Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010

Föstudaginn 08. janúar 2010, kl. 11:12:12 (0)


138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:12]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður ekki annað merkt af þessari ræðu hv. þingmanns en að hann sé ósammála ritstjóra Financial Times, hann sé þeirrar skoðunar að við Íslendingar höfum ekki verið beittir neinum órétti, að kröfur sem gerðar eru á okkur Íslendinga séu sanngjarnar og eðlilegar. Ég ætla að upplýsa hv. þingmann um eitt, Bretar eru sú þjóð sem hvað mestu hefur varið af almannafé til að leysa bankakrísuna. Hversu miklum fjármunum hafa þeir varið? 100 milljörðum punda. Almenningur í Bretlandi mun þurfa að taka á sig 100 milljarða punda vegna bankakrísunnar.

Við skulum heimfæra þetta upp á íslenskan veruleika og leiðrétta fyrir höfðatölu. Það jafngildir tveggja ára vaxtagreiðslum af Icesave fyrir okkur Íslendinga. Það er heildarkostnaður almennings í Bretlandi vegna bankakrísunnar og þar þurfa þó stjórnvöld að berjast með kjafti og klóm fyrir þeim aðgerðum og réttlæta þær fyrir skattgreiðendum. Þau hafa verið í mikilli vörn. Tveggja ára vaxtagreiðslur samsvara því sem lendir á Bretum. (Forseti hringir.) En hv. þingmanni finnst ekki ósanngjarnar kröfur þeirra um að við tökum á okkur kannski tífalda þá upphæð.