Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010

Föstudaginn 08. janúar 2010, kl. 11:48:34 (0)


138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður er að vísa til þess stjórnarfrumvarps sem nú liggur fyrir þinginu (GÞÞ: Nei, þingmannafrumvarpsins ...) — þingmannafrumvarp mitt sem ég hef flutt gegnum mörg ár? (GÞÞ: Já.) Þar er einmitt vísað til þess að það þurfi að skoða sérstaklega, og það kemur fram í greinargerðinni, hvort ekki þurfi að hafa hliðsjón af þeim ákvæðum sem eru í dönsku lögunum sem undanskilja ákveðna þætti við þjóðaratkvæðagreiðslu. (GÞÞ: Það breytir engu.) Það taldi ég fram í framsögu minni og taldi að nefndin sem fjallaði um málið þyrfti einmitt að skoða það. Hvar værum við stödd ef við værum að setja fjárlög og skattatillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég veit ekki hvar það mundi enda.

Ég taldi það koma fram í framsögu minni áðan að ef ég fyndi að það skapaðist raunverulegur grundvöllur til að ná einhverri breiðri sátt í þessu máli — þá er ég ekki að tala um bara innan þings, ég er að tala um milli þings og þjóðar. Maður veltir því líka fyrir sér að það er forseti sem vísar málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað gerir forsetinn ef einhver sátt næst (Forseti hringir.) á milli Íslendinga og Hollendinga og Breta um einhverja aðra leið, þá þurfum við væntanlega að breyta lögunum? Hvað mun forsetinn gera þá? (Forseti hringir.) Mun hann vísa málinu aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu? Mörgum spurningum er ósvarað (Forseti hringir.) og sérstaklega er ósvarað þeim efnisrökum sem þurfa að koma fram sem stjórnarandstaðan vill leggja fram í þessu máli.