Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 218  —  3. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Auði Arnardóttur, Sigurbjörgu Sæmundsdóttur og Kristínu Rannveigu Snorradóttur frá umhverfisráðuneyti og Gunnlaugu Einarsdóttur frá Umhverfisstofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Háskólanum á Akureyri, Brunamálastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Kælitæknafélagi Íslands, Umhverfisstofnun, Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum atvinnulífsins og Úrvinnslusjóði.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006 um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að takmarka losun þessara lofttegunda út í andrúmsloftið. Í frumvarpinu er lagt til að mælt verði fyrir um skyldur rekstraraðila hvað varðar geymslu og endurnýtingu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda og um merkingu á vörum og búnaði sem inniheldur þær. Þá er lagt til að gerð verði krafa um tiltekna menntun þeirra starfsmanna sem annast uppsetningu, viðhald, áfyllingu, lekaleit og aðra þjónustu við kerfi og búnað sem inniheldur flúoreraðar lofttegundir. Að auki verði gerð krafa um vottun starfsmanna og rekstrar- og þjónustuaðila fasts búnaðar og kerfa sem innihalda þessar lofttegundir. Gert er ráð fyrir því að ný námskrá verði sett um nám sem veiti réttindi til að starfa við kerfi og búnað sem inniheldur lofttegundirnar og að námið verði fjögur ár, þar af eitt í starfsnámi. Þeir sem nú þegar hafa menntun á þessu sviði geta þó samkvæmt frumvarpinu fengið vottun á því námi og þeim sem starfa á sviðinu en hafa aðra menntun verður boðið að sækja styttri námskeið til að uppfylla kröfur vottunar.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að skilgreiningu rekstraraðila væri ábótavant þar sem skilja mætti hana þannig að um væri að ræða starfsmenn þess aðila sem stjórnar tæknilegri virkni búnaðar. Tekur nefndin undir þau sjónarmið og áréttar að rekstraraðili í skilningi laganna og reglugerðarinnar er sá aðili, einstaklingur eða lögaðili, sem ber ábyrgð á stjórn tæknilegrar virkni búnaðar, ekki tilfallandi starfsmaður sem stjórnar tæknilegri virkni. Telur nefndin að með því að breyta orðalagi greinarinnar verði þessi merking skýrari.
    Því var beint til nefndarinnar að orðið fjölflúorkolefni væri ekki það sama og PFC vegna efnasamsetningar PFC (perfluorocarbon). Nefndin leitaði upplýsinga hjá Umhverfisstofnun þar sem tillaga kom að nota orðið perflúorkolefni sem væri í samræmi við þá hefð að íslenska ekki grísk forskeyti. Hjá stofnuninni fengust þær upplýsingar að Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytis hefði ekki gert athugasemd við þá þýðingu enda kæmi orðið perflúor upp þegar leitað væri að „perfluoro“ á vefsíðu miðstöðvarinnar. Leggur nefndin því til breytingu til samræmis við þetta. Að auki leggur nefndin til að staðbundið kerfi komi í stað orðanna fast kerfi.
    Nefndin leggur til þá breytingu að við frumvarpið bætist ákvæði sem aflétti stjórnskipulegum fyrirvara af reglugerðinni sem frumvarpinu er ætlað að innleiða. Í skýrslu utanríkismálanefndar Alþingis frá 8. október 2008 segir að frá árinu 2000 hafi verið gert ráð fyrir að sá háttur yrði hafður á að utanríkisráðherra legði tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi vegna EES-gerða sem kölluðu á lagabreytingar. Þær breytingar yrðu síðan lagðar fram í formi frumvarps af fagráðherra samhliða því sem EES-þingsályktunartillagan yrði lögð fyrir þingið eða í framhaldi af samþykkt hennar. Eitthvað hefur þó borið á því að lagt sé til að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt með frumvarpsákvæði en slíkt verður til þess að þingið fær ekki gerðina sjálfa birta í þingskjali. Þó svo að nefndin leggi hér til þá breytingu að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt með frumvarpsgrein áréttar hún mikilvægi þess að samræma framkvæmd þess hvernig ríkisstjórninni er veitt heimild til að staðfesta ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og aflétta þannig stjórnskipulegum fyrirvara af EES-gerðum sem kalla á lagabreytingar hér á landi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Vigdís Hauksdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Birgitta Jónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. júlí 2009.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.



Valgerður Bjarnadóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Kristján Þór Júlíusson,


með fyrirvara.