tilkynningu um flutning úrgangs, ásamt sértækum leiðbeiningum og hvaða upplýsingar og skjöl þurfa að fylgja tilkynningunni,
     p.      önnur atriði sem samræmast lögum þessum.

6. gr.

Innleiðing á reglugerð.


    Lög þessi eru sett til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/ 2006/EB frá 14. júní 2006 um flutning úrgangs, sem vísað er til í V. kafla í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 73/2008.

7. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs.
    Hinn 14. júní 2006 samþykkti Evrópuþingið og ráðið reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs. Reglugerðin var tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2008 frá 6. júní 2008. Hefðbundinn frestur Íslands til að innleiða reglugerðina í íslenska löggjöf rann því út 6. desember 2008. Reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs tengist einnig svokallaðri BAN-samþykkt við Baselsamninginn (alþjóðasamningi um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa og förgun þeirra).
    Að stórum hluta er nú þegar farið að vinna samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1013/2006 hér á landi þó að lagastoð skorti þar sem það er forsenda fyrir flutningi úrgangs til og frá Íslandi. Þannig er t.d. ekki hægt að flytja úrgang frá Íslandi til annarra ríkja EES-svæðisins án þess að lögð sé fram trygging og notuð séu rétt eyðublöð við tilkynningu á flutningnum. Komið hafa upp ýmsir vankantar í sambandi við flutning á úrgangi milli landa þar sem Ísland hefur ekki innleitt reglugerðina og er því afar mikilvægt að innleiða ákvæði hennar hér á landi sem fyrst. Þegar hún verður innleidd að fullu þarf jafnframt að hafa til hliðsjónar reglugerð (EB) nr. 1379/2007 frá 26. nóvember 2007 um breytingu á viðaukum IA, IB, VII og VIII í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs, í þeim tilgangi að taka tillit til tæknilegra framfara og breytinga sem þegar hafa verið samþykktar við Baselsamninginn sem og reglugerðar (EB) nr. 669/2008 frá 15. júlí 2008 um að fullgera viðauka IC í reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs.
    Reglugerð (EB) nr. 1013/2006 um flutning úrgangs gildir um innflutning úrgangs, útflutning úrgangs, flutning úrgangs á milli aðildarríkja og umflutning úrgangs. Í reglugerðinni er tilgreint hvaða úrgangur fellur ekki undir gildissvið hennar. Reglugerðin kveður á um að fylla þarf út tilkynningar vegna förgunar og endurnýtingar tiltekins úrgangs. Einnig er kveðið á um auknar upplýsingar sem lögbær stjórnvöld geta beðið um vegna annars úrgangs og samning milli tilkynnanda og móttakanda um ráðstöfun úrgangsins sem og fjárhagslega ábyrgð.
    Reglugerðin tilgreinir nánar hvað samningur tilkynnanda og móttakanda á að innihalda, hvað felst í fjárhagslegri ábyrgð og yfir hvað hún á að ná, svo sem flutningskostnað, meðhöndlun og 90 daga geymslu, einnig hvað á að gera ef ekki er hægt að meðhöndla úrganginn af einhverjum ástæðum eða ef flutningur hans telst ólöglegur. Þá er fjallað um hvenær tilkynning telst frágengin, afgreiðslufresti, hvenær lögbær stjórnvöld geta beðið um frekari upplýsingar eða hvenær þau samþykkja flutning úrgangsins með skilyrðum. Kveðið er á um hvaða ástæður geta legið að baki ef lögbær stjórnvöld mótmæla flutningi úrgangsins til förgunar. Jafnframt er fjallað um samþykki sem þarf að liggja fyrir, bæði af hálfu lögbærra stjórnvalda í landinu sem úrgangurinn er sendur frá og í móttökulandinu. Tilgreindir eru tímafrestir og upplýsingar sem tilkynnandi á að senda til lögbærra stjórnvalda um það hvenær flutningurinn á sér stað. Þá er enn fremur kveðið á um aðgang almennings að gögnum um flutning úrgangs sem lögbær stjórnvöld hafa samþykkt og ekki eru háð trúnaði.
