Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 38. máls.
137. löggjafarþing 2009.
2. uppprentun.

Þskj. 266  —  38. mál.
    Breyttur texti.




Breytingartillaga



við brtt. á þskj. 249 [Aðildarumsókn að Evrópusambandinu].

Frá Vigdísi Hauksdóttur.



    Á eftir orðunum „Alþingi ályktar að“ komi (í stað orðalags í breytingartillögunni): Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá verði fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið verði opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Skilyrði:
     a.      Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála Evrópusambandsins, verði hluti aðildarsamnings.
     b.      Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórn verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur Evrópusambandsins um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
     c.      Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
     d.      Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
     e.      Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
     f.      Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Seðlabanka Evrópu sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
     g.      Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
     h.      Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála Evrópusambandsins.

Fyrstu skref:
    Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið.