Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 37. máls.

Þskj. 37  —  37. mál.



Frumvarp til laga

um aðild starfsmanna við samruna félaga
með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




I. KAFLI
Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um millilandasamruna félaga með takmarkaðri ábyrgð og félög sem hyggjast taka þátt í stofnun slíks samrunafélags og hafa staðfestu á Íslandi.

2. gr.
Markmið.

    Markmið þessara laga er að vernda áunninn rétt starfsmanna félaga sem verða til við samruna yfir landamæri (millilandasamruna) til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi slíkra félaga. Í því skyni að tryggja að svo verði skal koma á fastri tilhögun um aðild starfsmanna í samrunafélögum samkvæmt lögum þessum í samræmi við málsmeðferð við samningaviðræður, sbr. II. kafla laganna, eða við þær aðstæður sem tilgreindar eru í 13. gr., sbr. 14. gr., í samræmi við III. kafla.

3. gr.
Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Aðild starfsmanna: Hvert það fyrirkomulag, þ.m.t. upplýsingamiðlun, samráð og þátttaka, þar sem fulltrúar starfsmanna geta haft áhrif á ákvarðanatöku í félaginu.
     2.      Dótturfélag: Fyrirtæki sem félag hefur ráðandi aðstöðu gagnvart samkvæmt skilgreiningu laga um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.
     3.      Félag með takmarkaðri ábyrgð: Hlutafélag samkvæmt lögum um hlutafélög eða einkahlutafélag samkvæmt lögum um einkahlutafélög.
     4.      Fulltrúanefnd: Nefnd starfsmanna sem er sett á fót samkvæmt samkomulagi með það í huga að upplýsa og hafa samráð við starfsmenn samrunafélags, dótturfélaga og starfsstöðva þess og, þar sem við á, beita þátttökurétti starfsmanna hvað samrunafélagið varðar.
     5.      Fulltrúar starfsmanna: Trúnaðarmenn stéttarfélaga samkvæmt lögum og aðrir fulltrúar sem starfsmenn þátttökufélags tilnefna samkvæmt lögum þessum eða samkomulagi á vinnustað.
     6.      Hlutaðeigandi dótturfélag eða starfsstöð: Dótturfélag eða starfsstöð þátttökufélags sem fyrirhugað er að verði dótturfélag eða starfsstöð samrunafélagsins við myndun þess.
     7.      Millilandasamruni: Samruni þar sem samrunafélag lýtur löggjöf minnst tveggja ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja, svo og annarra landa samkvæmt heimild í reglugerð sem viðskiptaráðherra setur í samráði við fjármálaráðherra.
     8.      Samráð: Viðræður og skoðanaskipti fulltrúanefndar starfsmanna og/eða fulltrúa starfsmanna og þar til bærrar stjórnarstofnunar viðkomandi félags, á þeim tíma, á þann hátt og með því inntaki sem gerir fulltrúum starfsmanna kleift, á grundvelli fenginna upplýsinga, að láta í ljós álit sitt á ráðstöfunum sem þar til bæra stjórnarstofnunin hefur fyrirhugað og kann að verða tekið tillit til við ákvarðanatöku í félaginu.
     9.      Samrunafélag: Félag sem verður til við samruna tveggja eða fleiri félaga í skilningi laga þessara.
     10.      Samruni: Þegar félagi með takmarkaðri ábyrgð er slitið án skuldaskila með þeim hætti að félagið er alveg sameinað öðru félagi með takmarkaðri ábyrgð með yfirtöku eigna og skulda (samruni með yfirtöku) og þegar tvö eða fleiri félög með takmarkaðri ábyrgð renna saman í nýtt félag með takmarkaðri ábyrgð (samruni með stofnun nýs félags).
     11.      Sérstök samninganefnd: Nefnd sem sett er á fót til að semja við þar til bæra stjórnarstofnun þátttökufélaganna um fasta tilhögun á aðild starfsmanna í samrunafélaginu.
     12.      Upplýsingar: Upplýsingar sem þar til bær stjórnarstofnun samrunafélags miðlar til fulltrúanefndar starfsmanna og/eða fulltrúa starfsmanna um málefni er varða félagið sjálft og dótturfélög eða starfsstöðvar þess sem eru í öðru aðildarríki eða eru utan valdsviðs þeirra stjórnarstofnana sem taka ákvarðanir í hverju aðildarríki. Upplýsingar skal veita á þeim tíma, á þann hátt og með því inntaki sem gerir fulltrúum starfsmanna kleift að gera ítarlegt mat á hugsanlegum áhrifum og, þar sem við á, undirbúa samráð við þar til bæra stjórnarstofnun samrunafélagsins nema annað leiði af ákvæðum þessara laga.
     13.      Þátttaka: Áhrif fulltrúanefndar starfsmanna og/eða fulltrúa starfsmanna á málefni samrunafélagsins annaðhvort með:
              a.      rétti til að kjósa eða tilnefna fulltrúa í stjórn félagsins eða eftirlitsstjórn, eða
              b.      rétti til að mæla með og/eða gegn tilnefningu einhverra eða allra fulltrúa í eftirlitsstjórn eða stjórn félagsins.
     13.      Þátttökufélag: Félag með takmarkaðri ábyrgð sem á beinan þátt í að stofna samrunafélag.

II. KAFLI
Myndun sérstakrar samninganefndar og málsmeðferð
við viðræður um mótun reglna um þátttöku starfsmanna.

4. gr.

Upphaf samningaviðræðna og upplýsingagjöf.


    Þegar framkvæmdastjórnir eða stjórnir þátttökufélaga gera áætlun um stofnun samrunafélags skulu þær gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna þátttökufélaganna um tilhögun á aðild starfsmanna í samrunafélaginu eins fljótt og unnt er, eftir að samin hefur verið áætlun um samruna.
    Framkvæmdastjórnir eða stjórnir þátttökufélaga skulu láta fulltrúum starfsmanna þeirra fyrirtækja sem stofnun samrunafélags snertir í té upplýsingar um heiti þátttökufélaganna, viðkomandi dótturfélaga eða starfsstöðva og fjölda starfsmanna þeirra svo fljótt sem unnt er eftir að áætlun um stofnun samrunafélagsins liggur fyrir og hafa frumkvæði að skipun sérstakrar samninganefndar, sbr. 5. gr.

5. gr.
Myndun sérstakrar samninganefndar.

    Áður en viðræður geta hafist samkvæmt þessum kafla skal stofnuð sérstök samninganefnd sem er í forsvari fyrir starfsmenn þátttökufélaga og hlutaðeigandi dótturfélaga eða starfsstöðva, í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
    Þegar fulltrúar í þessa sérstöku samninganefnd eru kosnir eða tilnefndir skal tryggja að:
     a.      fulltrúarnir séu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna hjá þátttökufélögum og hlutaðeigandi dótturfélögum og starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig með því að úthluta hverju aðildarríki einu sæti fyrir hvern hluta starfsmanna í því ríki sem jafngildir hverjum byrjuðum tug af hundraði starfsmanna sem ráðnir eru af þátttökufélögunum og hlutaðeigandi dótturfélögum eða starfsstöðvum í öllum aðildarríkjunum samanlagt,
     b.      bætt sé við aðilum frá hverju aðildarríki fyrir sig, eftir þörfum, til að tryggt sé að í sérstöku samninganefndinni sé að minnsta kosti einn fulltrúi fyrir hvert þátttökufélag sem er skráð og hefur starfsmenn í því aðildarríki og sem fyrirhugað er að verði ekki lengur sérstakur lögaðili eftir skráningu samrunafélagsins, að svo miklu leyti sem:
              1.      þessir viðbótarfulltrúar verði ekki fleiri en nemur tuttugu af hundraði þeirra fulltrúa sem eru kjörnir skv. a-lið; og
              2.      skipan sérstöku samninganefndarinnar hafi ekki í för með sér að starfsmenn viðkomandi þátttökufélags eigi tvo fulltrúa.
    Ef þátttökufélögin sem b-liður 2. mgr. á við um eru fleiri en tiltæk viðbótarsæti skal viðbótarsætum úthlutað á þátttökufélög í mismunandi aðildarríkjum í fallandi röð eftir fjölda starfsmanna í þeim.
    Ef svo umfangsmiklar breytingar verða á hinu fyrirhugaða samrunafélagi að þær hafi áhrif á landfræðilega skiptingu fulltrúa í sérstöku samninganefndinni skal nefndin meta hvort nauðsynlegt sé að endurúthluta sætum samkvæmt þessari grein. Ef þörf er á endurúthlutun skal hún fara fram svo skjótt sem unnt er og á þann hátt að sem minnstar tafir verði á framhaldi viðræðna.

6. gr.
Fulltrúar í sérstöku samninganefndinni.

    Fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í sérstöku samninganefndinni skulu kosnir af trúnaðarmönnum stéttarfélaga. Starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann skulu velja sér sameiginlegan fulltrúa sem tekur þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.
    Þeir sem rétt eiga á að taka þátt í kjöri fulltrúa skv. 1. mgr. skulu kjósa úr sínum hópi fulltrúa til setu í sérstöku samninganefndinni. Vægi atkvæða hvers trúnaðarmanns eða fulltrúa ræðst af fjölda starfsmannanna að baki honum.
    Hafi engir trúnaðarmenn verið skipaðir eiga allir starfsmenn þátttökufélags rétt á að taka þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.
    Ef kjósa á fleiri en einn fulltrúa frá Íslandi í samninganefndina skal tryggja eins og unnt er að starfsmenn sem flestra þátttökufélaga eigi þar fulltrúa.
    Í þeim tilvikum sem úthlutað er aukasæti í samninganefndinni, sbr. b-lið 2. mgr. 5. gr., fer um val þeirra fulltrúa samkvæmt þessari grein, eftir því sem við á.
    Ef starfsmenn þátttökufélags á Íslandi missa rétt til fulltrúa, svo sem vegna þess að félagið tekur ekki lengur þátt í myndun samrunafélags, skal því sæti úthlutað að nýju samkvæmt þessari grein.

7. gr.
Hlutverk sérstöku samninganefndarinnar.

    Sérstaka samninganefndin og þar til bærar stjórnarstofnanir þátttökufélaganna skulu ákveða, með skriflegu samkomulagi, tilhögun á aðild starfsmanna í samrunafélagi samkvæmt lögum þessum.
    Í þessu skyni skulu þar til bærar stjórnarstofnanir þátttökufélaganna greina sérstöku samninganefndinni frá áætluninni um stofnun samrunafélagsins og sjálfu stofnunarferlinu fram að skráningu. Nefndinni er heimilt að ákveða að greina fulltrúum utanaðkomandi samtaka sem hagsmuna eiga að gæta, þ.m.t. stéttarfélaga, frá byrjun samningaviðræðna.
    Sérstaka samninganefndin getur valið sérfræðinga sér til aðstoðar, t.d. fulltrúa frá viðkomandi samtökum stéttarfélaga á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessir sérfræðingar geta verið viðstaddir samningafundi til að veita ráðgjöf að beiðni nefndarinnar.
    Þátttökufélög skulu bera þann kostnað sem hlýst af samningaviðræðum og rekstri sérstöku samninganefndarinnar, þ.m.t. kostnað vegna a.m.k. eins sérfræðings, þannig að nefndinni sé gert kleift að sinna verkefnum sínum með eðlilegum hætti.

8. gr.
Ákvarðanataka innan sérstöku samninganefndarinnar.

    Sérstaka samninganefndin tekur ákvarðanir með hreinum meiri hluta fulltrúa, að því tilskildu að sá meiri hluti sé einnig fulltrúi hreins meiri hluta starfsmanna. Hver fulltrúi greiðir eitt atkvæði.
    Ef niðurstaða samningaviðræðna er sú að þátttökuréttur starfsmanna minnkar þarf samkomulagið að hljóta atkvæði frá 2/ 3hlutum fulltrúanna sem jafnframt eru fulltrúar að minnsta kosti 2/ 3hluta starfsmanna, þ.m.t. atkvæði fulltrúa starfsmanna sem starfa í að minnsta kosti tveimur aðildarríkjum þegar a.m.k. fjórðungur starfsmanna þátttökufélaganna í samrunafélaginu á þátttökurétt.
    Það að þátttökuréttur starfsmanna minnkar merkir að áhrif fulltrúa starfsmanna á skipan stjórnarstofnana samrunafélagsins verða minni en hæsta hlutfallið sem var í gildi í þátttökufélögunum.

9. gr.
Lengd samningaviðræðna.

    Samningaviðræður skulu hefjast um leið og sérstaka samninganefndin er stofnuð og þeim má halda áfram í sex mánuði eftir það. Miða skal upphaf frests til að ljúka samningaviðræðum samkvæmt þessari grein við tvo mánuði frá því að fullnægjandi upplýsingar skv. 2. mgr. 4. gr. bárust fulltrúum starfsmanna hafi fyrsti fundur ekki verið haldinn fyrir þann tíma.
    Aðilar geta komið sér saman um að framlengja samningaviðræðurnar fram yfir þann tíma sem um getur í 1. mgr. í allt að eitt ár samanlagt.

10. gr.
Slit samningaviðræðna.

    Sérstöku samninganefndinni er heimilt að ákveða að hefja ekki samningaviðræður eða binda enda á samningaviðræður sem þegar eru hafnar og bera fyrir sig þær reglur um aðild/ þátttöku sem eru í gildi í aðildarríkinu þar sem skráð skrifstofa samrunafélagsins verður staðsett. Til slíkra ákvarðana þarf atkvæði 2/ 3hluta starfsmanna og skulu a.m.k. 2/ 3af fulltrúum starfsmanna greiða atkvæði, þ.m.t. atkvæði þeirra sem eru fulltrúar starfsmanna í a.m.k. tveimur aðildarríkjum.

11. gr.
Efni samkomulags.

