Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 199  —  13. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástríði Jóhannesdóttur og Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir frá Neytendastofu og Viðskiptaráði. Frumvarp sama efnis var til umfjöllunar í nefndinni á 136. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Neytendastofu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á annars vegar lögum um samvinnu stjórnvalda á EES-svæðinu um neytendavernd (1. gr.) og hins vegar lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda (2. gr.). Tilgangur frumvarpsins er að ljúka innleiðingu á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti, en efni tilskipunarinnar hefur verið tekið upp í íslenskan rétt að undanskilinni 16. gr. hennar. Þær breytingar sem um ræðir felast í breyttum tilvísunum til tilskipana sem hafa þegar verið innleiddar.
    Reglugerð EB, nr. 2006/2004 frá 27. október 2004, um samvinnu um neytendavernd var tekin upp í íslenskan rétt á þann hátt að birta sjálfa reglugerðina sem fylgiskjal við lögin. Í viðauka við reglugerðina eru taldar upp þær EB-tilskipanir og -reglugerðir sem teljast vera,,lög til verndar hagsmunum neytenda“.
    Lagt er til í 1. gr. frumvarpsins að heimilt verði, á grundvelli 3. gr. laganna, að láta viðaukann hafa reglugerðargildi hér á landi. Verði gerðar breytingar á viðaukanum síðar, þ.e. bætt við upptalninguna á þeim lögum sem teljast vera lög til verndar hagsmunum neytenda, verður unnt með breytingu á reglugerð að bæta þeim við upptalninguna. Verði frumvarpið að lögum mun viðskiptaráðherra því hafa heimild til að bæta 16. tölul. við viðaukann, svo sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 16. gr. tilskipunar um óréttmæta viðskiptahætti að gert skuli.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á tilvísunum til samræmis við breytingar sem gerðar voru með tilskipun 2005/29/EB á annarri tilskipun sem er númer 98/27/EB.
    Nefndin leggur til eina breytingu á orðalagi frumvarpsins. Lagt er til að í stað orðanna,,sem innleiða á“ í c-lið 1. gr. frumvarpsins komi orðin ,,sem innleiddar hafa verið“. Er þetta lagt til svo skýrt sé að ekki verður sett ný eða gerð breyting á reglugerð í þá veru að bæta við upptalningu þeirra laga sem teljast lög til verndar hagsmunum neytenda nema efni hennar hafi áður verið tekið upp í íslenskan rétt.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Í stað orðanna „sem innleiða á“ í c-lið 1. gr. komi: sem innleiddar hafa verið.
    Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    

Alþingi, 25. júní 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Björn Valur Gíslason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Margrét Tryggvadóttir.