Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010

Föstudaginn 08. janúar 2010, kl. 11:04:49 (0)


138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að við eigum að reyna að tala okkur niður á sátt. Sannarlega er ég til í það. Mér fannst hins vegar ræða hv. þingmanns ekki vera í þeim farvegi og ég vona að hann misvirði það ekki við mig þótt ég svari honum eilítið með svipuðum hætti og hann ávarpar okkur.

Hv. þingmaður segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki freistað þess að koma málstað Íslendinga á framfæri. Ég fullyrði að í sögu lýðveldisins hefur aldrei verið jafnöflugt og -samræmt átak til að gera það og einmitt núna. Aldrei hefur verið talað á jafnskömmum tíma við jafnmarga forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, og ef hv. þingmaður telur að það hafi ekki haft áhrif bið ég hann að lesa það sem hann tekur alltaf sem sínar daglegu línur, ritstjórnargrein Morgunblaðsins þar sem einmitt er talað um að málstaður Íslendinga njóti nú miklu betri skilnings erlendis en nokkru sinni fyrr. Sú er staðreyndin. Ef menn vilja ræða þetta málefnalega skulu menn gera það með rökum og með staðreyndum.