Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 34. máls.

Þskj. 34  —  34. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, 4. málsl., svohljóðandi: Sama á við um afla sem fæst við veiðar sem fara fram í fræðsluskyni, enda séu veiðarnar óverulegar og aflinn ekki fénýttur.

2. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í frístundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar er einungis heimilt að stunda með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla sem veiddur er samkvæmt heimild í þessari málsgrein er einungis heimilt að hafa til eigin neyslu og er óheimilt að selja eða fénýta hann á annan hátt.
    Ráðherra er heimilt að ákveða árlega að á tilteknum fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta teljist afli ekki til aflamarks eða krókaaflamarks, enda sé aflinn einungis fénýttur til að standa straum af kostnaði við mótshaldið.
    Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða er skylt að sækja um sérstakt leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem nota skal í því skyni. Einungis er heimilt að veita leyfi til frístundaveiða aðilum sem fengið hafa leyfi sem Ferðamálastofa gefur út með stoð í 8. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Einungis er heimilt að stunda veiðar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar á þeim bátum sem leyfi fá samkvæmt þessari grein.
    Leyfi til frístundaveiða, sbr. 3 mgr., eru tvenns konar:
     1.      Leyfi til að veiða fimm fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ekki er heimilt að nota fleiri en fimm sjóstangir og/eða færarúllur samtímis. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
     2.      Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts. Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Um afla þessara báta gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs skv. 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.
    Innan sama fiskveiðiárs er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort skv. 1. tölul. 4. mgr. eða 2. tölul. 4. mgr. Við veitingu leyfa til frístundaveiða koma aðeins til greina skip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Leyfi til frístundaveiða skulu veitt til eins fiskveiðiárs í senn. Ekki er heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er Fiskistofu heimilt að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða sem gildi fyrir tímabilið 1. maí – 31. ágúst enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.
    Rekstraraðili skal með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar og enn fremur reglur um bann við brottkasti afla og reglur um meðferð afla.
    Ráðherra setur í reglugerð frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, þ.m.t. um skil á skýrslum vegna veiða frístundaveiðibáta og á sjóstangaveiðimótum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Auk þeirra aflaheimilda sem úthlutað er á fiskveiðiárinu 2008/2009 á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, er í júní, júlí og ágúst 2009 heimilt að veiða á handfæri allt að 3.955 lestir samtals af óslægðum þorski, sem ekki reiknast til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda handfæraveiðar samkvæmt þessu ákvæði.
    Landinu verði skipt í eftirfarandi fjögur landsvæði: A. Eyja- og Miklaholtshreppur–Skagabyggð, B. Sveitarfélagið Skagafjörður–Grýtubakkahreppur, C. Þingeyjarsveit–Djúpavogshreppur, D. Sveitarfélagið Hornafjörður–Borgarbyggð. Í hlut landsvæðis A komi alls 1.316 tonn, í hlut landsvæðis B komi alls 936 tonn, í hlut landsvæðis C komi alls 1.013 tonn og í hlut landsvæðis D komi alls 690 tonn. Ráðherra skal í reglugerð kveða á um hvernig aflaheimildir skiptast á einstaka mánuði og skal ráðherra með reglugerð stöðva veiðar á hverju svæði þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla hvers mánaðar verði náð.
    Veiðar samkvæmt þessu ákvæði eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Aðeins er heimilt að veita fiskiskipi leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði að fullnægt sé ákvæðum 5. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Við útgáfu Fiskistofu á leyfi til fiskiskips samkvæmt þessu ákvæði falla úr gildi önnur leyfi þess til að stunda veiðar á fiskveiðiárinu 2008/2009 sem gefin eru út með stoð í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og er þeim fiskiskipum sem leyfi fá til handfæraveiða samkvæmt þessu ákvæði óheimilt að stunda aðrar veiðar en handfæraveiðar til loka fiskveiðiársins 2008/2009. Leyfi til veiða samkvæmt þessu ákvæði eru bundin við tiltekið landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. þessa ákvæðis. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð og skal öllum afla veiðiskips landað innan þess landsvæðis. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á veiðitímabilinu.
    Leyfi til handfæraveiða samkvæmt þessu ákvæði eru bundin eftirfarandi skilyrðum:
     1.      Óheimilt er að stunda veiðar laugardaga og sunnudaga.
