Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 189  —  118. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu. Hefur nefndin fjallað um málið á ný og leggur til nokkrar breytingar.
    Í þeim tilgangi að sætta þau ólíku sjónarmið sem fram komu í umræðu innan nefndarinnar um 4. gr. frumvarpsins leggur meiri hlutinn til að tekin verði upp að nýju það vörugjaldskerfi á matvæli sem aflagt var með lögum nr. 175/2006 og tóku gildi 1. mars. 2007. Samhliða verði vörugjaldið tvöfaldað frá því sem það var á sömu vörutegundum fyrir 1. mars 2009. Jafnframt er lagt til að vörugjöld í viðauka I við gildandi lög, nr. 97/1987, verði tvöfaldað. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins ætti tillaga meiri hlutans að skila ríkissjóði sömu viðbótartekjum og fyrrgreind tilfærsla milli virðisaukaskattsþrepa, þ.e. 2,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli og svipuðum verðlagsáhrifum þegar á heildina er litið.
    Í ljósi athugasemda sem vísað er til í áliti félags- og tryggingamálanefndar leggur meiri hlutinn til þá breytingu á 2. gr. frumvarpsins að Ábyrgðasjóður launa greiði áfram vexti vegna krafna um vinnulaun og orlofslaun sem sjóðurinn ábyrgist. Á hinn bóginn falli niður vaxtagreiðslur vegna krafna um bætur fyrir launamissi vegna gjaldþrots og lífeyrisiðgjalda. Rökin fyrir þessari breytingartillögu eru að launamenn án atvinnu eiga kost á atvinnuleysisbótum í uppsagnarfresti. Enn fremur er henni ætlað að vera hvati fyrir lífeyrissjóði til að ganga tímanlega eftir greiðslu vangoldinna lífeyrisiðgjalda í sjóðina.
    Meiri hlutinn áréttar að lokum þann skilning að tekjur sem eru innan frítekjumarka skv. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða III eru ekki undanþegnar almennum fjármagnstekjuskatti (10%). Tímabundinn skattur (5%) reiknast til viðbótar af þeim stofni sem er umfram 250.000 kr. hjá einstaklingum og tvöfalda þá viðmiðunarfjárhæð hjá hjónum og samsköttuðu fólki.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
         

Alþingi, 26. júní 2009.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Álfheiður Ingadóttir.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Ásmundur Einar Daðason.