Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 304  —  3. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 24. júlí.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir 4. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                   Flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir eru í skilningi þessara laga vetnisflúorkolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC) og brennisteinshexaflúoríð (SF 6).
                  Rekstraraðili er einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á stjórn tæknilegrar virkni þess búnaðar sem lög þessi taka til.
                  Þjónustuaðili er einstaklingur eða lögaðili sem þjónustar þann búnað sem lög þessi taka til.
     b.      5. mgr., sem verður 8. mgr., orðast svo:
                  Markmið þessara laga er að eiturefni, hættuleg efni, sæfiefni, fegrunar- og snyrtiefni og flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir notist með gát og varúð þannig að hvorki hljótist af tjón á mönnum né dýrum, né að matvæli eða umhverfi mengist af efnunum.

2. gr.

    Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Ákvæði um flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla laganna samkvæmt því:

    a. (27. gr.)

Geymsla flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda.


    Rekstraraðilum staðbundinna kælikerfa , loftkælinga, varmadælukerfa og staðbundinna slökkvikerfa sem innihalda flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir ber að hindra leka þessara lofttegunda og stöðva slíkan leka komi hann til, með öllum þeim tæknilegu ráðstöfunum sem eru mögulegar. Enn fremur ber rekstraraðilum að sjá til þess að haldin sé skrá yfir flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir og að lekaleit sé framkvæmd af vottuðum aðilum.

    b. (28. gr.)

Endurnýting.


    Rekstraraðilar staðbundins búnaðar sem inniheldur flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, og nánar er tiltekinn í reglugerð, bera ábyrgð á endurnýtingu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda til að tryggja endurvinnslu, endurheimt eða eyðingu þeirra. Endurnýting skal framkvæmd af vottuðum aðilum.

    c. (29. gr.)

Menntun og vottun.


    Starfsmenn sem annast uppsetningu, viðhald, áfyllingu, lekaleit og aðra þjónustu vegna staðbundinna kælikerfa , loftkælinga, varmadælukerfa, spenna með hárri rafspennu, loftkælinga í vélknúnum ökutækjum, leysiefna og staðbundinna slökkvikerfa sem innihalda flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir skulu hafa vottun. Til að hljóta slíka vottun skulu þeir hafa lokið námi með fullnægjandi hætti samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    Rekstrar- og þjónustuaðilar skulu hafa vottun um að þeir uppfylli kröfur reglugerða sem ráðherra setur um húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað vegna starfsemi sinnar. Enn fremur skulu rekstrar- og þjónustuaðilar hafa vottun um að starfsmenn þeirra hafi hlotið vottun skv. 1. mgr.
    Vottun samkvæmt lögum þessum er framkvæmd af faggiltri skoðunarstofu samkvæmt lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., og gildir í fjögur ár. Hafi viðkomandi sannanlega verið að vinna við umrædd kerfi framlengist vottunin um önnur fjögur ár.

    d. (30. gr.)

Merking.


    Óheimilt er að flytja, setja á markað eða afhenda vöru og búnað sem inniheldur flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir nema á vörunni og búnaðinum sé merkiskilti með viðurkenndum iðnaðarheitum, innihaldslýsingu og varnaðarorðum.

    e. (31. gr.)

Reglugerðir um flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir.


    Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, að setja reglugerð vegna flúoreraðra lofttegunda um eftirtalin atriði:
     a.      nánari ákvæði um framkvæmd lekaleitar, áskilnað um lekaleitarkerfi og skráningu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda,
     b.      framkvæmd endurnýtingar,
     c.      framkvæmd vottunar,
     d.      framkvæmd og mat menntunar,
     e.      húsnæði, öryggi og lágmarkstækjabúnað starfsemi sem tengist notkun og meðferð efnanna,
     f.      nánari ákvæði um merkingar vöru og búnaðar,
     g.      ákvæði um notkun og bann við notkun flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er að gefa út bráðabirgðavottun skv. 29. gr. Slík bráðabirgðavottun gildir ekki lengur en til 4. júlí 2011. Umhverfisráðherra gefur út reglugerð um skilyrði bráðabirgðavottunar.
    Heimilt er að meta aðra menntun sem umsækjandi hefur sem jafngildi náms skv. 29. gr. Skal slíkt mat fara fram fyrir 4. júlí 2011.

4. gr.

Innleiðing á reglugerð.


    Lög þessi eru sett til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006 um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Jafnframt var höfð hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 303/2008 sem er í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006, um lágmarkskröfur og aðstæður fyrir gagnkvæmri viðurkenningu á vottorðum fyrirtækja og starfsfólks sem þjónusta staðbundin kælikerfi, loftkælingar og varmadælur sem innihalda tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir, sem vísað er til í ii. lið í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 112/2008 frá 7. nóvember 2008.

5. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 112/2008 frá 7. nóvember 2008 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 842/2006 um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir.

6. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.