     2.      Hver veiðiferð skal eigi standa lengur en 12 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er fiskiskip lætur úr höfn til veiða til þess er það kemur til hafnar aftur til löndunar. Aðeins er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi.
     3.      Tilkynna skal Fiskistofu um sjósókn fiskiskipsins í samræmi við reglur sem ráðherra setur þar um.
     4.      Sé einn maður í áhöfn er óheimilt að hafa um borð í veiðiskipi fleiri en tvær handfærarúllur. Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð. Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.
     5.      Á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 800 kg af þorski í hverri veiðiferð, miðað við óslægðan fisk. Ufsaafli skal aldrei vera meiri en 15% af þorskafla hverrar veiðiferðar og ýsuafli ekki meiri en 3%.
     6.      Skylt er að landa öllum afla í lok hverrar veiðiferðar og skal hann veginn og skráður endanlega hér á landi. Um vigtun, skráningu og meðferð afla fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og ákvæðum gildandi reglugerðar þar um.
    Fyrir veitingu leyfis samkvæmt ákvæði þessu skal umsækjandi greiða gjald samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald. Fiskistofa skal innheimta veiðigjald samkvæmt þessu ákvæði vegna landaðs afla, annars en þorsks, og skal gjalddagi vera 1. október 2009 en eindagi 15 dögum síðar. Um innheimtu þessa gjalds gildir að öðru leyti 23. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, eftir því sem við getur átt.
    Um viðurlög vegna brota á lögum þessum, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa fer skv. VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
    Þá skal beita ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, fari afli fiskiskips umfram hámark sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

II.


    Frá og með fiskveiðiárinu 2009/2010 skal skipta leyfilegum heildarafla í karfa upp í gullkarfa og djúpkarfa. Skal aflahlutdeild hvers fiskiskips í hvorri tegund í upphafi fiskveiðiársins 2009/2010 vera hin sama og hún hefði að óbreyttum lögum orðið í karfa.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða:
     1.      Ráðherra fái heimild til að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni.
     2.      Settar verði ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fara fram á vegum ferðaþjónustuaðila.
     3.      Heimilaðar verði frjálsar handfæraveiðar, strandveiðar, á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009 sem takmarkast af þeim aflaheimildum sem sérstaklega er ráðstafað til veiðanna.
     4.      Leyfilegum heildarafla í karfa verði skipt upp í veiðar á gullkarfa og djúpkarfa.
    Viðamesta breytingin lýtur annars vegar að skipan frístundaveiða og hins vegar skipan frjálsra handfæraveiða á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009. Verður því gerð almenn grein fyrir þeim breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði annars vegar vegna frístundaveiða og hins vegar vegna handfæraveiða en um aðrar breytingartillögur vísast til athugasemda við einstakar greinar.
    Frístundaveiðar við Ísland er nýr vaxandi þáttur í ferðaþjónustu hér við land en veiðar á frístundafiskibátum eins og þekkjast í dag hófust að marki á Vestfjörðum árið 2006. Þessar veiðar hafa bæði verið stundaðar á venjulegum fiskibátum sem í annan tíma stunda veiðar í atvinnuskyni og sérstökum frístundabátum sem hafa verið smíðaðir sérstaklega í þessum tilgangi. Í samstarfi samgönguráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins og stofnana ráðuneytanna varð til skilgreining á fiskibátum til þessara nota og eru þeir skráðir sem slíkir.
    Fyrir liggja allnákvæmar upplýsingar um afla þessara frístundafiskveiðibáta enda hafa þeir bátar verið með leyfi til veiða í atvinnuskyni og þurfa að uppfylla þau skilyrði sem sett eru í lögum og reglum um stjórn fiskveiða, þar á meðal um vigtun og skráningu sjávarafla. Heildarveiði þessara báta var um 200 tonn á árinu 2007 og var þorskafli þar af um180 tonn. Á árinu 2008 var heildaraflinn um 250 tonn og var þorskafli þar af um 220 tonn. Er fjöldi skráðra frístundabáta nú 43. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um fjölda annarra báta sem selja ferðir í sjóstangaveiði. Nokkrir aðilar sem selja skoðunarferðir á sjó bjóða einnig upp á sjóstangaveiði samhliða skoðunarferðunum, annaðhvort sem hluta afþreyingar í skoðunarferðum eða sem sérstakar veiðiferðir á sjóstöng. En líkt og með frístundafiskveiðarnar þá hefur slík ferðaþjónusta verið vaxandi undanfarin ár.