    Samningaviðræður þar til bærra stjórnarstofnana þátttökufélaganna og sérstöku samninganefndarinnar skulu fara fram í anda samvinnu með það í huga að ná skriflegu samkomulagi um tilhögun á aðild starfsmanna innan félagsins. Í samkomulaginu skal að lágmarki tilgreina eftirfarandi atriði:
     a.      gildissvið samkomulagsins,
     b.      ef aðilarnir verða ásáttir í samningaviðræðum um að koma á tilhögun á þátttöku, inntak þeirrar tilhögunar, þ.m.t. fjölda fulltrúa í stjórn eða, ef við á, eftirlitsstjórn félagsins, sem starfsmennirnir eiga rétt á að kjósa, tilnefna og mæla með eða á móti, reglur um hvernig starfsmennirnir kjósa, tilnefna og mæla með eða á móti þessum fulltrúum og réttindi þeirra,
     c.      dagsetninguna þegar samkomulagið öðlast gildi og gildistíma þess, í hvaða tilvikum það skal endurskoðað og málsmeðferð við endurskoðun þess.
    Ákvæði III. kafla gilda ekki ef aðilar ná samkomulagi samkvæmt þessari grein nema þess sé sérstaklega getið í samkomulaginu.

12. gr.
Löggjöf sem gildir um málsmeðferð við samningaviðræður.

    Löggjöf þess aðildarríkis þar sem skráð skrifstofa samrunafélagsins verður staðsett gildir um málsmeðferð við samningaviðræður nema annað leiði af ákvæðum þessara laga eða eðli máls.

13. gr.
Val um að hlíta almennum reglum.

    Viðkomandi stjórnarstofnunum þátttökufélaganna er heimilt að taka ákvörðun, án þess að samningaviðræður hafi áður farið fram samkvæmt kafla þessum, um að þær heyri beint undir almennar reglur um þátttöku skv. III. kafla og að hlíta þeim reglum frá dagsetningu skráningar.

III. KAFLI
Ákvæði til vara.
14. gr.
Gildissvið.

    Ákvæði þessa kafla gilda um samrunafélög sem skráð eru hér á landi frá skráningardegi ef:
     a.      aðilarnir koma sér saman um það, eða
     b.      ekkert samkomulag hefur náðst þegar fresturinn sem mælt er fyrir um í 9. gr. er runninn út og eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
              1.      þar til bær stjórnarstofnun hvers þátttökufélags hefur tekið ákvörðun um að samþykkja beitingu almennu reglnanna, sbr. 15. gr., í tengslum við samrunafélagið og halda þar með áfram skráningu þess, og
              2.      sérstaka samninganefndin hefur ekki tekið ákvörðun sem kveðið er á um í 10. gr.
    Enn fremur skulu ákvæði 15. gr. eingöngu gilda í eftirtöldum tilvikum og að uppfylltum eftirgreindum skilyrðum:
     a.      ef þátttaka var fyrir hendi með einum eða öðrum hætti í einu þátttökufélaganna eða fleiri og tók til a.m.k. þriðjungs af heildarfjölda starfsmanna allra þátttökufélaganna, eða
     b.      ef þátttaka í einni eða fleiri myndum var fyrir hendi í einu þátttökufélaganna eða fleiri og tók til minna en fjórðungs af heildarfjölda starfsmanna allra þátttökufélaganna og sérstaka samninganefndin ákveður það.
    Við beitingu heimilda skv. 2. mgr. skal sérstaka samninganefndin ákveða, með sama meiri hluta og kveðið er á um í 1. mgr. 8. gr., hvaða form á þátttöku starfsmanna skuli gilda í samrunafélagi. Nefndin skal greina þar til bærum stjórnarstofnunum þátttökufélaganna frá þeim ákvörðunum sem teknar eru samkvæmt þessari málsgrein.

15. gr.
Almennar reglur um þátttöku.

    Starfsmenn samrunafélags, dótturfélaga þess og starfsstöðva og/eða fulltrúanefnd starfsmanna eiga rétt á að kjósa, tilnefna og mæla með eða gegn tilnefningu tiltekins fjölda fulltrúa í stjórn eða eftirlitsstjórn samrunafélagsins til jafns við hæsta hlutfallið sem í gildi er í viðkomandi þátttökufélögum áður en samrunafélagið er skráð.
    Ef ekkert þátttökufélaganna starfar samkvæmt þátttökureglum fyrir skráningu samrunafélagsins er þess ekki krafist að það setji reglur um þátttöku starfsmanna.
    Fulltrúanefndin ákveður hvernig sætum í stjórn eða eftirlitsstjórn er úthlutað til fulltrúa starfsmanna í samræmi við hlutfall starfsmanna í hverju aðildarríki fyrir sig. Ef hlutfallsviðmiðun leiðir til þess að starfsmenn í einhverjum aðildarríkjum fá engan fulltrúa skal fulltrúanefndin leitast við að jafna skiptingu sæta og skulu starfsmenn í aðildarríki þar sem skrifstofa samrunafélagsins er skráð njóta forgangs við þá jöfnun hafi þeir ekki þegar fengið úthlutað sæti samkvæmt hlutfallsreglu.
    Fulltrúanefndin setur reglur um á hvern hátt fulltrúar starfsmanna geta mælt með eða gegn tilnefningu fulltrúa í stjórnarstofnanir samrunafélagsins, ef við á.
    Ef starfsmenn á Íslandi öðlast rétt til að tilnefna eða kjósa fulltrúa samkvæmt þessari grein skal ákvæði 6. gr. gilda um það val. Um kjör eða tilnefningu annarra fulltrúa gildir löggjöf viðkomandi aðildarríkis en ef þar er ekki mælt fyrir um hvernig tilnefning fer fram skal fulltrúanefndin tilnefna fulltrúa starfsmanna þess aðildarríkis.
    Hver fulltrúi í stjórn eða, þar sem það á við, eftirlitsstjórn samrunafélagsins sem fulltrúanefndin eða, eftir atvikum, starfsmenn, hefur kosið, tilnefnt eða mælt með samkvæmt þessari grein, skal vera fullgildur stjórnarmaður með sömu réttindi og skyldur og fulltrúar hluthafa, þ.m.t. rétt til að greiða atkvæði.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
16. gr.
Þagnarskylda.

    Fulltrúum í sérstöku samninganefndinni eða fulltrúanefndinni og sérfræðingum, sem eru þeim til aðstoðar, er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem þeim hafa verið veittar í trúnaði.
    Hið sama gildir um fulltrúa starfsmanna í tengslum við upplýsingamiðlun og samráð.
    Þessi kvöð fylgir fulltrúunum og sérfræðingunum, sem eru þeim til aðstoðar, hvar sem þeir kunna að vera og einnig eftir að umboð þeirra skv. 1. og 2. mgr. er á enda.

17. gr.
Upplýsingar sem ekki er skylt að veita.

    Eftirlitsstjórn eða stjórn samrunafélags eða þátttökufélags sem stofnað er á Íslandi er ekki skuldbundin til að veita upplýsingar samkvæmt ákvæðum þessara laga ef upplýsingarnar eru samkvæmt hlutlægu mati þess eðlis að þær geti haft mjög skaðleg áhrif á starfsemi félagsins eða dótturfélaga þess og starfsstöðva eða valdið þeim tjóni.

18. gr.
Vernd fulltrúa starfsmanna.

