138. löggjafarþing — 70. fundur,  29. jan. 2010.

kosning fimm manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 8. gr. laga nr. 6 1. febrúar 2007, um Ríkisútvarpið ohf.

[12:08]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Hv. þingmenn, það er ágætt að standa hér aftur í dag eftir sæmilegt hlé. Hv. þingmenn eru nú að fara að tilnefna fólk í stjórn Ríkisútvarpsins sem sennilega er önnur mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Hér á að tilnefna fólk í pólitíska meirihlutastjórn og mig langar að beina þeirri spurningu til hv. þingmanna af hverju þeir telji það eðlilegan gang mála að hafa pólitíska meirihlutastjórn í Ríkisútvarpinu. Hver er stefna þeirra nýju stjórnarmanna sem á að tilnefna í stjórn RÚV og hvers vegna er stefna þeirra ekki kynnt almenningi fyrir fram?

Á hverju byggir þetta val fjórflokksins á fólki í stjórn RÚV og hvers vegna er ekki lögð fram stefnumótun fyrir fram fyrir fundinn og hvernig þetta fólk á að framfylgja henni? Að lokum hvet ég stjórnarflokkana sérstaklega til að axla ábyrgð á vanda Ríkisútvarpsins. Það er búið að skera þar óhæfilega niður. Þetta er mjög mikilvæg stofnun fyrir almenning í landinu og það hefur t.d. ekki komið fram neitt um það með hvaða hætti á (Forseti hringir.) að efla fréttaflutning stofnunarinnar sem á þessum tímum skiptir gríðarlega miklu máli.