Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 327  —  52. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2009–2013.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Ármann Þráinsson og Hafdísi Gísladóttur frá umhverfisráðuneyti, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Kristínu Lindu Árnadóttur og Sigrúnu Ágústsdóttur frá Umhverfisstofnun. Umsagnir bárust frá Mýrdalshreppi, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Skipulagsstofnun, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands, Reykjanesbæ, Gunnari Jónssyni, Skorradalshreppi, Samráðshóp íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal, Fljótdalshéraði, E. Tryggva Ástþórssyni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Vogum, Betri byggð í Mýrdal, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja, Lundavinafélaginu í Vík, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Háskólanum á Akureyri, Fornleifavernd ríkisins, Framtíðarlandinu, Reykjavíkurborg, Landsvirkjun, Grímsnes- og Grafningshreppi, Umhverfisstofnun, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Grundarfjarðarbæ, Viðskiptaráði Íslands, Hafnafjarðarbæ, Mosfellsbæ, Kópavogsbæ, Skaftárhreppi, Veiðimálastofnun, Flóahreppi og Ísafjarðarbæ.
    Að auki kynnti meiri hlutinn sér efni umsagna sem bárust um áætlunina á síðasta þingi (192. mál 136. löggjafarþings) frá Skotveiðifélagi Íslands, Landmælingum Íslands, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Gunnari Jónssyni, Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Náttúruverndarsamtökum Suðurlands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samorku, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands, Betri byggð í Mýrdal, Ferðamálastofu, Skipulagsstofnun, Bændasamtökum Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Háskólanum á Akureyri, Landsvirkjun, Landvernd, Umhverfisstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Mýrdalshreppi, Samráðshópi íbúa og hagsmunaaðila í Mýrdal, Skaftárhreppi, Rangárþingi ytra, Sveitarfélaginu Skagafirði og Ásahreppi.
    Í tillögunni er lagt til að unnið verði að friðlýsingu þrettán svæða á næstu fimm árum. Tillagan er unnin á grundvelli 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, þar sem kveðið er á um að umhverfisráðherra skuli láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi. Tillaga að náttúruverndaráætlun er nú lögð fram í annað sinn enda rann fyrri áætlun út í lok síðasta árs. Tilgangur heildstæðrar náttúruverndaráætlunar er að koma upp neti friðlýstra svæða og skal áætlunin taka til helstu tegunda vistgerða og vistkerfa, svo og jarðmyndana hér á landi, m.a. með tilliti til menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar, nauðsynjar á endurheimt vistgerða, nýtingar mannsins á náttúrunni og ósnortinna víðerna, sbr. 66. gr. laganna. Nokkur nýmæli má finna í tillögunni, m.a. er stefnt að því að friðlýsa tvær vistgerðir annars vegar og þrjár tegundir hryggleysingja og búsvæði þeirra hins vegar. Aðaláhersla er þó lögð á sjaldgæfar plöntutegundir og tegundir í hættu, og uppbyggingu heildstæðs nets verndarsvæða með áherslu á svæði sem skipta máli fyrir verndun plantna og búsvæði þeirra. Með það fyrir augum er lagt til að friðlýstar verði 24 tegundir háplantna, 45 tegundir mosa og 90 tegundir fléttna. Auk þeirra þrettán svæða sem og plantna og dýra sem stefnt er að vinna að friðlýsingu á kveður tillagan á um að áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun.
    Tillagan er flutt óbreytt frá síðasta þingi þegar hún náði ekki fram að ganga þrátt fyrir að umhverfisnefnd hafi lokið umfjöllun um málið og afgreitt nefndarálit um það (þskj. 864, 192. mál). Fyrir lágu fjöldi umsagna um málið frá síðasta þingi sem meiri hlutinn hafði til hliðsjónar auk þess sem sendar voru umsagnarbeiðnir að nýju og til fleiri aðila en áður. Meiri hlutinn hefur kynnt sér sjónarmið sem fram koma í umsögnum en þar ber mikið á gagnrýni á skort á samráði við landeigendur, sveitarfélög og hlutaðeigandi aðila við gerð áætlunarinnar. Hlaut þetta atriði því mikla umfjöllun í nefndinni. Auk þess var mesta umfjöllunin um samþættingu friðunar og nýtingar lands, samráð um friðlýsingu og friðlýsingarskilmála, markmið friðlýsingar, vísindalegan grunn áætlunarinnar og þá aðferðarfræði sem hún grundvallast á. Vegna þeirrar gagnrýni um að ekki hafi farið fram nægilegt samráð við gerð áætlunarinnar telur meiri hlutinn nauðsynlegt að árétta að samráðsferlið fer fram þegar unnið er að friðlýsingu einstakra svæða og er ákvörðun um friðlýsingarskilmála tekin í fullri samvinnu og samráði við landeigendur og hlutaðeigandi sveitarfélög.
    Meiri hlutinn hefur kynnt sér tillögur að friðlýsingu þeirra svæða sem eru í áætluninni. Í athugasemdum með tillögunni er ítarlega gerð grein fyrir ástæðum og markmiðum fyrirhugaðrar friðlýsingar ásamt mörkum svæða og lýsingum á þeim. Meiri hlutinn áréttar að áætlunin er unnin á vísindalegan hátt og á grundvelli aðferðafræði sem almennt er notast við annars staðar í Evrópu. Við ákvörðun þeirra svæða sem lagt er til að verði á náttúruverndaráætlun er stuðst við vísindalega gagnagrunna Náttúrufræðistofnunar Íslands um tegundir, vistgerðir og jarðfræði landsins. Fagleg mat er lagt á það hvaða þættir í náttúru landsins eru verndarþurfi og raunhæfar tillögur um friðlýsingu þannig mótaðar út frá vísindalegum gögnum. Meiri hlutinn telur því ljóst að faglega hafi verið unnið að gerð áætlunarinnar og ákvörðun þeirra svæða sem hún nær til. Gerir meiri hlutinn ekki athugasemdir við tillögur að friðlýsingu einstakra svæða.
    Meiri hlutinn telur þó rétt að benda á að samþykkt tillögunnar jafngildir ekki fyrirfram ákvörðun um friðlýsingu svæðanna heldur er hún í reynd viljayfirlýsing frá Alþingi um að unnið verði að friðlýsingu þeirra. Um er að ræða áætlun og því felur samþykkt hennar hvorki í sér friðun né endanlega ákvörðun um mörk friðlanda. Markalínur hins friðlýsta svæðis og reglur um landnotkun, framkvæmdir og aðrar athafnir á svæðinu eru því ekki skýrar fyrr en friðlýsingarskilmálar þess liggja fyrir sem unnir eru í samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Meiri hlutinn telur að við endanleg mörk friðlandsins í Þjórsárverum og friðlands við Langasjó beri að taka til skoðunar í samræmi við þær ábendingar sem fram koma í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands við áætlunina.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. ágúst 2009.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.



Lilja Mósesdóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.