Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 328  —  52. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um náttúruverndaráætlun 2009–2013.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Minni hluti umhverfisnefndar mótmælir harðlega þeim fáheyrðu vinnubrögðum sem meiri hluti nefndarinnar viðhefur í sambandi við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar. Meiri hlutinn tekur málið út úr nefndinni án þess að eðlileg umfjöllun hafi átt sér stað í nefndinni. Málið hefur aðeins verið tekið til efnislegrar umfjöllunar á tveimur fundum nefndarinnar og þá aðeins með þeim hætti að fulltrúar umhverfisráðuneytis og stofnana þess kynntu efni hennar. Ekki hefur verið gerð tilraun til að fá til fundar við nefndina þá fjölmörgu umsagnaraðila sem gerðu athugasemdir við einstök atriði hennar á liðnu vori. Ekki var einu sinni farið yfir þær athugasemdir sem þá komu fram og þær ræddar.
    Náttúruverndaráætlun er umfangsmikil áætlun sem fela á í sér stefnumörkun Alþingis í mikilvægum málaflokki. Meiri hluti umhverfisnefndar rökstyður ákvörðun sína um að taka málið út úr nefnd svo til umræðulaust með því að það hafi fengið ítarlega umfjöllun síðasta vor. Nauðsynlegt er að benda á að þar var um að ræða aðra umhverfisnefnd og annað kjörtímabil. Hátt í helmingur alþingismanna er nýr og aðeins einn nefndarmaður í núverandi umhverfisnefnd átti sæti í nefndinni á þeim tíma. Það liggur því augum uppi að umfjöllun gömlu nefndarinnar kemur á engan hátt í stað umfjöllunar þeirrar nefndar sem nú situr. Umsagnir frá fyrri umfjöllun liggja að vísu fyrir i gögnum málsins, en eins og áður er bent á var ekki á neinn hátt farið yfir þær á vettvangi nefndarinnar.
    Vert er að vekja athygli á því að fyrri umhverfisnefnd gerði ýmsar tillögur um breytingar á þeirri áætlun sem þáverandi umhverfisráðherra lagði fyrir þingið. Núverandi ráðherra lagði hins vegar fram áætlunina óbreytta, án þess að tekið væri tillit til þessara breytingartillagna. Af hálfu núverandi umhverfisnefndar hefur ekkert verið fjallað um þessar breytingartillögur eða reynt að grafast fyrir um röksemdirnar fyrir þeim. Þau vinnubrögð sýna auðvitað svo ekki verður um villst að umfjöllun nefndarinnar síðasta vor getur ekki réttlætt það að málið sé afgreitt nú án efnislegrar umfjöllunar.
    Þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í þessu máli vekja grundvallarspurningar um það hvernig meiri hluti nefndarinnar telur að umfjöllun í nefndum eigi að vera. Ekki verður annað séð en að nefndin telji slíka umfjöllun óþarfa. Með sama hætti má spyrja hvort meiri hluti nefndarinnar telur yfir höfuð einhverja ástæðu til að Alþingi fjalli um náttúruverndaráætlun, ef þinginu er aðeins ætlað afgreiða áætlun ráðuneytisins umræðu- og athugasemdalaust.
    Minni hluti umhverfisnefndar telur ekki forsendur til að fjalla efnislega um innihald áætlunarinnar í ljósi þessara vinnubragða. Minni hlutinn gagnrýnir hins vegar þessa ómálefnalegu afgreiðslu af hálfu meiri hluta nefndarinnar og telur hana ganga þvert gegn öllum sjónarmiðum um vönduð, fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð. Með þessum hætti er bæði málefninu sjálfu og þinginu sem slíku sýnd fádæma vanvirðing.

Alþingi, 12. ágúst 2009.



Birgir Ármannsson,


frsm.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Vigdís Hauksdóttir.



Birgitta Jónsdóttir.