    Fulltrúar í sérstöku samninganefndinni, fulltrúar í fulltrúanefndinni og fulltrúar starfsmanna í stjórn stjórnarstofnana samrunafélagsins skulu hvorki sæta uppsögn né skerðingu á kjörum sínum vegna starfa sinna. Þeim skal einnig tryggður réttur með samningi við vinnuveitanda til að taka sér frí frá störfum svo að þeir geti á eðlilegan hátt sinnt skyldum sínum við gerð og framkvæmd samninga samkvæmt lögum þessum. Þetta á einkum við um fundasetu í sérstöku samninganefndinni eða fulltrúanefndinni og fundi stjórnarstofnana samrunafélagsins, m.a. varðandi greiðslu launa til fulltrúa sem starfa hjá þátttökufélagi, samrunafélaginu eða dótturfélögum þess eða starfsstöðvum fyrir þann tíma sem þeir þurfa að vera fjarverandi.
    Fulltrúar starfsmanna sem starfa samkvæmt málsmeðferð um upplýsingamiðlun og samráð skulu njóta sams konar réttarverndar og trúnaðarmenn samkvæmt lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, með síðari breytingum, eftir því sem við á.

19. gr.
Viðurlög.

    Þeir sem þrátt fyrir þagnarskylduákvæði 16. gr. láta af hendi trúnaðarupplýsingar sem þeim hafa verið veittar skulu dæmdir til fésekta nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Brot sem framin eru í starfsemi lögaðila gegn 4. og 18. gr. laga þessara varða lögaðila sektum, sbr. II. kafla A almennra hegningarlaga, ef brotið er framið af ásetningi og er til þess fallið að svipta starfsmenn félags rétti sem varinn er samkvæmt þessum lögum.
    Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

20. gr.
Ágreiningur.

    Unnt er að skjóta til dómstóla ágreiningi sem varðar framkvæmd þessara laga, þ.m.t. ágreiningi um rétt fulltrúa starfsmanna til að fá í hendur upplýsingar og rétt þátttökufélaga eða samrunafélaga samkvæmt lögum þessum til að binda upplýsingar trúnaði. Rétt til málshöfðunar hafa allir sem taldir eru upp í 18. gr., hlutaðeigandi stéttarfélög og aðrir sem hagsmuna eiga að gæta.

21. gr.
Vernd þátttökuréttar.

    Ef reglur þessara laga gilda um samrunafélag er því félagi skylt að gera ráðstafanir til að tryggja að þátttökuréttur starfsmanna sé varinn í samræmi við ákvæði laga þessara komi til innlends samruna á næstu þremur árum eftir að samruninn yfir landamæri tók gildi.

22. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

23. gr.
Innleiðing tilskipunar.

    Með lögum þessum er innleidd 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005, um samruna hlutafélaga yfir landamæri.

24. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

25. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

     1.      Við 2. mgr. 133. gr. f í lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftir því sem við á skal þó við skráningu félagsins gætt 12. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE), sem hefur lagagildi hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 26/2004, um Evrópufélög.
     2.      Við 2. mgr. 107. gr. g í lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftir því sem við á skal þó við skráningu félagsins gætt 12. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE), sem hefur lagagildi hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 26/2004, um Evrópufélög.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög til innleiðingar á efni 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005, um samruna hlutafélaga yfir landamæri (e. on cross-border mergers of limited liability companies).
    Tilskipunin var að stórum hluta innleidd hér á landi með lögum nr. 54/2007, um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (millilandasamruni og millilandaskipting). Ekki eru fyrir hendi ákvæði um þátttökurétt starfsmanna í þeirri löggjöf líkt og í dönskum rétti. Var því ákveðið að setja sérstakar reglur hér á landi um þátttökurétt starfsmanna á grundvelli 16. gr. tilskipunarinnar, sem geymir slík ákvæði. Þessi skipting reglna á milli viðskiptaráðuneytisins annars vegar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins hins vegar er í samræmi við þann hátt sem hafður var á í tengslum við setningu laga nr. 26/2004, um Evrópufélög, sbr. hins vegar lög nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, og lög nr. 92/2006, um evrópsk samvinnufélög, sbr. hins vegar lög nr. 44/2007, um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum.
    Við gerð frumvarpsins kom í ljós að efni 3. og 6. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, fellur annars vegar undir lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og hins vegar undir lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, en bæði hlutafélagalög og einkahlutafélagalög falla undir málefnasvið viðskiptaráðuneytisins. Í því skyni að innleiða efni 16. gr. tilskipunarinnar að fullu eru því í frumvarpinu lagðar til breytingar í samráði við viðskiptaráðuneytið á fyrrnefndum lögum.

II. Tilskipun 2005/56/EB.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB, frá 26. október 2005, um samruna hlutafélaga yfir landamæri er m.a. sett með hliðsjón af þörf á samvinnu og sameiningu félaga með takmarkaðri ábyrgð frá mismunandi aðildarríkjum. Með tilskipuninni er greitt fyrir samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri og er þar mælt fyrir um að lög aðildarríkjanna skuli heimila samruna innlends félags með takmarkaðri ábyrgð og félags með takmarkaðri ábyrgð frá öðru aðildarríki yfir landamæri, að því tilskildu að lög hlutaðeigandi aðildarríkja heimili samruna þess háttar félaga.
    Í 13. tölul. formálsorða tilskipunarinnar er tekið fram að hafi starfsmenn þátttökurétt í einu af þátttökufélögunum í samræmi við skilyrði tilskipunarinnar og ef landslög aðildarríkisins þar sem félagið sem verður til við samruna yfir landamæri hefur skráða skrifstofu kveða ekki á um sömu þátttöku og í hlutaðeigandi þátttökufélögum, þ.m.t. í nefndum eftirlitsstjórnar sem hafa ákvörðunarvald, eða þau veita starfsmönnum ekki sama rétt í þeim fyrirtækjum sem verða til við samruna yfir landamæri, skuli setja reglur um þátttöku starfsmanna í félaginu sem verður til við samrunann og aðild þeirra að skilgreiningu slíks réttar. Í því skyni skulu meginreglur og málsmeðferð sem kveðið er á um í reglugerð ráðsins (EB) nr. 2157/2001/EB frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE), og í tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001, um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, liggja til grundvallar, þó með fyrirvara um breytingar sem taldar eru nauðsynlegar vegna þess að félagið sem verður til við samrunann heyrir undir landslög aðildarríkisins þar sem það hefur skráða skrifstofu. Í samræmi við b-lið 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2001/86/EB geta aðildarríkin séð til þess að samningaviðræður hefjist skjótt, sbr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, í því skyni að koma í veg fyrir óþarfa tafir á samruna.