    Lögð er sú skylda á aðildarríkin að taka við úrgangi til baka ef ekki er hægt að ljúka við förgun eða endurnýtingu í móttökulandi eða ef flutningur úrgangs telst ólöglegur. Tiltekið er á hvern kostnaður fellur í slíkum tilvikum. Þegar aðildarríki er skylt að taka við úrgangi til baka þá fellur kostnaðurinn á ríkið þangað til réttur eigandi finnst. Finnist hann ekki fellur kostnaðurinn alfarið á aðildarríkið. Fjallað er um hvernig skuli tekið á málum ef kemur upp ágreiningur milli landa um hvort um sé að ræða úrgang eða ekki og skal þá t.d. meðhöndla sendinguna sem úrgang. Kostnaður við umsýslu og eftirlit skal greiðast af tilkynnanda. Heimilt er að gera einfaldari tvíhliða samninga vegna flutnings úrgangs milli landa í ákveðnum tilvikum, t.d. ef næsta meðhöndlunarstöð fyrir úrganginn er í öðru landi en upprunalandi hans.
    Meginreglan er sú að bannað er að farga úrgangi utan bandalagsins, nema ef um EFTA- ríki er að ræða. Bannað er að senda tiltekinn úrgang, svo sem spilliefni, til endurnýtingar í löndum sem OECD-ákvörðun C(2001)107 Final nær ekki til. Innflutningur úrgangs til förgunar er bannaður nema frá löndum sem eru aðilar að Baselsamningnum um eftirlit með flutningi spilliefna milli landa og förgun þeirra. Innflutningur úrgangs til endurnýtingar er bannaður nema frá löndum sem eru aðilar að framangreindri OECD-ákvörðun eða með sérstöku samkomulagi.
    Loks eru í reglugerð (EB) nr. 1013/2006 ákvæði um skýrslugjöf, alþjóðasamstarf, tilnefningu lögbærra stjórnvalda og breytingar á viðaukum. Reglugerðin fellir úr gildi reglugerð (EBE) nr. 259/93 og ákvarðanir 95/774/EB og 1999/412/EB. Reglugerðin tók gildi í Evrópubandalaginu 12. júlí 2007.
    
Meginbreytingar frá fyrri EB-löggjöf.
    Reglugerð (EB) nr. 1013/2006 kemur í stað reglugerðar (EBE) nr. 259/93 og má segja að gildissviðið sé bæði þrengt og víkkað. Reglugerðin nær ekki yfir úrgang frá friðargæsluliðum né úrgang frá Suðurskautslandinu. Þetta er gert til einföldunar á framkvæmd. Einnig er reynt að skilgreina úrgang skýrar með því að vísa í skilgreiningar um úrgang í tilskipun 2006/12/ EB, grein 1(1)(a).
    Reglugerðin skilgreinir tilkynnanda á nýjan hátt. Ekki er bara um að ræða þann sem úrgangurinn myndast hjá, heldur getur verið um að ræða söfnunaraðila fyrir úrgang, úrvinnsluaðila sem hefur meðhöndlað úrganginn fyrir útflutning, úrgangskaupmenn af ýmsu tagi og í síðasta lagi þann sem hefur úrganginn undir höndum.
    Reglugerðin skilgreinir einnig hvernig staðið skuli að útflutningi og innflutningi á mismunandi úrgangsflokkum og til hvaða landa megi flytja úrganginn, svo og fyrir hvaða úrgangsflokka þurfi fyrirframsamþykki móttökulandsins með meðfylgjandi ábyrgðum frá útflytjenda fyrir förgun eða endurvinnslu úrgangsins. Þetta er meira og minna óbreytt frá því sem áður var. Það sem breytist er að tímafrestir eru samræmdir bæði við útflutning og innflutning úrgangs. Förgun úrgangs er alltaf háð fyrirframsamþykki móttökulandsins óháð því hvers konar úrgang er um að ræða.