    Þann 20. febrúar 2008 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem samkvæmt skipunarbréfi hafði það hlutverk að fara yfir starfsumhverfi frístundabáta og greina hvort og með hvaða hætti unnt væri að taka tillit til sérstöðu útgerðar frístundaveiðibáta með hliðsjón af gildandi ákvæðum fiskveiðistjórnarlaga um nýtingu og verndun nytjastofna sjávar. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni til ráðherra í janúar 2009. Við samningu þessa frumvarps var tekið mið af niðurstöðum og tillögum starfshópsins. Í frumvarpinu eru sett skilyrði fyrir starfseminni sem er ætlað að taka tillit til nokkurrar sérstöðu þessarar starfsemi og fella hana að því fiskveiðistjórnarkerfi sem hér er beitt.
    Á ríkisstjórnarfundi þann 14. apríl sl. kynnti þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, þau áform að fresta úthlutun byggðakvóta nú á þessu fiskveiðiári til að skapa svigrúm fyrir breytta stefnu til styrkingar og örvunar atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum. Markmiðið er nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum verði gert mögulegt að stunda frjálsar veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Jafnframt yrði komið á nýjum flokki veiða, „strandveiðar“, þar sem heimilaðar verða frjálsar handfæraveiðar við ströndina. Núverandi stjórn fiskveiða er gagnrýnd fyrir að erfitt sé fyrir nýja aðila að hefja veiðar í atvinnuskyni. Með strandveiðunum er opnað fyrir takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki þurfa að vera handhafar veiðiheimilda. Þannig er til að mynda ungu og áhugasömu fólki auðveldað að afla sér reynslu og þekkingar um leið og sveigjanleiki er aukinn. Ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við þau meginsjónarmið sem felast í áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur síðan unnið að nánari útfærslu þessara hugmynda og hefur í þeirri vinnu verið tekið tillit til ýmissa sjónarmiða sem fram hafa komið.
    Með frjálsum handfæraveiðum, eða strandveiðum, yfir sumarmánuðina er opnað fyrir handfæraveiðar allra þeirra báta sem uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til fiskiskipa sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni. Með veiðunum er þannig m.a. opnað fyrir takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki eru handhafar aflamarks eða krókaaflamarks. Núverandi handhöfum aflamarks eða krókaaflamarks stendur þó jafnframt til boða að stunda frjálsar handfæraveiðar að sömu skilyrðum uppfylltum. Þannig er sveigjanleikinn aukinn og möguleikar nýrra aðila til að stunda veiðar í atvinnuskyni auknir. Strandveiðarnar takmarkast einkum af þeim aflaheimildum sem sérstaklega er ráðstafað til veiðanna eða alls 3.955 lestum af óslægðum þorski auk meðafla í ýsu (3%) og ufsa (15%). Er landinu skipt í fjögur landsvæði og er aflaheimildum ráðstafað til landsvæðanna. Er 55% þess magns, af óslægðum þorski, sem ráðstafað hafði verið til byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári ráðstafað til strandveiðanna. Auk þess er ráðstafað til strandveiða 2.500 tonnum af þorski umfram þær aflaheimildir sem úthlutað hefur verið á fiskveiðiárinu 2008/2009 á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
    Þar sem um nýjan flokk veiða er að ræða eru reglur og skilyrði veiðanna sett til eins árs. Á grunni þeirrar reynslu og lærdóms sem draga má af fyrirhuguðum strandveiðum á yfirstandandi fiskveiðiári verður reynslan af þeim metin. Verður í þessu sambandi leitast við að nýta þá þekkingu og reynslu sem til staðar er í hinum dreifðu sjávarbyggðum landsins. Þá verður tekið til sérstakrar athugunar með hvaða hætti leyfin hafa dreifst en vilji stendur til þess að dreifingin sé sem jöfnust, þ.e. að leyfin safnist ekki á hendur fárra aðila. Á þessum grunni verður fyrirkomulag veiðanna endurskoðað fyrir næsta fiskveiðiár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 3. og 4. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar eða við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki reiknist til heildarafla. Ekki er til staðar sérstök heimild til handa ráðherra að leyfa sérstaklega á sama hátt veiðar sem fara fram í fræðsluskyni, t.d. á skólabátum, en umsóknir um slíkt berast ráðuneytinu stundum og koma þær einkum frá fræðsluyfirvöldum. Hér yrði um mjög óverulegar veiðar að ræða fyrst og fremst í því skyni að kynni fyrir t.a.m. nemendum í skólum veiðar, notkun veiðarfæra og lífríki hafsins við Ísland. Er því lagt til að ráðherra fái heimild til þess að veita þessa undanþágu í takmörkuðum mæli, enda verði aflinn ekki fénýttur.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. 6. gr. laganna er ákvæði um veiðar í tómstundum til eigin neyslu. Þá er í 2. mgr. sömu greinar heimildarákvæði ráðherra til að ákveða tiltekinn fjölda opinberra sjóstangaveiðimóta þar sem afli telst ekki til aflamarks eða krókaaflamarks.
