Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 116  —  35. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum er í rauninni verið að staðfesta að óhjákvæmilegt hafi reynst að grípa inn í og skerða verðbætur í búvörusamningum, eins og ákveðið var í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár. Var það gert í ljósi hinna erfiðu efnahagsaðstæðna. Þessi ákvörðun var harðlega gagnrýnd á sínum tíma, ekki síst af þáverandi stjórnarandstöðu og einnig á meðal bænda. Nú hefur hins vegar náðst samkomulag á milli ríkisvaldsins og bænda sem hinir síðarnefndu hafa nýverið staðfest í allsherjaratkvæðagreiðslu.
    Hið mikla efnahagsáfall sem reið yfir þjóðina í kjölfar bankahrunsins hafði miklar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Óhjákvæmilegt reyndist við þær aðstæður strax síðastliðið haust að rifa seglin í ríkisbúskapnum, afla nýrra tekna og lækka útgjöld. Þar á meðal var ákveðið að verðbæta ekki gildandi búvörusamninga að fullu. Í fjárlagafrumvarpi því sem lagt var fram 1. október á síðasta ári var gert ráð fyrir tilteknum verðbótum á búvörusamningum í samræmi við ákvæði þeirra. Sömuleiðis var í fjáraukalagafrumvarpi ársins 2008 tryggt að verðbætur ársins skiluðu sér að fullu. Var það í samræmi við þær venjur sem gilt hafa í þessum efnum. Með mjög versnandi afkomu ríkissjóðs var ákveðið í fjárlögum yfirstandandi árs að verðbæta búvörusamningana með sama hætti og ákvæði fjárlagafrumvarps fyrir árið 2009 kváðu á um. Þannig var ekki tekið tillit til versnandi verðlagshorfa sem við blöstu eftir bankahrunið í október. Var það í samræmi við meðferð ýmissa annarra tilfærslna í fjárlögum, svo sem greiðslur til almannatrygginga.
    Ljóst er að þetta rýrir hag bænda. Stærðargráðan ræðst hins vegar af verðlagsframvindu. Áætlað var um áramót að áhrifin á tekjur bænda gætu verið allt að 800 millj. kr. Með markvissri hagstjórn hefði verið hægt að draga mjög úr áhrifum þessara skerðinga á afkomu bænda. Lausatök stjórnvalda við hagstjórnina, verðbólguþrýstingur sem hefur orðið vegna gengishrunsins í tíð núverandi ríkisstjórnar og svimandi vaxtastig bætist ofan á lækkandi tekjur vegna verðbótaskerðingar á búvörusamningum. Ríkisstjórnin sem nú situr ber því mikla ábyrgð gagnvart versnandi kjörum bænda. Á valdi hennar er því að hafa áhrif á kjör bænda með verkum sínum. Hér blasir við að aðgerðaleysiskostnaðurinn kemur niður á bændum sem öðrum þjóðfélagsþegnum.
    Sjálfsagt eru ekki mjög mörg dæmi um aðra eins kúvendingu í einu máli og blasir nú við hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og flokki hans í þessu máli. Þegar þáverandi ríkisstjórn kynnti að nauðsynlegt hefði reynst að skerða vísitölu búvörusamninga vegna verri aðstæðna hjá ríkissjóði brugðust þessi stjórnmálaöfl ókvæða við og töldu að alls ekki mætti né ætti að skerða vísitöluna vegna búvörusamninganna. Því hefði mátt ætla að fyrsta verk Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði verið að afnema þessa vísitöluskerðingu þegar flokkurinn hefði til þess aðstæður. Því var ekki að heilsa, öðru nær. Þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra – og raunar fjármálaráðherra í einum og sama manninum, Steingrímur J. Sigfússon – tilkynnti bændum við setningu Búnaðarþings þann 1. mars sl. að ákveðið væri að skerðingin stæði og yrði líka á næsta ári! Við þær aðstæður voru bændur boðaðir til samningaviðræðna um endurgerð búvörusamningsins.
    Það er í sjálfu sér vitaskuld fagnaðarefni að samningar skuli hafa náðst um þessi mál núna. Eftir því var leitað við forustumenn bænda á haustdögum hvort unnt yrði að semja um útfærslu búvörusamninganna sem fæli í sér skerðingu á útgjöldum ríkisins til þess viðfangsefnis. Eins og við var að búast og eðlilegt er voru þeir ekki tilbúnir til slíks þá. Eðlilegt var líka að ríkisstjórnarflokkarnir öxluðu þessa ábyrgð, svo sem niðurstaðan var. Hins vegar hófust viðræður um þessi mál á milli þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og forustumanna bænda, eins og formaður Bændasamtakanna hefur sagt frá í blaðaviðtölum og í setningarávarpi á Búnaðarþingi 1. mars sl. Eins og hann greindi frá gengu þær viðræður vel og voru í þeim farvegi sem málið lyktaði síðan í, þ.e. að viðurkenna nauðsyn þess að skerða vísitölubætur, en draga úr óvissu með tiltekinni meðferð vísitölubótanna og að lengja gildistíma búvörusamningsins. Þetta er kjarni þess frumvarps sem hér liggur fyrir.
    Ástæða er til að fagna því að slíkt samkomulag er fengið og lýsir minni hlutinn stuðningi við að það fái brautargengi á Alþingi.
    Hins vegar hefði verið eðlilegt að samhliða væru kynntar tillögur sem lúta að hag bænda og einnig voru í undirbúningi. Þar má nefna vinnu við að kortleggja skuldastöðu bænda og úrræði við að koma til móts við þarfir landbúnaðarins. Á fyrstu dögunum eftir bankahrunið fóru Bændasamtökin og ráðuneyti málaflokksins sameiginlega í slíka vinnu gagnvart bönkunum með góðum árangri fyrir bændur og landbúnaðarstarfsemina. Þá væri eðlilegt að í samvinnu við bændur yrði nú tekin ákvörðun um að framlengja svokallaða útflutningsskyldu eða grípa til annarra þeirra úrræða sem líkleg væru til að stuðla að jafnvægi á kjötmarkaði, án þess að það ylli kostnaði hjá ríkissjóði. Enn fremur er nauðsynlegt að brugðist sé við vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á neyslumynstri, t.d. á kjöt- og mjólkurmarkaði, sem hefur haft mikil áhrif á afkomu afurðastöðva landbúnaðarins og fyrirtækin geta illa átt við vegna lagaumhverfisins. Sjálfsagt hefði líka verið að ráðuneyti málaflokksins hefði freistað þess að meta líklega verðþróun á afurðum landbúnaðarins og hvernig hún hefði áhrif á hag bænda og afurðastöðva.
    Í fylgiskjali er tafla sem unnin hefur verið á vegum Landssamtaka sauðfjárbænda. Þessi samantekt bregður ljósi á erfiðleikana og endurspeglar þann vanda sem við er að glíma á kjötmarkaði og kallar á viðbrögð stjórnvalda.

Alþingi, 15. júní 2009.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.



Fylgiskjal.


Sala á kindakjöti fyrstu fimm mánuði ársins, árin 2001–2009, greint sundur
í dilkakjöt og kjöt af fullorðnu innan lands og svo útflutt.
Tölurnar eru í tonnum.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.