III. Efni frumvarpsins.
    Drög að frumvarpinu eru samin hjá Rannsóknasetri vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst. Var haft til hliðsjónar að reglur frumvarpsins innleiði með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt ákvæði 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Frumvarpinu er ætlað að innleiða lágmarksreglur skv. 16. gr. en þar er vísað sérstaklega til tiltekinna reglna tilskipunar 2001/86/EB frá 8. október 2001, um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna. Er reglum þeirrar tilskipunar því fylgt þar sem við á sem og lögum nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, er innleiddu þá tilskipun. Því til viðbótar koma nokkrar sérreglur samkvæmt tilskipun 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, sem sérstaklega er ætlað að taka til félaga sem verða til við samruna yfir landamæri og falla undir gildissvið frumvarpsins.
    Frumvarpið hefur það markmið að innleiða reglur til að vernda rétt starfsmanna þátttökufélaga, sem falla undir gildissvið þess, til aðildar að ákvörðunum sem varða starfsemi félagsins sem þeir vinna hjá og að viðhalda reglum um aðild starfsmanna sem í gildi eru í þeim félögum sem taka þátt í stofnun samrunafélags. Ef ekkert þátttökufélaganna starfar samkvæmt þátttökureglum fyrir skráningu samrunafélagsins er þess ekki krafist að það setji reglur um þátttöku starfsmanna.
    Í frumvarpinu er kveðið á um að þegar ákveðið hefur verið að stofna samrunafélag skuli framkvæmdastjórnir eða stjórnir þeirra félaga sem þátt taka í stofnun þess gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna þátttökufélaganna um tilhögun á aðild starfsmanna í samrunafélaginu.
    Sérstök samninganefnd er í forsvari fyrir starfsmenn þátttökufélaga við þær viðræður. Við myndun nefndarinnar skal m.a. tryggja að nefndarmenn séu kosnir eða tilnefndir í hlutfalli við fjölda starfsmanna hjá þátttökufélögum, hlutaðeigandi dótturfélögum og starfsstöðvum í hverju aðildarríki fyrir sig. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fulltrúar sem kjörnir eru á Íslandi til setu í slíkri samninganefnd séu kosnir af trúnaðarmönnum innan þátttökufélags, en að starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann velji sér sameiginlegan fulltrúa sem taki þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina. Séu engir trúnaðarmenn innan þátttökufélags eiga allir starfsmenn félagsins rétt á að taka þátt í kjöri fulltrúa í samninganefndina.
    Frumvarpið hefur að geyma ákvæði sem ætlað er að tryggja rétt fulltrúa starfsmanna í samninganefndinni til að fá upplýsingar um þau þátttökufélög sem standa að stofnun samrunafélags og áform þeirra er varða starfsemi félagsins. Einnig er kveðið á um rétt sérstöku samninganefndarinnar til að kalla eftir sérfræðiaðstoð og bera þau félög sem taka þátt í stofnun samrunafélags allan kostnað af starfi nefndarinnar.
    Markmið samningaviðræðna er að ná samkomulagi um aðild starfsmanna að samrunafélagi, þ.e. varðandi rétt fulltrúa starfsmanna til upplýsinga, samráðs og þátttöku.
    Ef aðilarnir verða ásáttir í samningaviðræðum um að koma á tilhögun á þátttöku skal í samkomulagi þeirra einnig kveðið á um inntak þeirrar tilhögunar, þ.m.t. (ef við á) fjölda fulltrúa í eftirlitsstjórn eða stjórn samrunafélagsins, sem starfsmennirnir eiga rétt á að kjósa, tilnefna, mæla með eða á móti, reglur um hvernig starfsmennirnir kjósa, tilnefna, mæla með eða á móti þessum fulltrúum, réttindi þeirra, o.s.frv.
    Samningaviðræður geta að hámarki staðið yfir í eitt ár. Aðilar geta ákveðið að slíta viðræðum og gilda þá ákvæði III. kafla um aðild starfsmanna, eftir því sem við á. Sama máli gegnir ef ekki næst samkomulag innan þess frests sem veittur er til viðræðna.
    Meginreglan er sú að einfaldur meiri hluti atkvæða ræður afstöðu sérstöku samninganefndarinnar, að því tilskildu að sá meiri hluti sé einnig fulltrúi hreins meiri hluta starfsmanna. Ef niðurstaða samningaviðræðna er sú að þátttökuréttur skuli minnka, þ.e. að áhrif fulltrúa starfsmanna á skipan stjórnar eða framkvæmdastjórnar samrunafélagsins verði minni en fyrir stofnun þess, þarf samkomulagið hins vegar að hljóta atkvæði frá auknum meiri hluta, samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið mælir fyrir um gildissvið frumvarpsins í samræmi við 1. gr. tilskipunar 2005/ 56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Frumvarpið tekur til félaga „með takmarkaða ábyrgð“, og er þar átt við félög sem falla undir 1. félagaréttartilskipun Evrópusambandsins 68/151/EBE eða eru hlutafélög, þar á meðal samlagshlutafélög og einkahlutafélög, sbr. einnig lög nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og lög nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um markmið frumvarpsins sem er í samræmi við markmið tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, sbr. 13. tölul. inngangsorða hennar. Meginmarkmið frumvarpsins er að vernda áunninn rétt starfsmanna félaga sem verða til við millilandasamruna til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi slíkra félaga og að viðhalda slíkum rétti.

Um 3. gr.


    Ákvæðið hefur að geyma skilgreiningar á helstu hugtökum sem fram koma í frumvarpinu. Eru flest þeirra þau sömu og fram koma í lögum nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, og vísast til athugasemda við 3. gr. þeirra laga varðandi skýringar á þeim. Þessi samsvörun stafar af því að tilskipun 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, byggist mikið til á tilskipun 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sem liggur til grundvallar lögum nr. 27/2004, að breyttu breytanda.
    Hugtakið millilandasamruni er skilgreint hér með sama hætti og í 133. gr. a laga nr. 2/ 1995, um hlutafélög, með síðari breytingum, og 107. gr. b laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum.

Um 4. gr.


    Ákvæðið byggist á 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna. Er þar mælt fyrir um skyldu fyrirsvarsmanna fyrirtækja, sem hyggjast taka þátt í stofnun samrunafélags, til að gera eins fljótt og unnt er ráðstafanir til að hefja samningaviðræður við fulltrúa starfsmanna félaganna um tilhögun á aðild starfsmanna.
    Til að viðræður geti hafist þarf að stofna sérstaka samninganefnd fulltrúa starfsmanna í samræmi við ákvæði 5. gr. Í 2. mgr. 4. gr. er mælt fyrir um skyldu þátttökufélaganna til að láta fulltrúum starfsmanna í té upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að unnt sé að ákvarða fjölda fulltrúa í umræddri nefnd og skiptingu sæta í henni. Jafnframt skal veita upplýsingar um hvaða reglur gilda um þátttöku starfsmanna í hverju þátttökufélagi, en þær upplýsingar skipta miklu máli, m.a. fyrir atkvæðagreiðslur í sérstöku samninganefndinni.
    Upplýsingar þær sem veittar eru skulu byggðar á nýjustu fáanlegum upplýsingum. Varðandi tölur um starfsmannafjölda skal tekið fram að átt er við heildarfjölda starfsmanna í hverju þátttökufélagi, óháð því hvort þeir eru t.d. í hlutastarfi eða starfa á grundvelli tímabundins ráðningarsamnings. Hér er átt við fjölda starfsmanna á hverjum tíma. Er því um aðra reglu að ræða en fram kemur í 8. gr. laga nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, þar sem miðað er við meðalfjölda starfsmanna á síðustu tveimur árum.

