Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 34. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 117  —  34. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Með þessu frumvarpi er í rauninni verið að flytja fjögur lítt skyld mál. Í fyrsta lagi er veitt heimild til að undanskilja afla sem fæst við veiðar í fræðsluskyni frá kvóta. Í annan stað er verið að setja lagalegan ramma utan um svokallaðar frístundaveiðar sem eru vaxandi atvinnugrein. Í þriðja lagi er verið að innleiða nýtt banndagakerfi, sem gengið hefur undir nafninu strandveiðar. Og loks er í frumvarpinu ákvæði um að skipta heildarafla í karfa í gullkarfa og djúpkarfa.
    Þetta frumvarp er því marki brennt að undirbúningur var slaklegur í veigamiklum atriðum. Það á alveg sérstaklega við um þann þátt frumvarpsins sem snýr að hinu nýja banndagakerfi. Málinu var varpað fram í umræðuna fyrr í vetur, sem illa útfærðri hugmynd, sem fékk afar misjafnar móttökur. Ljóst er af frumvarpinu eins og það leit dagsins ljós að upphaflegu hugmyndirnar stóðust engan veginn nánari skoðun og voru alls ekki líklegar til að ná yfirlýstum markmiðum: að auka nýliðun í sjávarútvegi og styrkja byggðir. Frumvarpið eins og það var lagt fram gerir það ekki heldur, né þær veigalitlu og ómarkvissu breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar lagði fram.
    Mjög margt er við vinnubrögðin að athuga. Umsagnarfrestur vegna málsins var hraklega stuttur. Þessu mótmælti minni hluti nefndarinnar en á það var ekki hlustað. Sem dæmi má nefna að fram kemur í umsögn Byggðastofnunar að hún hafði einungis einn dag til þess að skila inn umsögn þrátt fyrir að einn yfirlýsti tilgangur málsins sé að styrkja byggðina í landinu. Þetta er ekki einasta móðgun við umsagnaraðila, heldur ekki síður yfirlýsing um áhugaleysi meiri hluta nefndarinnar um fagleg og góð vinnubrögð. Vonandi er þetta ekki fyrirboði þeirra vinnubragða sem tíðkuð verða við breytingar á lögum á málasviði nefndarinnar í framtíðinni.
    Þetta er sérstaklega ámælisvert varðandi banndagahluta frumvarpsins í ljósi þess hve hann var illa undirbúinn.
    Nauðsynlegt reyndist vegna þessa að kalla fyrir nefndina talsverðan fjölda aðila og var það gert að öllu leyti að frumkvæði minni hlutans til þess að freista þess að varpa ljósi á málið og reyna að gefa umsagnaraðilum færi á að skýra betur þær miklu athugasemdir sem uppi voru við málið. Það var ekki vanþörf á, því jafnvel þeir sem jákvæðastir voru fyrir því að setja á nýtt banndagakerfi við fiskveiðar höfðu mjög veigamiklar athugasemdir við útfærsluna og þá hugsun sem að baki málinu býr. Því miður var lítt hlustað á athugasemdir þær sem bárust við málið úr öllum áttum og þær breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru því til lítils gagns.
    Skal nú vikið nokkuð að efnisatriðum frumvarpsins.
    1. gr. frumvarpsins er í sjálfu sér eðlileg og sjálfsögð og er eingöngu til þess fallin að styrkja lagaframkvæmd sem tíðkast hefur um langt árabil.
    2. gr. er sömuleiðis til bóta að flestu leyti enda byggð á skýrslu nefndar um svokallaða frístundabáta sem er vaxandi atvinnugrein. Það er þó til marks um flumbruganginn við undirbúning málsins að þetta mál hafði fengið talsverða umfjöllun sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á síðastliðnu vori þar sem fengist hafði niðurstaða um tilteknar breytingar sem algjörlega var hins vegar litið framhjá við undirbúning málsins nú. Þá er í tillögum meiri hlutans ekki brugðist við tilteknum ábendingum sem fram hafa komið í vinnu nefndarinnar og ætla má að um gæti orðið góð samstaða.