    Í 7. gr. reglugerðar (EB) nr 1013/2006 er kveðið á um að stjórnvald skuli, þegar það hefur samþykkt útflutningstilkynningu fyrir úrgang á svokallaðri rauðri og gulri skrá, sjálft senda tilkynninguna til móttökustjórnvalds, en ekki útflytjandi sjálfur. Þetta er breyting frá núgildandi reglum sem gera ráð fyrir að útflytjandi geri það sjálfur eða sé heimilt að gera það sjálfur. Sá háttur hefur verið viðhafður hér á landi. Tímafrestir eru mjög þröngir þannig að Umhverfisstofnun hefur einungis þrjá daga til að senda tilkynningu áfram til móttökustjórnvalds.
Reglugerðin hefur í för með sér verulega breytingu varðandi úrgang sem er á grænni skrá yfir úrgang, „green waste“. Slíkur úrgangur er skilgreindur í III. viðauka og III. viðauka a. Þar kemur fram sú krafa að útflytjendur verða tilkynningarskyldir. Með hverri sendingu skal fylgja útfyllt eyðublað (sbr. VII. viðauka) undirritað af útflytjanda og skal eyðublaðið undirritað af móttakanda við móttöku úrgangs (sbr. 18. gr). Með þessu skal fylgja gildur samningur um endurvinnslu og þar skal vera ákvæði um ábyrgð útflytjanda á endurvinnslunni. Í því tilfelli að útflytjandi verði gjaldþrota verður ábyrgð móttakanda virk. Upplýsa þarf stjórnvöld um þennan útflutning, t.d. með afritum af eyðublöðum og samningum.

Helstu nýmæli.
    Lögð er til sú breyting á 9. gr. laganna að rekstraraðili skuli einnig skila til Umhverfisstofnunar upplýsingum um þær tegundir úrgangs sem eru endurnýttar eða endurnotaðar. Þetta er m.a. gert til að fá tölulegar upplýsingar sem skila á til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og til að fylgjast með því hvernig gengur að ná þeim markmiðum sem sett eru um endurnýtingu. Þá er nauðsynlegt fyrir frekari stefnumótun að hafa upplýsingar um magn úrgangs sem er endurnýtt og endurnotað.
    Í frumvarpinu er enn fremur gerð tillaga um að lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, verði breytt á þann veg að ákvæði verði sett til að banna útflutning tiltekins úrgangs til tiltekinna landa, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar. Einnig er lagt til að bannað verði að flytja inn tiltekinn úrgang frá tilteknum löndum, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar. Gerð er tillaga um að sett verði skýr ákvæði um hvað skuli gera þegar um ólöglegan útflutning á úrgangi er að ræða og um skyldur aðila til að taka við honum til baka. Jafnframt er gerð sambærileg tillaga um hvað skuli gera þegar ólöglegur flutningur úrgangs frá öðru landi uppgötvast hér á landi. Í frumvarpinu er lagt til að sett verði ákvæði um gjaldtökuheimild til handa Umhverfisstofnun vegna umsýslu við tilkynningar og eftirlit. Einnig er talið eðlilegt að leggja til að lagastoð fyrir tilkynningarskyldu verði styrkt þar sem hún er nú aukin í EB-gerðinni og nær yfir úrgang á svokallaðri „grænni skrá yfir almennan úrgang“. Sömuleiðis er kveðið á um upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar og um hve mikið af þeim upplýsingum skuli bundið trúnaði.
    Lagaheimild gildandi reglugerðar nr. 224/2005 um gildistöku EES-gerða um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og frá Evrópubandalaginu er í lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og í 7. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Í framhaldi af gildistöku laganna, verði frumvarp þetta að lögum, þarf að setja nýja reglugerð sem innleiðir ákvæði reglugerðar (EB) nr. 1013/2006 og fellir um leið úr gildi reglugerð nr. 224/2005.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um að bæta við einni skilgreiningu og gera aðra fyllri. Nauðsynlegt er að skilgreina framleiðanda úrgangs sem þann er veldur því að úrgangur myndast. Þar sem umflutningur (e. transit) er skv. 32. tölul. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 1013/2006 flutningur eða fyrirhugaður flutningur á úrgangi í gegnum eitt eða fleiri lönd önnur en landið sem sendingin kemur frá eða á að fara til og getur jafnframt átt sér stað erlendis og á flugvöllum er gerð tillaga um að skilgreiningunni sé breytt á þann veg að umflutningur einskorðist ekki við íslenska höfn.