Um 5. gr.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um stofnun sérstakrar samninganefndar sem í eiga sæti fulltrúar starfsmanna þátttökufélaga og dótturfélaga þeirra eða starfsstöðva sem fyrirhugað er að taki þátt í stofnun samrunafélags.
    Ákvæði a-liðar 2. mgr. er ætlað að tryggja að sæti í nefndinni skiptist eftir fjölda þeirra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem þátttökufyrirtækin hafa starfsmenn í vinnu og felur reglan í sér að hvert ríki sem málið varðar á rétt á a.m.k. einum fulltrúa. Fulltrúafjöldi ræðst að öðru leyti af því hve stór hluti starfsmanna þátttökufélaganna starfar í hverju ríki og eykst fjöldi fulltrúa um einn fyrir hvern byrjaðan tug fulltrúa. Þannig fær t.d. aðildarríki þar sem fjórðungur starfsmanna allra þátttökufélaganna starfar þrjá fulltrúa í samninganefndina.
    Í b-lið 2. mgr. er sérregla sem felur í sér að bætt er við takmörkuðum fjölda fulltrúa í samninganefndina og eru þeir fulltrúar starfsmanna þátttökufélaga sem ekki verða lengur sjálfstæðir lögaðilar eftir að skráning samrunafélagsins tekur gildi. Í 3. mgr. er tekið fram að sé fjöldi slíkra þátttökufélaga meiri en fjöldi þeirra sæta sem unnt er að úthluta á þennan hátt skuli þau sæti sem laus eru til ráðstöfunar ganga til starfsmanna fjölmennustu félaganna í hverju aðildarríki.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að breytingar verði á hinu fyrirhugaða samrunafélagi eftir að sérstaka samninganefndin hefur verið skipuð. Þetta getur t.d. gerst þannig að eitt eða fleiri félög hætta við þátttöku í samruna og kann það m.a. að leiða til þess að vægi atkvæða á bak við hvern fulltrúa í nefndinni breytist. Er í ákvæðinu gert ráð fyrir því að unnt sé að endurúthluta sætum í samninganefndinni ef nefndin telur það nauðsynlegt, en jafnframt er gert ráð fyrir því að sem minnstar tafir verði á samningaviðræðum vegna þessa, enda nauðsynlegt skv. 9. gr. að ljúka viðræðum eigi síðar en einu ári eftir að þær hefjast.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um kjör fulltrúa starfsmanna á Íslandi í sérstöku samninganefndina. Gert er ráð fyrir að trúnaðarmönnum stéttarfélaga verði falið það vald að velja þessa fulltrúa en jafnframt tekið fram að starfsmenn sem ekki eiga trúnaðarmann velji sér sameiginlegan fulltrúa sem tekur þátt í kjörinu. Skulu þessir aðilar velja fulltrúa úr sínum röðum til setu í sérstöku samninganefndinni en ef engir trúnaðarmenn eru innan fyrirtækis eiga allir starfsmenn þátttökufélags rétt á að taka þátt í kjörinu og eru þeir þá jafnframt kjörgengir.
    Í ákvæðinu er enn fremur mælt fyrir um að taki fleiri en eitt íslenskt fyrirtæki þátt í stofnun samrunafélags skuli reynt að dreifa fjölda fulltrúa milli þátttökufélaganna, og að sætum skuli endurúthlutað ef starfsmenn þátttökufélags missa rétt til fulltrúa.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu er hlutverki sérstöku samninganefndarinnar lýst og kveðið á um skyldu þeirra félaga sem taka þátt í stofnun samrunafélags til að upplýsa nefndina um áætlanir sínar og gang stofnunarferlisins. Í þessu felst m.a. skylda til að tilkynna nefndinni um breytingar sem kunna að eiga sér stað, t.d. ef einhver félög hætta við þátttöku í samrunafélaginu eða ný félög bætast í hóp þátttakenda, en slíkt getur m.a. orðið til þess að hafa áhrif á samsetningu nefndarinnar.
    Í ákvæðinu er enn fremur mælt fyrir um skyldu þátttökufélaganna til að bera kostnað sem hlýst af samningaviðræðum og fellur þar undir allur eðlilegur kostnaður, svo sem ferðakostnaður, en í greininni er sérstaklega kveðið á um skyldu til að bera kostnað vegna a.m.k. eins sérfræðings sem nefndin getur valið sér til aðstoðar.

Um 8. gr.


    Ákvæðið geymir reglur um það hvernig sérstaka samninganefndin tekur ákvarðanir. Meginreglan er sú að ákvarðanir eru teknar með hreinum meiri hluta atkvæða, að því skilyrði uppfylltu að á bak við þann meiri hluta sé einnig meiri hluti starfsmanna hins fyrirhugaða samrunafélags.
    Í 2. mgr. er að finna sérreglu sem ætlað er að varna því að þátttökuréttur starfsmanna minnki við stofnun samrunafélags. Aukinn meiri hluta atkvæða þarf til að samþykkja slíkt samkomulag og að auki þarf að uppfylla skilyrði um að þeir sem greiða samkomulaginu atkvæði séu fulltrúar aukins meiri hluta starfsmanna, auk þess að vera frá a.m.k. tveimur aðildarríkjum. Gildir þessi regla þegar um samruna er að ræða og a.m.k. fjórðungur starfsmanna á slíkan þátttökurétt.

Um 9. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um tímafresti til að ljúka viðræðum í samræmi við 5. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, en samkvæmt henni verður samningaviðræðum að ljúka innan árs frá því að þær hefjast. Til að tryggja að upphaf viðræðna dragist ekki von úr viti er lagt til í frumvarpinu að viðræður skuli í síðasta lagi taldar hefjast tveimur mánuðum eftir að nauðsynlegar upplýsingar berast fulltrúum starfsmanna. Með þessu móti er tryggt að ekki þurfi að fresta úr hófi skráningu samrunafélags af ástæðum sem þátttökufélögin ráða engu um.

Um 10. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við b-lið 4. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, um heimildir sérstöku samninganefndarinnar til að hefja ekki samningaviðræður eða binda enda á viðræður og vísa þess í stað til gildandi reglna í einstökum aðildarríkjum um þátttökurétt starfsmanna. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema með auknum meiri hluta atkvæða, auk frekari skilyrða sem tilgreind eru í ákvæðinu.

Um 11. gr.


    Í ákvæðinu er kveðið á um þær lágmarkskröfur sem gerðar eru til efnis samkomulags milli fulltrúa starfsmanna og þátttökufélaganna um aðild starfsmanna samrunafélagsins og svarar greinin til tiltekinna ákvæða 4. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sbr. b-lið 3. mgr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Rétt er að hafa í huga að upptalningin í 1. mgr. er ekki tæmandi og er aðilum frjálst að semja um önnur atriði en þar koma fram.
    Gert er ráð fyrir því sem meginreglu, eins og fram kemur í b-lið 1. mgr., að aðilarnir geri samkomulag um að starfandi verði fulltrúanefnd starfsmanna, sem að mörgu leyti svipar til evrópskra samstarfsráða í fyrirtækjum sem kveðið er á um í lögum nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Á meðal annarra atriða sem nauðsynlegt er að komi fram í samkomulagi aðila er gildissvið samkomulagsins, þ.e. til hvaða félaga, þ.m.t. dótturfélaga, því er ætlað að ná. Einnig er afar mikilvægt að í samkomulaginu komi fram í hvaða tilvikum það skuli endurskoðað, enda líklegt að breytingar verði á starfsemi samrunafélagsins, svo sem vegna frekari samruna eða breytinga á starfsemi félagsins, eftir að það hefur verið stofnað. Slíkar breytingar geta hæglega haft áhrif á skiptingu sæta í fulltrúanefndinni.
    Í þeim tilvikum sem samkomulag næst samkvæmt þessari grein eiga ákvæði III. kafla frumvarpsins ekki við um samrunafélagið nema þess sé sérstaklega getið í samkomulagi aðila, sbr. 2. mgr.