    Ákvæði til bráðabirgða I hefur fengið mestu umfjöllunina og umræðuna. Það mál allt er í algjöru skötulíki og í rauninni stórfurðulegt að menn nálgist breytingar á fiskveiðistjórnarlögum með þessum hætti. Er það til marks um efasemdirnar um þetta mál að jafnt ráðherrann sem málið flytur og meiri hluti nefndarinnar leggja á það áherslu að málið sé eingöngu lagt fram til bráðabirgða; sem eins konar tilraunaverkefni. Með öðrum orðum, þeim sem ætla að starfa í þessu nýja banndagakerfi er boðið upp á algjöra óvissu. Fyrir liggur að margir munu þurfa að leggja í umtalsverða fjárfestingu, en allsendis er óvíst hvort framhald verður á þessum veiðum að mati ábyrgðarmanna málsins. Þessi vinnubrögð eru því ekki líkleg til þess að stuðla að því að menn geti undirbúið þennan atvinnurekstur sinn af nauðsynlegri kostgæfni þannig að hann geti orðið þeim og þjóðfélaginu til ábata.
    Ein alvarlegasta meinsemd þessa máls er að það mun færa veiðirétt í umtalsverðum mæli frá veikustu sjávarbyggðum landsins, þeim byggðum sem helst hafa misst frá sér aflaheimildir, þar sem fiskvinnsla hefur dregist saman og íbúum fækkað. Þetta er ómótmælanlegt þar sem ætlunin er að taka meira en helming alls byggðakvótans og úthluta honum til þess að búa til veiðirétt í hinu nýja banndagakerfi. Fram kom í máli fulltrúa þessara sveitarfélaga sem og fulltrúa Sambands sveitarfélaga að þetta mundi veikja mjög þá atvinnustarfsemi sem er til staðar í þessum byggðarlögum og kollvarpa heilsársstarfsemi við fiskveiðar og vinnslu. Ljóst er að meiri hlutinn hefur ákveðið að bregðast í engu við þessum ábendingum.
    Í fylgiskjali við álit þetta er yfirlit yfir úthlutun byggðakvóta á síðustu þremur árum til einstakra byggðarlaga. Þetta yfirlit gefur vísbendingu um hvaða byggðarlög verða einkum fyrir barðinu á afleiðingum hinnar fyrirhuguðu löggjafar.
    Sú svæðaskipting sem lögð er til grundvallar hinum nýju banndögum getur sömuleiðis grafið mjög undan möguleikum fjölmargra sveitarfélaga og byggðarlaga. Meiri hlutinn hefur kosið að takast ekki á við það vandamál, sem þó er viðurkennt að nokkru í áliti meiri hlutans. Þessu máli á hins vegar að vísa án nokkurra skilmála inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið til marks um þá fullkomlegu uppgjöf sem er gagnvart þessu óhjákvæmilega viðfangsefni.
    Ýmislegt annað má nefna sem sýnir hve málið er illa úr garði gert. Það er til dæmis ljóst að reglur um veiði annarra tegunda en þorsks munu gera þennan veiðiskap nær ómögulegan á þeim svæðum þar sem ufsi er uppistaðan í handfæraaflanum. Áhyggjur hafa komið fram um öryggismál þeirra sem þessar veiðar munu stunda. Bent hefur verið á að þetta fyrirkomulag muni rýra heildarafrakstur okkar af sjávarauðlindinni, þar sem nú verði með fleiri bátum en áður dreginn sami afli úr sjó og hann seldur til ráðstöfunar á þeim tíma sem hráefnið er viðkvæmt og verðminna. Þá er ljóst að eftirlitskostnaður verður umtalsverður.
    Að öllu framansögðu telur minni hlutinn að skynsamlegast sé að fresta öllum áformum um nýtt banndagakerfi. Þau mál eigi hins vegar að skoða og útfæra áður en málið sé lagt að nýju fyrir þingið. Þess í stað eigi tafarlaust að úthluta þeim afla sem ætlunin var að ráðstafa til byggðakvóta á grundvelli þeirra reglna sem þróaðar hafa verið.
    Að síðustu varðandi ákvæði til bráðabirgða II má telja skynsamlegt að fresta því að á því máli sé tekið. Það er á hinn bóginn brýnt og sjálfsagt að leyfilegum heildarafla í karfa sé skipt upp í þær tvær tegundir sem um er að ræða, gullkarfa og djúpkarfa. Eðlilegt er að yfir það sé farið hvort fyrir hendi séu nægjanleg gögn til þess að framkvæma þessa skiptingu á grundvelli raunverulegrar veiðireynslu í þessum tilgreindu tegundum. Er hér hvatt til þess að sú vinna verið framkvæmd þannig að sem allra fyrst megi leggja fram nýtt frumvarp um þetta mál.