Um 2. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 1. málsl. 9. gr. laganna. Gerð er tillaga um að rekstraraðili skuli fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þær tegundir úrgangs sem fargað er, eru endurnýttar eða endurnotaðar, um heildarmagn úrgangs og um árangur af vöktunaráætlun fyrir næstliðið ár. Þannig er lagt til að auk þess að skila inn upplýsingum um tegundir úrgangs sem er fargað skuli einnig skila inn upplýsingum um tegundir úrgangs sem eru endurnýttar og endurnotaðar. Þetta er talið nauðsynlegt til að fá betri sýn yfir það í hvaða farveg úrgangur fer og til að fá fram tölulegar upplýsingar sem skila á til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Einnig er þetta nauðsynlegt til að fylgjast með þeim markmiðum sem sett eru og fyrir stefnumótun.

Um 3. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um að bæta við lögin nýjum kafla, með átta nýjum greinum, er fjalli um flutning úrgangs á milli landa.
     Um a-lið (12. gr.).
    Í þessum lið er fjallað um skráningu og tilkynningarskyldu. Lagt er til að framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni (úrgangshafi) skuli halda skrá, m.a. yfir magn og uppruna úrgangs, hvert úrgangur er fluttur og hver sé viðtakandi hans, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur. Skráin skal vera aðgengileg fyrir eftirlitsaðila.
     Um b-lið (13. gr.).
    Hér fjallað er um takmörkun á flutningi úrgangs. Tiltekið er í 1. mgr. að óheimilt sé að flytja tilteknar tegundir úrgangs milli tiltekinna landa, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar, hvort sem um er að ræða útflutning, innflutning eða umflutning. Gerð er tillaga um að sá úrgangur og þau lönd sem falla hér undir verði tilgreind í reglugerð. Þá er tilgreint í 2. mgr. að óheimilt sé að þynna eða blanda úrgang við undirbúning flutnings og á meðan á flutningi stendur. Þetta er mikilvægt ákvæði og felur í sér að skýrt á að vera hvernig viðkomandi úrgangur er samansettur þegar flutningur hefst og að hann á að vera í sama ástandi þegar hann kemur á ákvörðunarstað. Loks er í 3. mgr. lagt til að Umhverfisstofnun skeri úr ef upp kemur ágreiningur um hvort um vöru eða úrgang er að ræða. Lagt er til að ákvörðun stofnunarinnar sæti ekki endurskoðun æðra stjórnvalds.
     Um c-lið (14. gr.).
    Í reglugerð (EB) nr 1013/2006 er kveðið á um samþykki sem þarf að liggja fyrir, bæði af hálfu lögbærra stjórnvalda í landinu sem úrgangurinn er sendur frá og í móttökulandinu. C- liður greinarinnar fjallar um samþykki Umhverfisstofnunar á tilkynningum fyrir innflutning, útflutning og umflutning úrgangs sem nánar er tilgreindur í reglugerð. Lagt er til að ráðherra setji í reglugerð nánari reglur um skilyrði fyrir samþykki stofnunarinnar fyrir flutningi úrgangs.
     Um d-lið (15. gr.).
    Í þessum lið er kveðið á um eftirlit og sýnatöku. Gerð er tillaga um að Umhverfisstofnun fari með eftirlit með flutningi úrgangs milli landa. Stofnuninni skal heimill aðgangur, til skoðunar og eftirlits, að einstökum förmum úrgangs sem fluttir eru milli landa, þar á meðal til töku sýna og myndatöku. Ákvæði þetta er í samræmi við ákvæði 28. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gerð er tillaga um að heimild Umhverfisstofnunar til skoðunar og eftirlits nái einnig til úrgangs sem er undirbúinn til flutnings. Nánar skal kveðið á um eftirlit og sýnatöku í reglugerð.