    Í 1. og 2. mgr. 2. gr. þessa frumvarps er gert ráð fyrir því að 1.–2. mgr. 6. gr. verði efnislega óbreyttar en þó er lagt til að gerðar verði þrjár minni háttar breytingar á þessum málsgreinum. Í fyrsta lagi er lagt til að í stað þess að segja að heimilt sé í „tómstundum“ að stunda veiðar til eigin neyslu eins og gert er í 1. mgr. 6. gr. þá verði notað orðalagið „í frístundum“ til samræmis við það orðalag sem almennt er notað í frumvarpinu. Í öðru lagi er lagt til að í sömu málsgrein verði sjóstöng tilgreind sem leyfilegt veiðarfæri en ekki handfæri eingöngu eins og nú er þar sem oftast munu sjóstangir vera notaðar við frístundaveiðar en ekki handfæri og þykir rétt að orðalag greinarinnar endurspegli það. Í þriðja lagi er lagt til að fellt verði niður í 2. mgr. 6. gr. ákvæði um að veiðidagar reiknist ekki til sóknardaga þar sem sóknardagakerfið hefur verið fellt niður.
    Þær málsgreinar sem á eftir koma, þ.e. 3.–8. mgr. 2. gr. frumvarpsins, eru hins vegar nýmæli sem lúta að frístundaveiðum þeirra aðila sem reka ferðaþjónustu. Í 3. mgr. er lagt til að ferðaþjónustuaðilar sem hyggjast bjóða viðskiptamönnum sínum upp á möguleika til þess að stunda veiðar í sjó hér við land þurfi að sækja um leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem þeir ætla að nota í því skyni. Gildir það hvort sem ferðaþjónustuaðilar stunda eingöngu sjóstangaveiðar eða veiðarnar eru einungis hluti þeirrar afþreyingar sem boðið er upp á. Skilyrði fyrir útgáfu þessa leyfis er að fyrir liggi leyfi Ferðamálastofu sem hún gefur út með stoð í 8. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Er útgáfa leyfis Fiskistofu háð framangreindu skilyrði til þess að ferðamálayfirvöld geti betur tryggt að öll umgjörð um þessa starfsemi sé með þeim hætti að fylgt sé fullnægjandi gæða- og öryggiskröfum auk þess að eftirlit verði með þeim þáttum sem Ferðamálastofa telur ástæðu til.
    Í 4. mgr. er gerður greinarmunur á tvenns konar leyfum sem Fiskistofa gefur út til frístundaveiða. Annars vegar er um að ræða leyfi til handa þeim hópi sem stundar blandaða starfsemi þar sem sjóstangaveiði er ekki meginþátturinn í þeirri þjónustu sem boðið er upp á. Eru aðilum í þessum hópi heimilaðar mjög takmarkaðar veiðar með takmarkaðan fjölda sjóstanga án þess að leggja þurfi til aflaheimildir. Hins vegar er um að ræða leyfi til handa þeim aðilum sem markvisst gera út á sjóstangaveiðar í þeirri þjónustu sem boðið er upp á.
    Þannig er gerður greinarmunur á aðilum í ferðaþjónustu sem annars vegar markvisst stunda fiskveiðar og hins vegar þeim aðilum sem bjóða upp á blandaða starfsemi þar sem sjóstangaveiðar eru óverulegar þáttur í þeirri afþreyingu sem í boði er. Mikilvægt er að mörkin milli þessara tveggja hópa séu skýr þannig að ljóst sé í hvorn flokkinn tiltekin starfsemi fellur og val aðila sé gert skýrt háð umfangi og eðli starfsemi þeirra. Þess vegna er kveðið á um það í 1. málsl. 5. mgr. að hver bátur á aðeins kost á leyfi til frístundaveiða annaðhvort skv. 1. tölul. eða 2. tölul. 4. mgr.