Alþingi, 15. júní 2009.



Einar K. Guðfinnsson,


frsm.


Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.





Fylgiskjal.


Úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárin 2005–2006, 2006–2007 og 2007–2008
(sbr. þskj. 58, 11. mál á yfirstandandi þingi).


Magn úr sjó:
Þorskur 2.679 tonn
Ýsa 2.060 tonn
Ufsi 1.545 tonn Steinbítur 258 tonn
Magn úr sjó:
Þorskur 3.133 tonn
Ýsa 1.705 tonn
Ufsi 1.299 tonn
Steinbítur 211 tonn
Magn úr sjó:
Þorskur 3.273 tonn
Ýsa 1.735 tonn
Ufsi 1.322 tonn, Steinbítur 215 tonn
Sveitarfélag/Byggðarlag 2007–2008 2006–2007 2005–2006
Þorskígildistonn Þorskígildistonn Þorskígildistonn
Árborg 54 44 51
     Stokkseyri 9
     Eyrarbakki 54 44 42
Sveitarfélagið Ölfus
     Þorlákshöfn 35 52 0
Sandgerði 0 36 140
Gerðahreppur 150 150 150
Snæfellsbær 194 99 168
     Hellissandur
     Rif 44 70
     Ólafsvík 150 99 98
Grundarfjarðarbær 140 137 140
     Grundarfjörður 140 137 140
Stykkishólmur 210 204 210
Vesturbyggð 297 349 299
     Brjánslækur 15 15 5
     Patreksfjörður 74 95 103
     Bíldudalur 140 137 140
Tálknafjarðarhreppur 150 87 70
Bolungarvík 70 68 98
Ísafjarðarbær 374 454 506
     Hnífsdalur 34 22 37
     Þingeyri 17 87 79
     Flateyri 104
     Suðureyri 20 15 23
     Ísafjörður 70 137 140
Súðavíkurhreppur 210 204 210
Árneshreppur (Norðurfjörður) 15 15 5
Kaldrananeshreppur/Drangsnes 51 48 68
Strandabyggð
     Hólmavík 140 137 140
Húnaþing vestra
     Hvammstangi 70 68 70
Blönduósbær
     Blönduós 140 137 140
Sveitarfélagið Skagaströnd 140 137 140
Sveitarfélagið Skagafjörður 138 222 136
     Sauðárkrókur 70 137
     Hofsós 30 28 107
Fjallabyggð 360 339 289
     Siglufjörður 210 204 210
     Ólafsfjörður 150 135 79
Dalvíkurbyggð 165 82 112
     Dalvík 56
     Hauganes 15 15 5
     Árskógssandur 150 67 51
Akureyri
     Hrísey 23 75 107
Grýtubakkahreppur/Grenivík 0 18 0
Grímsey 46 46 23
Norðurþing 374 381 305
     Húsavík 210 204 140
     Kópasker 70 68 70
     Raufarhöfn 94 109 95
Langanesbyggð 153 134 104
     Þórshöfn 15 48 19
     Bakkafjörður 138 86 85
Vopnafjarðarhreppur
     Vopnafjörður 117 42 0
Borgarfjarðarhreppur
     Borgarfjörður eystri 81 96 121
Seyðisfjörður 70 62 67
Fjarðabyggð 218 230 247
     Fáskrúðsfjörður 37 56 61
     Stöðvarfjörður 181 174 103
Breiðdalshreppur 169 184 209
Djúpavogshreppur 31 46 61
Alls þorskígildistonn 4.385 4.385 4.385