Um 12. gr.


    Í ákvæðinu, sem byggist á 6. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, er kveðið á um að löggjöf þess aðildarríkis, þar sem fyrirhugað er að aðalskrifstofa samrunafélags verði staðsett, skuli gilda um málsmeðferð við samningaviðræður. Ákvæði frumvarpsins og eðli máls leiða þó í einstaka tilvikum til þess að landsréttur í hverju ríki gildi og á það t.d. við um val fulltrúa hvers ríkis í sérstöku samninganefndina.

Um 13. gr.


    Í ákvæðinu er vísað til þess að stjórnarstofnunum þátttökufélaganna er heimilt að ákveða án þess að samningaviðræður fari fram skv. II. kafla að um þátttökurétt starfsmanna samrunafélagsins fari skv. III. kafla, sbr. einnig a-lið 1. mgr. 14. gr. Gilda þær reglur þá um þátttökurétt starfsmannanna frá dagsetningu skráningar samrunafélagsins. Greinin svarar til a-liðar 4. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri.

Um 14. gr.


    Ákvæðið svarar til tiltekinna ákvæða 7. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sbr. e-lið 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, og felur í sér nánari afmörkun á því hvenær ákvæði kaflans geta átt við um þátttökurétt starfsmanna í samrunafélagi, sbr. 15. gr.
    Það getur ávallt gerst, t.d. við samruna fyrirtækja frá mörgum aðildarríkjum, að þátttökuréttur starfsmanna byggist á ólíkum reglum. Þannig felst t.d. þátttökuréttur í hollenskum hlutafélögum oft í rétti fulltrúa starfsmanna til að mæla gegn setu eins eða fleiri fulltrúa í stjórn félags. Í flestum öðrum ríkjum er hins vegar algengast, þar sem þátttökuréttur er á annað borð fyrir hendi, að hann felist í rétti til að tilnefna einn eða fleiri fulltrúa í stjórnarstofnanir viðkomandi félags. Þessi ólíku form á þátttöku starfsmanna eru algerlega ósamrýmanleg og er það ástæða þess að í 3. mgr. er kveðið á um að í þeim tilvikum sem 15. gr. á við skuli sérstaka samninganefndin taka ákvörðun um hvaða form á þátttöku skuli gilda í samrunafélaginu.

Um 15. gr.


    Ákvæði þessarar greinar, sem svarar til b-liðar 3. hluta viðauka við tilskipunar 2001/ 86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sbr. h-lið 3. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, gilda einungis í afmörkuðum tilvikum, og því aðeins að ekki hafi verið samið um annað fyrirkomulag á þátttöku starfsmanna. Eins og fram kemur í 13. tölul. 3. gr. er þátttökuréttur annaðhvort fólginn í því að fulltrúar starfsmanna kjósi eða tilnefni einn eða fleiri fulltrúa til setu í stjórnarstofnunum samrunafélagsins eða að fulltrúar starfsmanna geti hafnað setu eins eða fleiri fulltrúa sem kjörnir hafa verið af hluthöfum.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að fulltrúanefnd starfsmanna ákveði skiptingu sæta í stjórnarstofnanir samrunafélagsins meðal fulltrúa starfsmanna í einstökum aðildarríkjum. Gert er ráð fyrir þeirri meginreglu að sæti í stjórn og eftirlitsstjórn gangi til þeirra aðildarríkja þar sem starfsmenn eru flestir og að sæti skiptist samkvæmt hlutfallsreglu. Í þeim tilvikum þegar slík hlutfallsskipting leiðir til þess að starfsmenn í einstökum aðildarríkjum fá engan fulltrúa skal fulltrúanefndin leitast við að jafna skiptingu sæta og njóta starfsmenn í því aðildarríki þar sem skrifstofa samrunafélagsins er þá forgangs fram yfir aðra starfsmenn sem ekki hafa fengið úthlutað sæti samkvæmt hlutfallsreglu. Hafa verður í huga að sjaldan verður um mikinn fjölda sæta að ræða en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að hlutfallsregla ráði ávallt fyrstu sætum sem koma til úthlutunar samkvæmt þessari grein.
    Ekki þykir þörf á að setja ítarlega reglu um aðferðir í þeim tilvikum þegar þátttökuréttur starfsmanna felst í því að mæla með eða gegn tilnefningu fulltrúa í stjórnarstofnanir samrunafélagsins. Nægilegt þykir að fela fulltrúanefnd starfsmanna að setja reglur þar að lútandi.
    Í þriðja viðauka tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, er ekki kveðið á um hvernig standa skuli að kjöri eða tilnefningu fulltrúa starfsmanna frá einstökum aðildarríkjum í stjórnarstofnanir samrunafélagsins. Í frumvarpinu er valin sú leið að beita sömu aðferð og gert er við tilnefningu fulltrúa í sérstöku samninganefndina og fulltrúaráð starfsmanna, sbr. 6. gr. Er það í samræmi við hliðstæð ákvæði í lögum nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, sbr. 5. mgr. 16. gr., og lögum nr. 44/2007, um aðild starfsmanna að evrópskum samvinnufélögum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. þeirra laga. Hvað varðar fulltrúa frá öðrum aðildarríkjum er meginreglan sú að löggjöf viðkomandi aðildarríkis ráði, en þegar löggjöf til innleiðingar á tilskipuninni kveður ekki sérstaklega á um val fulltrúa skuli þetta vald falið fulltrúanefnd starfsmanna samrunafélagsins.
    Í lokamálsgreininni er tekinn af vafi um að fulltrúar, sem ákvæði greinarinnar eiga við um, skuli hafa sömu stöðu og réttindi og aðrir stjórnarmenn.

Um 16. gr.


    Ákvæði frumvarpsins og tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, sem frumvarpið byggist að miklu leyti á, gera ráð fyrir að fulltrúum starfsmanna séu veittar margháttaðar upplýsingar sem leynt eiga að fara, svo sem um áform er varða samruna fyrirtækja, nýja framleiðslutækni o.s.frv. Í greininni er gert ráð fyrir því, í samræmi við 1. mgr. 8. gr. framangreindrar tilskipunar, að þátttökufélögum og stjórnarstofnunum samrunafélags sé heimilt að binda upplýsingar trúnaði. Sambærileg ákvæði er m.a. að finna í 29. gr. laga nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, 10. gr. laga nr. 63/2000, um hópuppsagnir, og 19. gr. laga nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum.
    Þagnarskylda verður aðeins ákveðin í einstökum tilvikum og heimilar þessi grein frumvarpsins ekki að fulltrúar starfsmanna undirgangist almenna þagnarskyldu er varðar þær upplýsingar sem þeir fá í störfum sínum.
    Ágreiningur um hvort heimilt sé að binda tilteknar upplýsingar þagnarskyldu verður borinn undir almenna dómstóla, sbr. 20. gr.