    Í 5. mgr. er áréttað að aðeins komi til greina við veitingu frístundaleyfa þau skip sem hafa haffærisskírteini og skrásett eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands eða á sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Eigendur þeirra og útgerðir verða að fullnægja skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Eru þetta sömu skilyrði og eru fyrir veitingu leyfa til veiða í atvinnuskyni skv. 5. gr. laganna.
    Í 6. mgr. er kveðið á um að leyfi til frístundaveiða skuli veitt til eins fiskveiðiárs í senn og ekki sé heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða. Þó er gerð sú undanþága að heimilt er að veita bátum tímabundin leyfi til frístundaveiða, enda stundi þeir ekki veiðar í atvinnuskyni innan þess tímabils.
    Í 7. mgr. er sett fram sú skylda að rekstraraðili skuli með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um sérhverjar takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar. Þar að auki reglur um bann við brottkasti afla og meðferð hans. Ábyrgð rekstraraðila felst því einkum í að sinna þeim skyldum sem á hann eru lagðar í þessu ákvæði ásamt því að skila skýrslum um veiðarnar.
    Í 8. mgr. er kveðið á um heimild ráðherra til þess að setja reglugerð um frekari skilyrði og reglur um frístundaveiðar, svo sem um skil á skýrslum um veiðar og önnur þau skilyrði vegna veiða frístundaveiðibáta og sjóstangaveiðimótum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að heimilt verði í mánuðunum júní, júlí og ágúst 2009 að veiða upp úr sjó 3.955 lestir af þorski sem ekki falli undir aflamarkskerfið. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra skipti þessum aflaheimildum á einstaka mánuði og að veiðar verði síðan stöðvaðar með reglugerð þegar tilgreindu magni er náð.
    Í 2. mgr. er landinu skipt í fjögur landsvæði (A, B, C, D). Þá er kveðið á um hvernig þeim 3.955 lestum af óslægðum þorski sem ráðstafað er til færaveiðanna skuli skipt á landsvæðin fjögur. Við skiptingu aflaheimildanna er byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta til landsvæðanna. Þá er 2.500 lestum skipt jafnt (625 lestir) á öll landsvæðin.
    Samkvæmt 3. mgr. er lagt til að veiðarnar verði háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Hér eftir eru þær nefndar færaveiðar og leyfin færaleyfi. Færaleyfi eru háð sömu skilyrðum og hin almennu leyfi til veiða í atvinnuskyni sem tilgreind eru í 5. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Lúta þau skilyrði að því að fiskiskip hafi haffærisskírteini, sé skráð hjá Siglingastofnun ríkisins og að eigendur þess og útgerð fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Þá segir í þessari grein að þegar leyfi sé veitt til færaveiða þá falli niður út fiskveiðiárið önnur leyfi sem viðkomandi fiskiskip kann að hafa og útgefið er með stoð í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lögum nr. 79/ 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Getur það ekki farið saman að sama fiskiskip stundi frjálsar handfæraveiðar á sama tíma og það nýtir aflamarks- eða krókaaflamarksleyfi sitt. Loks segir í þessari málsgrein að útgefið færaleyfi miðist við það landsvæði þar sem heimilisfesti útgerðar er, að landa skuli öllum afla veiðiskips innan þess sama landsvæðis og að hverju skipi verði aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á veiðitímabilinu.
         Í 4. mgr. eru tilgreind þau skilyrði sem færaleyfin eru háð. Veiðar eru bannaðar á laugardögum og sunnudögum og hver veiðiferð má aðeins vara í 12 klukkustundir. Eigi er heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi. Takmörkun er á fjölda handfærarúlla og afli hvers dags er takmarkaður við 800 kg af þorski upp úr sjó. Þessar takmarkanir miða allar að því að hið leyfilega veiðimagn dreifist sem mest bæði í tíma og með tilliti til landsvæða og að dregið verði úr því að of mikið kapp verði í veiðunum. Önnur ákvæði þessarar málsgreinar lúta að eftirliti Fiskistofu með sjósókn og leyfilegum meðafla en skv. 5. tölul. má ufsi ekki fara yfir 15% af þorskafla hverrar veiðiferðar og ýsuafli ekki yfir 3%. Í lokamálslið er ákvæði þess efnis að allur afli sem landað er við færaveiðar skuli vigtaður og skráður hér á landi. Þá er áréttað að um færaveiðar gildi einnig ákvæði laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, að svo miklu leyti sem við getur átt. Tekur það m.a. til reglna um vigtun afla og umgengni alla á miðunum, þar á meðal banns við brottkasti afla.