     Um e-lið (16. gr.).
    Þessi liður gerir ráð fyrir því að Umhverfisstofnun hafi heimild til gjaldtöku vegna umsýslu við tilkynningar. Þá er gerð tillaga um að stofnuninni verði heimilt að innheimta gjald vegna sýnatöku og eftirlits. Verði frumvarp þetta að lögum skal ráðherra setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni Umhverfisstofnunar vegna flutnings á úrgangi milli landa. Upphæð gjalda skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu og verkefni skv. III. kafla laganna.
     Um f-lið (17. gr.).
    Hér er fjallað um tryggingu um fjárhagslega ábyrgð vegna flutnings úrgangs. Lagt er til að Umhverfisstofnun verði heimilt að setja sem skilyrði fyrir samþykki stofnunarinnar til útflutnings, innflutnings og umflutnings úrgangs að framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni framvísi tryggingu um fjárhagslega ábyrgð fyrir kostnaði við meðhöndlun úrgangsins. Lagt er til að trygging um fjárhagslega ábyrgð geti verið bankaábyrgð, vátrygging eða önnur trygging sem Umhverfisstofnun metur fullnægjandi. Upphæð tryggingar skal ná yfir kostnað við meðhöndlun úrgangsins, þ.m.t. geymslu úrgangsins í 90 daga, kostnað við að flytja úrganginn á annan endurnýtingar- eða förgunarstað og að flytja úrganginn til baka til upprunalands.
     Um g-lið (18. gr.).
    Lagt er til að sú skylda verði lögð á Umhverfisstofnun að taka við úrgangi til baka ef ekki er hægt að ljúka við förgun hans eða endurnýtingu í móttökulandi. Sama gildir ef úrgangur er dæmdur ólöglegur og kveðið er á um á hvern kostnaður fellur í slíkum tilfellum.
    1. mgr. g-liðar kveður á um að Umhverfisstofnun skuli tilkynna hlutaðeigandi lögbærum stjórnvöldum telji stofnunin að um ólöglegan flutning úrgangs sé að ræða um leið og stofnunin verður hans vör. Jafnframt er lagt til að Umhverfisstofnun taki til baka ólöglegan flutning úrgangs eða láti endurvinna eða farga honum í samráði við önnur lögbær stjórnvöld sem hlut eiga að máli. Loks er í málsgreininni lagt til að ráðherra setji nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd aðgerða varðandi ólöglegan flutning úrgangs. Ákvæði um hver skuli bera kostnað sem hlýst af ólöglegum flutningi úrgangs er að finna í 2. mgr. Tilkynnandi í reynd (de facto), sé hann fyrir hendi, skal greiða kostnaðinn. Hátti þannig til að engin tilkynning hafi verið lögð fram ber tilkynnanda að lögum (de jure) að greiða. Gangi það ekki eftir er hægt að ganga að öðrum aðila sem tengist úrganginum. Loks, verði því ekki heldur við komið, lendir kostnaðurinn á lögbæru sendingarstjórnvaldi. Gerð er tillaga um að sá kostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun í slíkum tilvikum greiðist úr ríkissjóði.
     Um h-lið (19. gr.).