Um 17. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um heimild stofnana samrunafélags eða þátttökufélaga til að undanskilja upplýsingar sem eru þess eðlis að þær geti haft mjög skaðleg áhrif, í samræmi við 2. mgr. 8. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna. Heimildina verður að skýra fremur þröngt, m.a. með vísan til þess að skv. 16. gr. er gert ráð fyrir að heimilt verði að binda upplýsingar trúnaði. Sambærilegt ákvæði er að finna í 30. gr. laga nr. 61/1999, um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum.
    Heimilt er að bera ágreining um lögmæti ákvörðunar samkvæmt þessari grein undir almenna dómstóla, sbr. 20. gr. Einnig getur varðað sektum að undanskilja upplýsingar sem skylt var að láta af hendi, sbr. 19. gr.

Um 18. gr.


    Í ákvæðinu er mælt fyrir um á hvern hátt fulltrúum starfsmanna sem annast samskipti við stjórnarstofnanir samrunafélags skuli veitt vernd gegn uppsögn og kjaraskerðingu, sbr. 10. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna. Ákvæðið er efnislega samhljóða 18. gr. laga nr. 27/2004, um aðild starfsmanna að Evrópufélögum, og þarfnast hún ekki sérstakra skýringa.

Um 19. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu liggja fésektir við þeirri háttsemi sem þar er tilgreind, en skv. 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, er aðildarríkjum skylt að tryggja að aðilar máls uppfylli þær skyldur sem kveðið er á um í tilskipuninni. Jafnframt ber aðildarríkjum að tryggja að viðeigandi úrræði séu fyrir hendi í þeim tilvikum þegar ekki er farið að ákvæðum tilskipunarinnar.
    Í 1. mgr. er að finna refsiákvæði sem einkum getur varðað fulltrúa starfsmanna. Er þar kveðið á um að það varði fésektum að láta af hendi trúnaðarupplýsingar. Rétt er að taka fram að ef ágreiningur er um hvort heimilt sé að binda upplýsingar trúnaði er unnt að skjóta ágreiningi til dómstóla til að fá trúnaðarskyldu aflétt, sbr. 20. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið á um refsiábyrgð lögaðila. Er þar kveðið á um að ásetningsbrot gegn 4. og 18. gr. frumvarpsins varði lögaðila fésektum, en að jafnaði má ætla að brot gegn framangreindum ákvæðum séu eingöngu framin í þágu viðkomandi samrunafélags, dótturfélags eða þátttökufélaga. Brot verður því aðeins talið refsivert að það sé til þess fallið að svipta starfsmenn samrunafélags rétti sem varinn er samkvæmt lögunum.

Um 20. gr.


    Í ákvæðinu er, í samræmi við 2. mgr. 12. gr. tilskipunar 2001/86/EB, um viðbætur við samþykktir um Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna, mælt fyrir um að ágreiningsmálum verði skotið til úrlausnar almennra dómstóla. Þar sem efni frumvarpsins er um margt flókið og ágreining getur borið að með ýmsu móti þótti ástæða til að taka fram hverjir ættu rétt til málshöfðunar og takmarkast sá réttur við aðila sem eiga hagsmuna að gæta.

Um 21. gr.


    Í samræmi við 7. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, mælir ákvæðið fyrir um skyldu samrunafélags til að tryggja vernd þátttökuréttar starfsmanna ef til innlends samruna kemur á næstu þremur árum eftir að samruni sem frumvarp þetta tekur til tók gildi.

Um 22. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við 19. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, þar sem fram kemur að þegar aðildarríkin samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipuninni skuli vera í þeim tilvísun í tilskipunina eða þeim fylgja slík tilvísun við opinbera birtingu.

Um 24. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 25. gr.


    Með hliðsjón af innleiðingu 3. og 6. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/56/EB, um samruna hlutafélaga yfir landamæri, er gert ráð fyrir breytingum á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Felst í breytingunum setning vissra skilyrða varðandi skráningu hlutafélaga og einkahlutafélaga við millilandasamruna og millilandaskiptingu. Þarf við skráningu, eftir því sem við á, að taka tillit til ákvæða um aðild starfsmanna í þessum félögum á sama hátt og gert er í 12. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 2157/2001 frá 8. október 2001, um samþykktir fyrir Evrópufélög (SE), sem hefur lagagildi hér á landi skv. 1. gr. laga nr. 26/2004, um Evrópufélög. Er vísað sérstaklega í lög um Evrópufélög í breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Eftir breytinguna gilda samsvarandi reglur um skráningu Evrópufélaga og evrópskra samvinnufélaga, svo og skráningu hlutafélaga og einkahlutafélaga við millilandasamruna og millilandaskiptingu.
    Texti tilvísaðrar 12. gr. er eftirfarandi:
    Sérhvert Evrópufélag skal skráð í því aðildarríki þar sem það er með skráða skrifstofu, í skrá sem er tilgreind í lögum þess aðildarríkis í samræmi við 3. gr. fyrstu tilskipunar ráðsins (68/151/EBE) frá 9. mars 1968 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í bandalaginu og aðildarríki krefjast af félögum í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra.
    Óheimilt er að skrá Evrópufélag, nema því aðeins að tekist hafi samkomulag um tilhögun á aðild starfsmanna að félaginu skv. 4. gr. tilskipunar 2001/86/EB eða tekin hafi verið ákvörðun skv. 6. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar eða að frestur til samningaviðræðna skv. 5. gr. sömu tilskipunar hafi runnið út án þess að samkomulag hafi náðst.
    Til að unnt sé að skrá Evrópufélag í aðildarríki sem hefur nýtt sér þann kost sem um getur í 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2001/86/EB verður annaðhvort að hafa náðst samkomulag skv. 4. gr. tilskipunarinnar um tilhögun á aðild starfsmanna, þ.m.t. um þátttöku þeirra, eða ekkert þátttökufélag má hafa heyrt undir reglur um þátttöku fyrir skráningu Evrópufélagsins.
    Samþykktir Evrópufélags mega aldrei stríða gegn þeirri tilhögun á aðild starfsmanna sem þannig hefur verið ákveðin. Stríði nýtt fyrirkomulag, sem er ákvarðað samkvæmt framangreindri tilskipun, gegn gildandi samþykktum skal breyta samþykktunum eins og þörf krefur.
    Þegar þannig stendur á má kveða svo á í lögum aðildarríkis að framkvæmdastjórn eða stjórn Evrópufélagsins megi breyta samþykktunum án frekari ákvarðana hluthafafundar.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um aðild starfsmanna við samruna
félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði lög til innleiðingar á efni 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB frá 26. október 2005, um samruna hlutafélaga yfir landamæri. Markmið laganna er að tryggja áunninn rétt starfsmanna félaga sem verða til við samruna yfir landamæri til aðildar að málum og ákvörðunum sem varða starfsemi slíkra félaga.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.