Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 137. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 243  —  137. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árnýju J. Guðmundsdóttur og Barböru Ingu Albertsdóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur og Tómas Örn Kristinsson frá Seðlabanka Íslands og Ómar Þór Eyjólfsson frá viðskiptaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Norðuráli hf., Íslandsbanka, Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu og Félagi íslenskra stórkaupmanna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til tvíþættar breytingar á ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 15. gr. a og 16. gr. laganna er varða viðurlög við brotum gegn 8. gr. laganna sem kveður á um hvaða aðilar hafa heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með gjaldeyri. Ástæðan fyrir þessari breytingu nú er að við breytingu á viðurlagaákvæðum laganna í nóvember 2008 fórst fyrir að kveða á um að brot gegn 8. gr. laganna væru refsiverð. Skv. 8. gr. er öðrum en þeim sem hafa heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða með leyfi frá Seðlabankanum óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi. Mikilvægt er að heimilt sé að refsa fyrir þessi brot þar sem þeir aðilar sem brjóta gegn ákvæðinu gera öðrum mögulegt að brjóta gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál og hvetja jafnvel til slíkra brota. Er því lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir á þá sem brjóta gegn ákvæðinu. Jafnframt er lagt til að sektir eða fangelsi allt að tveimur árum geti legið við broti gegn 8. gr. ef brotið er alvarlegt. Það er Fjármálaeftirlitið sem hefur heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um gjaldeyrismál en ef brot eru meiri háttar vísar Fjármálaeftirlitið þeim til lögreglu.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að rannsóknarheimildir Fjármálaeftirlitsins verði styrktar og tekinn af allur vafi um að þau úrræði sem fram koma í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gildi einnig við rannsókn brota á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Þannig er lagt til að nýrri grein, 15. gr. e, verði bætt við lögin. Þar eru dregnar fram tilteknar heimildir Fjármálaeftirlitsins. Til dæmis er kveðið á um að stofnunin hafi heimild til að krefja einstaklinga og lögaðila um upplýsingar og gögn, geti kallað aðila til skýrslugjafar, krafist þess að starfsemi sem stunduð er án tilskilinna leyfa verði hætt, auk þess sem lagt er til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að krefjast kyrrsetningar eigna þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi fari í bága við lögin.
    Fyrir nefndinni kom fram að gjaldeyrishömlur hafa leitt til þess að annar gjaldeyrismarkaður hefur skapast fyrir íslenska krónu erlendis. Vegna þessa hafa menn séð sér hag í því að sinna milligöngu um gjaldeyrisviðskipti án tilskilinna leyfa til að nýta þann mismun sem er á gengi krónunnar á markaði hér heima og erlendis. Slík hegðun skapar óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði og veikir gengi krónunnar. Fram kom að brýnt væri að tryggja Fjármálaeftirlitinu allar rannsóknarheimildir sem nauðsynlegar eru og taka af tvímæli um úrræði stofnunarinnar vegna brota á 8. gr. laganna.
    Meiri hlutinn leggur til orðalagsbreytingu á 4. efnismgr. 2. gr. til að hnykkja á því að tilvísun í 9.–11. gr. eigi við um lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Í stað orðsins „laganna“ í síðari málslið 4. efnismgr. 2. gr. komi: þeirra laga.

    Eygló Harðardóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 8. júlí 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Margrét Tryggvadóttir.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Eygló Harðardóttir,


með fyrirvara.


Lilja Mósesdóttir.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.