    Hér er fjallað um skyldu Umhverfisstofnunar til að taka úrgang til baka þegar flutningur hans er ekki í samræmi við skilyrði samþykkis fyrir flutningnum. Lagt er til að Umhverfisstofnun sé ekki skylt að taka til baka úrgang ef hlutaðeigandi lögbær stjórnvöld sem hlut eiga að máli telji fullnægjandi að úrgangurinn sé meðhöndlaður með öðrum hætti, þar sem hann er staðsettur eða annars staðar. Skal það gert af tilkynnanda eða af lögbæru stjórnvaldi þar sem úrgangurinn er staðsettur, eða af aðila á vegum þess. Hafi úrgangurinn blandast öðrum úrgangi áður en Umhverfisstofnun var gert viðvart um að úrgangurinn uppfyllti ekki skilyrði samþykkis fyrir flutningnum er stofnuninni ekki heldur skylt að taka hann til baka. Lagt er til í 2. mgr. greinarinnar að Umhverfisstofnun tilkynni hlutaðeigandi lögbærum stjórnvöldum um að flutningur úrgangs sé ekki í samræmi við leyfi fyrir honum um leið og stofnuninni verður það ljóst. Kostnaður sem hlýst af móttöku úrgangsins skal greiddur í fyrsta lagi af tilkynnanda og í öðru lagi af öðrum aðila sem tengist úrganginum. Ef hvorugur finnst þá í þriðja lagi af Umhverfisstofnun en annars í fjórða lagi samkvæmt samkomulagi milli þeirra lögbæru stjórnvalda sem hlut eiga að máli. Eins og í g-lið greinarinnar er gert ráð fyrir að kostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun í slíkum tilvikum greiðist úr ríkissjóði.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að við 13. gr. laganna sem verður 20. gr., verði frumvarp þetta að lögum, bætist sex nýir stafliðir sem kveða á um þær reglugerðarheimldir sem þörf er á vegna flutnings á úrgangi milli landa. Í framhaldi af setningu laganna er stefnt að því að innleiða hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006/EB frá 14. júní 2006 um flutning úrgangs með svokallaðri tilvísunaraðferð og tryggja þannig fullnaðarinnleiðingu hennar í íslenska löggjöf.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003,
um meðhöndlun úrgangs, með síðari breytingum.

    Frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1013/2006, um flutning úrgangs, og greiða fyrir flutningi úrgangs milli landa í samræmi við reglur Evrópusambandsins þar um.
    Áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs koma fram hjá Umhverfisstofnun. Samkvæmt frumvarpinu skal tilkynna fyrirhugaðan innflutning, útflutning og umflutning úrgangs til Umhverfisstofnunar sem skal ganga úr skugga um að flutningurinn uppfylli skilyrði reglugerðar sem ráðherra setur. Umhverfisstofnun skal jafnframt hafa eftirlit með flutningnum og er í því skyni heimilt að skoða og taka sýni úr einstökum förmum.
    Árlega eru 20–30 farmar úrgangs fluttir úr landi. Áætlað er að kostnaður Umhverfisstofnunar við vinnu í kringum þann flutning geti verið um 2 m.kr. á ári. Samkvæmt frumvarpinu verður Umhverfisstofnun heimilt að innheimta gjald vegna umsýslu við tilkynningar, sýnatöku og eftirlit og skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við veitta þjónustu. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði um greiðslu kostnaðar sem hlýst af ólöglegum flutningi úrgangs, m.a. við endurmóttöku, endurvinnslu eða förgun. Takist ekki að finna ábyrgðaraðila fyrir greiðslu þess kostnaðar skal hann greiddur af Umhverfisstofnun. Áætlað er að hvert slíkt tilvik hafi í för með sér 2 m.kr. kostnað. Þessi tilvik eru þó afar fátíð og ekkert slíkt hefur komið upp síðastliðin 15 ár. Má því ætla að sá kostnaður verði óverulegur. Að endingu má geta þess að í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að þegar sé að stórum hluta farið að vinna eftir fyrrgreindri reglugerð Evrópusambandsins hér á landi þó lagastoð skorti, því eins og nú háttar sé ekki hægt að flytja úrgang frá Íslandi til annarra ríkja EES svæðisins án þess að lögð sé fram trygging og notuð rétt eyðublöð við tilkynningu á flutningnum.
    Niðurstaða þessa kostnaðarmats er því sú að frumvarpið hafi óveruleg áhrif á kostnað ríkissjóðs og að á móti kostnaði komi gjaldtaka fyrir veitta þjónustu.