Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 85. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 210  —  85. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Minni hluti nefndarinnar telur að þær breytingartillögur sem nefndin leggur fram séu til bóta, en hefur efasemdir um að frumvarpið nái markmiðum sínum. Ljóst er að frumvarpið er samið í flýti og ber þess greinileg merki. Nauðsynlegt er að ráðast í heildarendurskoðun laga um sparisjóði og önnur fjármálafyrirtæki.
    Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að hafa öfluga fjármálaþjónustu hér á landi. Ein af stoðum þess eru sparisjóðirnir. Þeir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í fjármálaþjónustu landsmanna á undanförnum áratugum, einkum á þeim svæðum á landsbyggðinni þar sem áhugi annarra fjármálastofnana hefur verið takmarkaður. Minni hlutinn styður það markmið neyðarlaganna að styðja sparisjóðina til að sinna hlutverki sínu. Reglur voru settar um hvernig þeirri aðstoð yrði komið við 18. desember 2008, í kjölfar þess að neyðarlögin voru sett. Framkvæmdarvaldið telur að þær reglur dugi ekki til vegna verri stöðu sparisjóðanna sökum áfalla frá áramótum.
    Í 7. gr. frumvarpsins er veitt heimild til að lækka stofnfé. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að þetta verði gert til að gefa möguleika á að rétta af varasjóði sem eru neikvæðir sökum slæmrar stöðu sparisjóðanna með aðkomu annarra fjárfesta og er þar sérstaklega litið til þess að eignarhlutur ríkisins endurspegli framlag þess. Fram kom fyrir nefndinni að talsmenn ríkisstjórnarinnar telja þetta vera forsendu þess að hægt verði að koma sparisjóðum til aðstoðar og að áríðandi sé að það verði gert fyrir 1. júlí. Þessi tímasetning var ekki rökstudd frekar, en fram kom að ekki væri um dagaspursmál að ræða. Þó skal tekið fram að lögð var áhersla á að nokkrir sparisjóðir væru í brýnum vanda sem þyrfti að bregðast við sem allra fyrst.
    Einnig kom fram að engar áætlanir liggja fyrir um hvernig staðið verði að lækkun stofnfjár. Augljós hætta er á að eftir slíkar aðgerðir verði hér í landinu nær eingöngu ríkissparisjóðir með veikan rekstrargrundvöll sem erfitt verður fyrir ríkið að losna út úr aftur. Fram kom við umfjöllun um málið að engar áætlanir væru til staðar um það hvernig ríkissjóður verður losaður út úr verkefninu aftur. Styrkur sparisjóðanna hefur m.a. legið í góðum tengslum við heimasvæði sín og hafa stofnfjáreigendur gegnt þar lykilhlutverki. Erfitt er að sjá fyrir sér sparisjóði án aðkomu heimamanna og nauðsynlegt er að tryggja aðkomu þeirra að stjórn sjóðanna, með einum eða öðrum hætti.
    Frumvarpið tekur hins vegar á fleiri þáttum en þeim sem meiri hlutinn telur varða björgun sparisjóðanna en mikil gagnrýni kom frá umsagnaraðilum um að þær hugmyndir hafi ekki verið nægjanlega ígrundaðar eða skýrar. Fram hefur komið að Fjármálaeftirlitið lagði t.d. til að nefndin tæki sér betri tíma til að fara yfir þetta mál sökum mikilvægis þess.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að verða við þessum óskum, sérstaklega í ljósi þess að ekkert kallar á að málið verði klárað með þeim flýti sem meiri hlutinn hefur ákveðið að viðhafa. Atriði sem mjög mikilvægt er að mati minni hlutans að tekið verði á í tengslum við lagaumgjörð um starfsemi sparisjóða eru: 1. skýrar skilgreiningar, 2. rekstrarumhverfi sparisjóðanna, 3. tengsl við heimasvæði og upphæð stofnfjár, 4. gagnsæi í reglum um stofnfjáreigendur, 5. hverjir geti orðið stofnfjáreigendur, 6. stjórnkerfi sparisjóðanna, 7. atkvæðavægi stofnfjárhlutar o.s.frv.

Alþingi, 1. júlí 2009.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Eygló Harðardóttir.


Ragnheiður E. Árnadóttir.



Margrét Tryggvadóttir.