    Í 5. mgr. segir að greiða skuli sama gjald fyrir færaleyfi og greitt er fyrir almenn veiðileyfi samkvæmt lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald. Þá verði veiðigjald innheimt eftir á eins og tíðkast þegar um er að ræða veiðar sem ekki falla undir aflamarkskerfið.
    Í 6. mgr. segir að vegna brota á lögum og reglum um færakerfið skuli beitt sömu viðurlögum og almennt tíðkast vegna brota á ákvæðum laga og reglugerð um fiskveiðistjórn. Þá verði afli gerður upptækur séu ekki virt ákvæði um hámarksafla og er nauðsynlegt að taka það fram þar sem lög nr. 37/1992 skilgreina ólögmætan sjávarafla þannig að það sé afli sem er umfram aflamark fiskiskipa.
    Loks er ákvæði sem heimilar ráðherra að setja nánari reglur um framkvæmd þessara laga og eru hér hafðar í huga reglur um nánari skiptingu veiðiheimilda, eftirlit með veiðunum og fleiri atriði.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Allt frá upphafi kvótakerfisins 1984 hefur úthlutun aflaheimilda í karfa tekið til tveggja tegunda karfa, þ.e. djúpkarfa og gullkarfa. Hafrannsóknastofnunin hefur í nokkur ár lagt til í ráðgjöf sinni að aflamarki í gullkarfa og djúpkarfa verði úthlutað aðskildu. Þann 14. nóvember 2008 skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra starfshóp sem ætlað var að gera tillögur um reglur við framkvæmd skiptingar á heildaraflamarki fyrir gull- og djúpkarfa. Var hópurinn skipaður fulltrúum Landssambands íslenskra útvegsmanna, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Lagt er til að hvert skip fái sömu aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa og það hefði í karfa. Yrði þannig aflahlutdeild í gullkarfa og djúpkarfa hin sama. Er hér lagt til að tillögu nefndarinnar verði fylgt. Hópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra með bréfi, dags. 12. desember 2008.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fái heimild til að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni, í öðru lagi eru lagðar til ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fara fram á vegum ferðaþjónustuaðila, í þriðja lagi er gert ráð fyrir að heimilaðar verði frjálsar handfæraveiðar, strandveiðar, á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009 sem takmarkist af þeim veiðiheimildum sem sérstaklega verður ráðstafað til veiðanna og í fjórða lagi er lagt til að leyfilegum heildarafla í karfa verði skipt upp í veiðar úr gullkarfa og djúpkarfa.
    Með frjálsum handfæraveiðum, eða strandveiðum, yfir sumarmánuðina er opnað fyrir handfæraveiðar allra þeirra báta sem uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til fiskiskipa sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni. Með veiðunum er þannig opnað á takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki eru handhafar aflamarks eða krókaaflamarks eða þeirra sem uppfylla sett skilyrði. Gert er ráð fyrir að til strandveiðanna verði m.a. 2.500 tonnum úthlutað af þorski umfram þær aflaheimildir sem úthlutað hefur verið á fiskveiðiárinu 2008/2009 á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Útflutningsverðmæti þess má áætla um 1.000–1.200 m.kr. Fyrir veitingu leyfis samkvæmt ákvæði þessu um strandveiðar skal umsækjandi greiða gjald samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, en þar er gert ráð fyrir að gjaldið nemi 17.500 kr. á skip. Gert er ráð fyrir að kostnaður Fiskistofu vegna aukins eftirlits ráðist af fjölda þeirra fiskiskipa sem kunna að sækja um leyfi fyrir veiðunum. Þó er miðað við að gjaldið muni standa að fullu undir kostnaði Fiskistofu við eftirlitið sem stofnunin metur að verði á bilinu 4,5–6,5 m.kr. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að fjöldi þeirra umsækjenda sem sæki um leyfi til þessara veiða verði um 300.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem gert er ráð fyrir að tekjur af veiðieftirlitsgjaldinu standi undir kostnaði Fiskistofu sem kann að hljótast af auknu eftirliti stofnunarinnar.